Saturday, April 23, 2011
Föt sem framlag !
Ekki get ég hrósað mér fyrir dugnað við prjónaskap, þó ég hafi vissulega prjónað nokkrar peysur og aðrar flíkur gegnum tíðina. En ég hef nú lokið við að prjóna þá undarlegustu peysu sem ég hef nokkurn tíman prjónað á ævi minni. Hún er AÐEINS EITT STYKKI, mjög svo undarlegt í laginu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. En þegar búið er að leggja stykkið rétt saman og sauma þar sem sauma þarf og setja hnappa eða tölur, þá er þetta stórsniðug uppskrift og ég tel að það þurfi bæði hugmyndaríka og mjög vana prjónakonu til að hanna og útbúa slíka flík.
Þessi litla peysa er ekki handa dótturdóttur minni, heldur fer hún í söfnun Rauða Krossins sem nefnist Föt sem framlag, en nokkrar konur hér í bæ og a.m.k. einn karlmaður hafa í allan vetur verið að prjóna svona peysur og hekla teppi og aðrar flíkur í þessa söfnun sem nýtist vonandi vel hjá þeim fjölskyldum sem þurfa á hjálp að halda. Það kom sér vel núna að ég hef í áratugi safnað hnöppum og tölum af ónýtum flíkum og get því núna ásamt félögum mínum gengið í þetta safn til afnota á flíkurnar...
Thursday, April 21, 2011
Gleðilegt sumar !
GLEÐILEGT SUMAR og takk fyrir veturinn, þið sem lítið hingað inn :)
Vegna óvenju mikillar veðurblíðu undanfarið hefur það nú skeð, sem aðeins hefur gerst einu sinni áður í okkar búskap, að páskaliljurnar okkar úti í garði eru að springa út núna um páskana og ég gat því farið út og sótt mér nokkrar í vasa, auk þess sem ég var búin að klippa niður nokkra runna sem þurfti að snyrta og setti fáeinar greinar í vatn til að skreyta, því ég á nóg af páskaungum og skrauteggjum til að hengja á þær.
Það er alltaf svolítið skemmtilegt að breyta til um páskahátíðina og gera vorið líflegra, því oftast er vetrarveður á þessum tíma sem hentar frekar skíðafólki en sóldýrkendum, en ég tilheyri frekar síðari hópnum :)
8 ungmenni fermd í dag á Seyðisfirði
Í dag, skírdag voru fermd 8 ungmenni í Seyðisfjarðar kirkju. Þessi dagur hefur verið árlegur fermingardagur til fjölda ára, en uppúr 1980 fóru fermingar hér fram um Hvítasunnu og það er ekki hægt að neita því að yfirleitt er veðrið betra á þeim tíma en um páskana. En að þessu sinni hefur veðrið verið óvenju gott og þessi dagur var ljómandi góður, því sól skein í morgun og hitamælirinn sýndi 15 stig, en það kólnaði nú niðurfyrir 10 stig eftir hádegið en það var þó þurrt og bjart, svo ekki ætla ég að kvarta, enda fórum við á rúnt kringum fjörðinn í leit að nýjum farfuglum sem flykkjast nú til landsins í stórum hópum... Við sluppum við allar veislur í þetta sinn og létum okkur nægja eina ávaxtatertu sem ég útbjó handa okkur í tilefni dagsins og eldaði svo ljúffenga og þrælholla kjúklingasúpu í kvöldmatinn sem lætur manni líða vel, án þess að maður verði of saddur :)
Farfuglarnir streyma til landsins !
Það liggur við að maður sjái nýja farfugla streyma hingað daglega. T.d. í dag sáum við fyrstu spóana, fyrstu jaðrakanana og líka fyrstu sandlóuna og tildruna, en auk þess eru komnir hópar af lóum, stelkum, gæsum og fleiri fuglum eins og tjöldum og straumöndum sem virðist fjölga ár frá ári. Ég sá líka fyrstu þúfutittlingana í dag hér í garðinum og skógarþrestirnir vekja okkur líka flesta morgna með söng sínum og finnst mér það afar ljúft. Það kemur þó fyrir að hanagal heyrist snemma dags frá nágrönnum okkar, en annars trufla hænsnin okkur lítið, þó oft heyrist í þeim meira og minna. Dúfurnar eru líka ennþá á svæðinu og halda mikið til í kringum hænsnin og sitja mikið á þakinu hjá okkur og þá heyrist talsvert í þeim, eins og þrusk eða líkt og snjór sé að renna af þakinu. Það verður svo heilmikið fjör þegar kríurnar mæta, en það verður nú væntanlega ekki fyrr en í byrjun maí....
Tuesday, April 12, 2011
Minnisvarðinn upplýstur !
Þegar veðurblíðan skall á í síðustu viku dreif Rúnar í því ásamt Jónasi Jóns að setja upp 4 ljós í kringum minnisvarðann um Jón Pálsson fv. skipstjóra og Ólaf M. Ólafsson útgerðarmann og tókst það ljómandi vel (þó mér sé málið skylt :)
Þessi ljós fara einkar vel við minnisvarðann, enda voru þau valin sérstaklega, sem líkust vita sem lýsir sjófarendum. Nú er bara eftir að laga umhverfið betur með gróðri og öðru viðeigandi...
Friday, April 08, 2011
Óvenjuleg veðurblíða í byrjun apríl ...
Það skeður ekki oft að veðráttan sé jafn mild á þessum árstíma eins og nú er. Fyrstu blómin er farin að springa út og brumið farið að springa út á runnunum, auk þess sem fyrstu farfuglarnir eru mættir og syngja hástöfum um allan bæ og sólin skín svo hlýtt og skært að dýrin leggjast í sólbað, a.m.k. nágrannadýrin mín, bæði kötturinn og hænsnin, auk þess sem hreindýrin virðast una sér vel hér niður undir bæ og lítur ekki út fyrir að þau séu neitt á förum til fjalla.
Það er varla við því að búast að þessi blíða endist, þó gott hefði verið að fá vorið svo snemma án þess að eiga kuldahret yfirvofandi sem hugsanlega mundi skemma gróðurinn sem kominn er svo vel á veg.... Þýðir nokkuð annað en vona það besta ?
Ég reikna með að nota þessa helgi til að grófhreinsa garðinn ef spáin gengur eftir í von um að það saki ekki....!
Ingibjörg 80 ára
Það var mikið fjör s.l. laugardag í Herðubreið, þegar Ingibjörg Rafnsdóttir hélt uppá 80 ára afmælið með flestum sínum afkomendum og fjölskyldum. Auk þess mættu um 100 manns og samglöddust henni þennan dag og mikið var sungið og gert að gamni sínu. Síðast en ekki síst var svo veislumatur á borðum sem allir hljóta að hafa kunnað að meta. Hópur eldri borgara dönsuðu línudansa og Stefán Ómar og strákarnir spiluðu nokkur lög, auk þess sem Billa og Gulla stjórnuðu fjöldasöng og fleiru...
Þau Ingibjörg og Addi eru einstaklega hress og viljug og áhugasöm að taka þátt í öllu sem um er að vera hér í bænum. Þau eiga heiður skilið m.a. fyrir það.
Verst að Hilla frænka skyldi ekki geta verið hér og samglaðst sinn gömlu skólasystur :)
Subscribe to:
Posts (Atom)