Monday, March 29, 2010
Páskahretið !
Þegar við lentum á Egilsstaðaflugvelli í gær, þá tók á móti okkur óþægileg snjóbirta, enda glaða sól og fannhvít jörð. Það reyndist ekki mjög erfitt að komast yfir Fjarðarheiði, þó skyggnið væri ekki gott. Síðar um daginn fór að kafsnjóa eins og komin væri jólamánuður og fannst víst flestum nóg um.
En það sem sjá má á meðfylgjandi myndum var útlitið utandyra hjá okkur, þegar við komum á fætur í morgun. Allt fannbarið, jafnt hús, bílar og aðrir hlutir sem veðrið náði til. Þetta er sannkallað páskahret og vonandi það síðasta á þessum vetri, því við erum orðin leið á þessum umhleypingum sem hindra okkur á margan hátt. Vorið virtist á næsta leyti og fyrstu vorblómin útsprungin þegar þetta skall á. Ég var aftur komin með hjólið mitt í notkun, enda veitti mér ekki af hreyfingunni eftir kyrrsetur skammdegisins og var því glöð farin að hlakka til vorverkanna í garðinum og hætt að gefa fuglunum, sem nú hópast aftur í bæinn í leit að æti....
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Magnað. Ég man svo vel veðrið þessa daga fyrir 28 árum, þá dó Óskar minn (2.apríl) þá var ekki mikill snjór fyrir norðan, miklar leysingar í gangi. Þegar við flugum suður um kvöldið (25.3.) þá var blíða í borginni og 1.apríl gekk ég einmitt niður Laugaveginn á stuttermabol í 15.stiga hita. Eftir páska það ár gerði síðan heljarinnar hret heima og allt fór á kaf. Kær kveðja og vonandi vorar brátt.
Post a Comment