Sunday, September 12, 2010

Uppskerustörfin





Fyrir ári síðan hirti ég sólber af runna sem ég hafði fært foreldrum mínum til Húsavíkur fyrir nokkuð löngu síðan. Ég hafði aldrei prófað að nota þau fyrr, en ákvað nú að sjóða sultu úr þeim og gerði það á sama hátt og ég sýð bláberjasultu.
Útkoman varð býsna góð, svo ég ákvað að nota eina krúsina til að taka þátt í sultukeppni sem fram fór hér á Seyðisfirði í fyrrahaust og var svo heppin að þessi tilraunasulta féll í kramið og vann fyrstu verðlaun.
Nú í haust fékk ég stikkilsber í fyrsta skipti í hendurnar og ákvað að gera eitthvað úr þeim. Stikkilsber eru ansi stór, eða álíka og vínber, en að lögun mjög lík og rifsber. Þau voru ekki fullþroskuð og voru því ansi súr, svo ég ákvað að nota púðursykur, kanilstangir og negulnagla með þeim. Af þeim sökum varð sultan brún og líkist mjög rabbarbarasultu með kryddbragði.
Hvort að þessi sulta kemur til með að falla í kramið hjá dómurum í næstu sultukeppni veit ég ekki, en mitt motto er nú bara að vera með, fyrst ég á sultu sem talist getur óvenjuleg og er sannarlega tilraunasulta eins og sóberjasultan í fyrra....
En hvað sem öðru líður, þá er ég líka búin að sjóða bláberjasultu í nokkrar krúsir og sömuleiðis rifsber og rabbarbara, þannig að nóg er til af sultu á okkar heimili.
Síðast en ekki síst þá bjó ég til svolitla hrásaft úr krækiberjum og bláberjum sem mér finnst afar gott að drekka kalt úr ísskáp og blandað með köldu vatni til helminga. Ég hefði bara þurft að búa til mikið meira :)
Að lokum er svo heil skúffa í frystinum mínum full af plastdöllum fullum af sveppum, paprikum, púrru, graslauk, myntu og fleiru sem ég kem til með að nota í vetur, ásamt fullum krúsum af blóðbergi, einiberjum og skessujurt sem er algjört sælgæti á lambakjötið og alla villibráð. Kartöflurnar í heimagarðinum eru ennþá óuppteknar og fá að vaxa eitthvað lengur, meðan veður helst svona gott. En gulræturnar borðum við daglega beint úr garðinum ásamt salatinu. Jarðarberin eru að verða uppétin og er þá flest talið sem til fellur af ætum afurðum í okkar garði þetta árið.

1 comment:

Asdis Sig. said...

Sæl elsku Solla mín. Aldeilis margar skemmtilegar myndir hér að neðan, það hefur verið nóg að gera hjá þér sé ég. Gaman að fá alla þessa uppskeru, það er eitthvað svo notalegt að viða ýmsu að sér á haustin. Innilega til hamingju með fallegu stúlkuna ykkar og nafnið hennar. Héðan er allt gott að frétta, sólin skín og það er milt og fallegt haustveður. Kær kveðja austur og ég er viss um að sultan þín slær í gegn. kv. Ásdís