Tuesday, July 19, 2011

L.ung.A 2011






Hin árlega vika Listahátíðar ungs fólks á Austurlandi er nú nýafstaðin og tókst vel að vanda, með góðri aðstoð bæjarbúa við tiltekt og eftirlit. Veðrið lék við þátttakendur fyrri hluta vikunnar með sól og hlýju á hverjum degi, svo allir gátu spókað sig í blíðunni utandyra við vinnuna og listsköpunina sem var fjölbreytt að vanda. Það voru víst um 100 þátttakendur í listasmiðjunum sem voru nokkuð margar víða um bæinn.
Ég missti af tískusýningunni í þetta sinn vegna skorts á auglýsingu, en fór á flestar sýningar og aðrar uppákomur sem voru á laugardeginum og tók myndir. Nokkur sýnishorn fá að fljóta hér með, m.a. af minningarkrossum Jökuls sem voru í minningu íbúanna 24 sem fórust í snjóflóði á Seyðisfirði á Öskudag 1885.
Tónleikarnir og lokaballið fóru víst vel fram, ég bara rétt kíkti smá stund til að taka myndir en frétti að allt hefði gengið vel og bærinn var hreinn og snyrtilegur strax á sunnudeginum þegar ég ók um hann. Það er ekki hægt að neita því að þetta unga fólk og áhugamál þess setja mikinn svip á bæinn okkar þessa einu viku á ári og reyndar nokkuð lengi á eftir, því mörg verkanna eins og vegglistaverkin standa áfram og vekja vonandi athygli gesta og gangandi....
Á Facebook má sjá fleiri myndir af sýningum og atburðum LungA :)

1 comment:

Asdis Sig said...

Líf og fjör á Seyðisfirði, mér sýnist að það stefni í blíðu um helgina hjá ykkur, hér er orðið skýjað en 13 stiga hiti. Kær kveðja Ásdís