Monday, September 20, 2010

Góð helgi fyrir norðan !





Eftir vinnu síðastliðið föstudagskvöld keyrði ég norður til Akureyrar ásamt Lukku og Aron sem urðu mér samferða norður. Á undan okkur fóru félagar okkar úr Sáló, en til stóð að heimsækja miðla sem staddir voru á Akureyri og það gerðum við svo sannarlega og ég held að enginn hafi farið ósáttur heim.
Við gistum flest í íbúð sem við leigðum eina nótt og þar fór vel um okkur. Við skruppum á kaffihús og vorum svo boðin í mat til Þórhalls miðils, en hann er sérstakur vinur okkar (og frændi minn í 5.lið :) svo varla gerist það mikið betra...
Við kíktum auðvitað á Glerártorgið og fleiri búðir og flestir keyptu eitthvað sem þá langaði í eða vanhagaði um. Sjálf gerði ég góð kaup og var mjög ánægð með alla ferðina. Að lokum borðuðum við saman kvöldverð áður en flestir héldu heim á leið á laugardaginn. Sjálf yfirgaf ég hópinn og ók til Húsavíkur og heimsótti mömmu og aðra ættingja og vini sem þar eru. Þar verslaði ég meira hjá vinkonum mínum, m.a. forláta glerská sem ég nota núna til að geyma í allar fjarstýringarnar á sófaborðinu okkar. Einnig keypti ég fallegt blóm í blómabúðinni "Blómabrekku" sem opnaði í s.l. viku og fékk að auki sem gjöf frá vinkonu minni, forláta blómvönd sem ég tók líka með mér austur.
Síðast en ekki síst, þá var svo hringt í mig frá Egilsstöðum og mér tilkynnt að þar biðu mín 3 nýskotnar gæsir sem þurftu að komast í frost sem fyrst og gat ég ekki annað en glaðst yfir öllum þeim feng sem ég kom með heim eftir þessa ágætu ferð.
Í ofanálag þá var veðrið með besta móti, það var blíða á báðum leiðum, þó talað væri um hálku á Möðrudalsöræfum, þá varð ég aldrei vör við það. Og sól skein í heiði bæði á Akureyri og Húsavík, svo betra gat það ekki verið miðað við árstíma held ég barasta !!!
Ég vil að lokum geta þess að myndina af Villu vinkonu fékk ég lánaða á netinu hjá Heiðu systur hennar :)

Sunday, September 12, 2010

Uppskerustörfin





Fyrir ári síðan hirti ég sólber af runna sem ég hafði fært foreldrum mínum til Húsavíkur fyrir nokkuð löngu síðan. Ég hafði aldrei prófað að nota þau fyrr, en ákvað nú að sjóða sultu úr þeim og gerði það á sama hátt og ég sýð bláberjasultu.
Útkoman varð býsna góð, svo ég ákvað að nota eina krúsina til að taka þátt í sultukeppni sem fram fór hér á Seyðisfirði í fyrrahaust og var svo heppin að þessi tilraunasulta féll í kramið og vann fyrstu verðlaun.
Nú í haust fékk ég stikkilsber í fyrsta skipti í hendurnar og ákvað að gera eitthvað úr þeim. Stikkilsber eru ansi stór, eða álíka og vínber, en að lögun mjög lík og rifsber. Þau voru ekki fullþroskuð og voru því ansi súr, svo ég ákvað að nota púðursykur, kanilstangir og negulnagla með þeim. Af þeim sökum varð sultan brún og líkist mjög rabbarbarasultu með kryddbragði.
Hvort að þessi sulta kemur til með að falla í kramið hjá dómurum í næstu sultukeppni veit ég ekki, en mitt motto er nú bara að vera með, fyrst ég á sultu sem talist getur óvenjuleg og er sannarlega tilraunasulta eins og sóberjasultan í fyrra....
En hvað sem öðru líður, þá er ég líka búin að sjóða bláberjasultu í nokkrar krúsir og sömuleiðis rifsber og rabbarbara, þannig að nóg er til af sultu á okkar heimili.
Síðast en ekki síst þá bjó ég til svolitla hrásaft úr krækiberjum og bláberjum sem mér finnst afar gott að drekka kalt úr ísskáp og blandað með köldu vatni til helminga. Ég hefði bara þurft að búa til mikið meira :)
Að lokum er svo heil skúffa í frystinum mínum full af plastdöllum fullum af sveppum, paprikum, púrru, graslauk, myntu og fleiru sem ég kem til með að nota í vetur, ásamt fullum krúsum af blóðbergi, einiberjum og skessujurt sem er algjört sælgæti á lambakjötið og alla villibráð. Kartöflurnar í heimagarðinum eru ennþá óuppteknar og fá að vaxa eitthvað lengur, meðan veður helst svona gott. En gulræturnar borðum við daglega beint úr garðinum ásamt salatinu. Jarðarberin eru að verða uppétin og er þá flest talið sem til fellur af ætum afurðum í okkar garði þetta árið.

Wednesday, September 08, 2010

Veiðiskapur !!!





Þegar við systur vorum nýbúnar að sortera kartöflurnar og setja í poka og ganga frá þeim inn fyrir nóttina, þá fór Adam að leika sér með vasaljós úti í myrkrinu og rakst þá á mús sem fraus úr hræðslu þegar ljósið skein á hana. Við hlupum öll upp til handa og fóta og skoðuðum hana í krók og kring og Didda náði meðf. myndum. Við létum samt vera að taka hana til fanga, nógu hrædd var hún greyið samt :)
Til að skoða myndirnar betur í stækkaðri útgáfu, þá endilega smellið á þær, sérstaklega myndina af Adam með vasaljósið, svo músin í neðra horninu sjáist :)))
En daginn eftir fórum við í veiðiferð, þó hávaðarok væri við Hafurstaðavatn. En það var 20 stiga hiti úti og við vildum sannreyna hvort ekki fengist neinn fiskur í vatninu eins og sumir óttuðust. En búið var að hleypa úr vatninu, svo rækilega að varla var hægt að koma bátnum á flot vegna vatnagróðurs sem stöðvaði hann ítrekað.
Rúnar brá þá á það ráð að fækka fötum og vaða með bátinn og draga hann og ýta honum eftir þörfum. Þeir nafnar lögðu svo netin þar sem vatnið er dýpst og fengu á einum klukkutíma yfir 20 silunga, vel feita og æta. Við urðum auðvitað mjög glöð yfir aflanum og elduðum hluta hans í kvöldmat, ásamt nýjum kartöflum og bláberjum með ís sem bragðast alltaf vel sem eftirréttur :)

Í sól og sumaryl á Húsavík




Við Didda systir ákváðum að fara norður s.l. helgi, bæði til að heilsa uppá mömmu og einnig að taka upp kartöflurnar sem við settum þar niður í vor, því framundan hjá henni er ferðalag til Berlínar um næstu helgi og ég á förum til Tyrklands síðar í mánuðinum, svo vissara væri að nota þessa helgi, því aldrei veit maður hvenær vetur gengur í garð.
Við vorum einstaklega heppnar með veður, því önnur eins sól og hiti hefur sjaldan verið svona dag eftir dag. Og hæfilegur vindur til að þurrka uppskeruna sem við skiptum niður, tókum sumt með okkur en annað var flutt í geymsluna út við Gónhól.
Rúnar minn kom með Diddu og nafna hans að sunnan og tók Adam litla með og fékk hann að atast í öllum verkum með okkur. Hitavatnsinntakið "heima í Hlíð" hafði bilað og Rúnar fékk því nóg verkefni, að útvega nýja varahluti og skipta.
Við notuðum laugardaginn í veiðiferð í Hafursstaðavatn og vorum ótrúlega heppin, en ég læt myndir og spjall um það fylgja hér á eftir þessu- ekki síst vegna þess að Adam lenti í svolitlu ævintýri sem ég læt fylgja með :)

Wednesday, September 01, 2010

Sumaya Rós !




Laugardagurinn 28. ágúst var nafngiftardagur litlu ömmustelpunnar minnar. Hún fékk nöfnin Sumaya Rós og verður væntanlega nefnd Mæja Rós ef að líkum lætur.
Hún er alveg yndislegt lítið kríli og mér finnst alltof langt á milli okkar. Ég væri mjög sátt ef ég gæti skroppið til að sjá hana um helgar, en það er fjarri lagi. Þó má ég þakka fyrir að hún skuli ekki vera erlendis, þá væri enn erfiðara að kíkja í heimsókn en raunin er á. Aðalatriðið er að allir séu frískir og líði vel.
Áður en ég yfirgaf hana og fjölskylduna hennar, þá héldum við nafngiftina hátíðlega og buðum nánustu ættingjum og vinum sem voru í nágrenninu og gekk það ljómandi vel.
Rúnar var kominn suður í frí og tók svo við af mér, því ég varð að fara aftur heim í vinnuna, en Jóhönnu veitti ekki af að hafa aðstoð svona fyrst eftir barnsfæðinguna, mest til að sinna Adam sem ætlar svo að koma austur með afa í nokkra daga, svo mamma hans fái meiri frið með þá litlu :)