Thursday, April 21, 2011

Farfuglarnir streyma til landsins !



Það liggur við að maður sjái nýja farfugla streyma hingað daglega. T.d. í dag sáum við fyrstu spóana, fyrstu jaðrakanana og líka fyrstu sandlóuna og tildruna, en auk þess eru komnir hópar af lóum, stelkum, gæsum og fleiri fuglum eins og tjöldum og straumöndum sem virðist fjölga ár frá ári. Ég sá líka fyrstu þúfutittlingana í dag hér í garðinum og skógarþrestirnir vekja okkur líka flesta morgna með söng sínum og finnst mér það afar ljúft. Það kemur þó fyrir að hanagal heyrist snemma dags frá nágrönnum okkar, en annars trufla hænsnin okkur lítið, þó oft heyrist í þeim meira og minna. Dúfurnar eru líka ennþá á svæðinu og halda mikið til í kringum hænsnin og sitja mikið á þakinu hjá okkur og þá heyrist talsvert í þeim, eins og þrusk eða líkt og snjór sé að renna af þakinu. Það verður svo heilmikið fjör þegar kríurnar mæta, en það verður nú væntanlega ekki fyrr en í byrjun maí....

No comments: