Friday, May 18, 2012
Maí-hret !
Dagana 13.-15. maí var stórhríðarveður hér og allt varð hvítt af snjó. Vesalings farfuglarnir sem voru nýkomnir voru í miklum vandræðum við að afla sér fæðu, t.d. hrossagaukar sem trítluðu hér hundruðum saman um húsagarða og stungu sínu langa nefi ofan í snjóinn í leit að einhverju ætilegu í frostlausu grasinu undir. Því þrátt fyrir veðrið og snjóinn, þá var frostlaust á daginn og einhvern veginn slapp þetta furðu vel, flestir fuglarnir virtust þrauka, bæði gæsirnar sem lágu á eggjunum í hretinu og hinir nýkomnu. Þó urðu óhjákvæmilega aföll, t.d. fengum við einn steindepil í hendur sem kominn var að dauða, bæði horaður og kaldur og hefur trúlega dáið úr hungri og þreytu. Hann er svo fallegur að ég tók hann greyið og setti í frystipoka og hef hugsað mér að láta stoppa hann upp....
Saturday, May 12, 2012
Frumsýning og vorhátíðarkvöldverður !
Föstudaginn 11. maí var vorhátíð hjá starfsfólki Seyðisfjarðar- bæjar. Þá mætti um 40 manns í þríréttaða matarveislu á Hótelið og síðan fór allur hópurinn saman á frumsýningu á leikritinu Pelíkaninn, sem er frumsamið verk eftir heimamann (Ágúst Torfa Magnússon)og verður að segjast að honum hefur tekið mjög vel til með þetta fyrsta verk sitt sem sýnt er hér (mér vitanlega).
Þetta er bæði spennandi og bráðskemmtilegt verk og allir leikarar sem flestir eru ungir að árum, stóðu sig með mikilli prýði og ótrúlegt að þau hafi aldrei lært neitt af þessu tagi, því svo vel skiluðu þau sínum hlutverkum, án undantekningar.
Leikstjóri heftur greinilega líka kunnað sitt fag, en allir sem tóku þátt í þessu eru heimamenn og við getum því verið stolt af þessum hæfileikaríka hópi ungs fólks sem stendur sig svona vel og kemur skemmtilega á óvart :)
Farfuglar streyma til landsins
Þegar farfuglarnir byrja að streyma til landsins, þá finnst manni vorið vera alveg á næstu grösum. Tjaldurinn var fyrstur að vanda og lét heldur betur heyrast í sér hér við Fjarðarána. Svo komu skógarþrestir, gæsirnar og straumendur og síðan öll fuglafánan sem sækir til okkar á hverju vori, stelkar, hrossagaukar, spóar, lóur, jaðrakanar og smáfuglar eins og maríuerlan og nú síðast kom krían, en hún er sannkallaður sumarboði og maður væntir betra veðurs eftir að hún er mætt :)
Ég var svo heppin að heyra í fyrsta hrossagauknum í suðvestri og fyrsta maríuerlan sýndi mér hægri hliðina á sér, sem skv. gamalli þjóðtrú segir að þýði vestanáttir í sumar. Ég lifi því í voninni að fá gott sumar og ætla nú að sannreyna hvort hægt sé að treysta á svona gamla þjóðtrú hehe :)
En vetrarfuglarnir okkar heyja líka harða baráttu og smyrlar og fálki hafa séð til þess að dúfum, rjúpum og öðrum fuglum hefur fækkað hér þó nokkuð, enda hafa þeir fært sig upp á skaftið og eru farnir að veiða hér inni á milli húsa í bænum og óhræddir við mannfólkið sem vitanlega gerir þeim ekki mein og það virðast þeir vita...
Það er samt leitt að horfa uppá þessa lífsbaráttu, rétt eins og mér finnst ekki gaman að þurfa að veiða okkur til matar, þó ég kunni bæði að meta fisk og villibráð. Ég kýs samt að borða eins mikið af ávöxtum og grænfóðri eins og ég hef lyst á en lofa hinu að fljóta með í hófi...
Vorið á næsta leiti...
Veðráttan í vetur hefur verið mjög skrítin og eiginlega ekki snjór og vetur nema í 6 vikur, því að í byrjun febrúar kom blíðuveður, allur snjór hvarf og gróður fór að taka við sér. Síðan þá hefur gengið á með stuttum hríðardögum og sólardögum, misköldum/hlýjum sem ruglað hefur allan gróður og okkur mannfólkið jafnvel líka, því flestir vilja hafa vetur á veturna og sumar á sumrin, en þessi regla hefur farið úr skorðum á s.l. árum, hverju sem um má kenna.
Það var ótrúlega snemma sem krókusar fóru að springa út og brum að myndast á trjáum og runnum.
Og á endanum kom svo ein feit og falleg hunangsfluga inn um opinn gluggann í blíðunni og hvíldi sig hjá okkur eina nótt áður en hún hélt aftur af stað út í blíðuna. Vonandi veit þetta tíðafar ekki á vont sumar, við þurfum svo sannarlega á sólarsumri að halda eftir sólarleysið í 4 mánuði í vetur og vona ég að í þetta sinn veðri veðurguðirnir okkur hliðhollir :)
Páskar og fermingar
Ég hef verið mjög löt við að skrifa fréttir hér inn í margar vikur og man ekki lengur allt sem gerst hefur, en um páskana, sem voru rólegir hjá okkur, voru fermingar, bæði hér á Seyðisfirði og á Norðfirði og víðar. Gróa og Níels voru að ferma Hjálmar Aron og við drifum okkur í veisluna eftir að ég var búin að syngja með kórnum í fermingarmessunni hér heima. Þá var ég búin að útbúa fermingarkort handa öllum börnunum og ganga frá þeim, en það geri ég árlega. Mér finnst alltaf persónulegra að gera kortin sjálf, þó einstaka sinnum hafi ég ekki haft tíma til þess og kaupi þá kort í það skiptið...
Hér á bæ var borðuð páskagæs sem smakkaðist mjög vel og sá Rúnar um að svíða hana, en ég um eldamennskuna.
Eins og venjulega er hefðbundinn ananasfromage eftirréttur sem við kunnum öll að meta og síðast en ekki síst þá setti ég á 2 tertur yfir hátíðisdagana og óhætt að segja að allir hafi verið saddir eftir þessa frídaga :)
Föt sem framlag - verkefni fyrir RKI
Í kringum 20 manns hefur dundað við það í vetur að hekla, prjóna og sauma barnaföt og teppi o.fl. fyrir RKI verkefnið, "Föt sem framlag" og sendir hafa verið út nokkrir tugir af pökkum til þurfandi aðila erlendis, í Afríku og Hvíta Rússlandi. Þetta er annar veturinn sem þetta verkefni hefur verið í gangi og sama fólkið að mestu unnið við það.
Það eru alltaf nokkrar konur sem hittast vikulega í Sæbóli og taka til hendinni eins og þarf hverju sinni. Einn karlmaður hefur þó lagt hönd á plóginn og prjónað nokkur teppi. Sjálf hef ég heklað nokkur teppi, mest úr afgöngum sem ég hef safnað og úr 2 peysum sem ég rakti upp og notaði, (sjá fjólubláa teppið). Einnig hef ég séð um að tæma fatagám RKI reglulega og þar hef ég fundið bæði garn til að nota (sjá bleika teppið)og heilmikið af barnafötum sem við höfum getað notað í fatasendingarnar. Formaðurinn okkar hefur líka lagt hönd á plóginn, því hann hefur útvegað handklæði í pakkana og svona mætti áfram telja. Þegar margir hjálpast að, þá geta ýmis verkefni gengið nokkuð vel...
Enn ein norðurferðin :)
Helgina 20.-22. apríl vorum við Rúnar fyrir norðan í enn einni heimsókninni hjá mömmu. Henni fer stöðugt aftur, því miður, en svona er þessi sjúkdómur, það er engin miskunn og eins gott að við höfum fyrri reynslu af slíku, það auðveldar málið.
En það eru alltaf næg verkefni fyrir norðan, ég gat ekki sætt mig við ljóta göngustíginn sem illa var gengið frá við lóðina okkar, ég réðst á hann og hreinsaði ljótu þökurnar sem hafði verið hrúgað meðfram þeim, reyndi að laga kantinn öðrum megin, en fjarlægði allt sem var nær húsinu, nóg er samt eftir af ljótleikanum. Það er svo spurning hvort ég fæ skammir fyrir þetta, en vonandi ekki.
Rúnar fékk nokkra nýja rauðmaga í matinn, sem við skiptum á milli okkar og Sigrúnar vinkonu, en hún kom líka í kjúklingasúpu til okkar og sat með okkur að horfa á lokaþáttinn í Útsvari, enda okkar lið eystra að keppa :)
Síðast en ekki síst skrapp ég í heimsókn til Þórnýjar Björns til að skoða gamlar myndir og fékk að taka afrit af nokkrum þeirra sem við settum svo á Facebook til gamans fyrir Húsvíkinga.... Veðrið var eins og best er á kosið á þessum árstíma og auður vegur alla leiðina austur og mikið um hreindýr og gæsir á ferðinni eystra...
Subscribe to:
Posts (Atom)