Monday, December 05, 2011

Jólaferð norður til mömmu !




Snemma að morgni 1. des.(afmælisdegi Rúnars) lagði ég af stað norður til mömmu í jólaheimsóknina, því ég sé ekki að ég komist aftur norður fyrir jól af ýmsum ástæðum. Veðrið var óvenju fallegt og sólroði m.a. á Jökuldals- heiðinni, þar sem ég sá sprettharðan mink á hlaupum við Gestreiðar- staðaána, rétt við veginn. Ég hef reyndar séð svona minka á hlaupum nokkuð oft, þó aldrei uppi á fjöllum fyrr en í þetta sinn.
Það var nýbúið að flytja blessaða mömmu úr Hvammi, heimili aldraðra yfir á öldrunardeild HÞ, þar sem hún deilir nú herbergi með Svövu frá Smjörhóli. Þeim kemur vel saman, en báðar voru þær ruglaðar yfir breytingunni og sögðust bara ekkert rata því allt væri orðið breytt.
En þær fá góða umönnun og eftirlit og vonandi venjast þær nýjum aðstæðum sem fyrst.
Það var ansi kuldalegt um að litast fyrir norðan og ég stoppaði þar ekki nema rúman sólarhring, en gat þó litið við hjá mínum góðu æskuvinkonum Sigrúnu og Villu og fleiri góðum vinum og ættingjum. Að lokum bar ég svo út öll jólakortin sem ég tók með mér til vina og vandamanna á Húsavík.
Vonandi verður þessi vetur bara góður þegar þessum kuldakafla lýkur, svo við getum skroppið sem oftast norður, sérstaklega mömmu vegna, á meðan hún þekkir okkur ennþá ! Heimferðin gekk líka vel þó veðrið væri að versna og þegar á Fjarðarheiðina kom var stórhríð og orðið illfært, svo að ég slapp með skrekkinn í þetta sinn síðasta spölinn...

1 comment:

Asdis said...

Bara að kvitta og þakka fyrir pistilinn.