Saturday, June 09, 2012
Sjómannadagurinn 2012
Sjómanna- dagurinn 2012 var sólríkur en nokkuð svalur. Siglingin á Gullver út fjörðin gekk samt vel og margt var um manninn, sérstaklega fannst mér mikið um aðkomufólk, bæði gamla Seyðfirðinga og óþekkta nágranna, líklega af Héraði og víðar ?
Það var heilmikið um að vera á svæðinu við Fiskvinnsluna eins og venjulega, þar var keppt í kappróðri, reiptogi, kapphlaupi og plankaslætti og húrruðu allir þátttakendur á plankanum í sjóinn sem hlýtur að hafa verið kaldur (of kaldur fyrir mig :)
Árgangahópar sem voru mættir til að fagna tímamótum voru mættir og duglegir að taka þátt í því sem var í boði og auk þess var boðið uppá fiskisúpu og rjóma/súkkulaðivöfflur og kaffi.
Síðan var sjómannahóf um kvöldið þar sem árgangahóparnir 3 fluttu smá skemmtan og Gullversmenn tóku líka lagið.
Maturinn rann ljúflega niður og Björn Hildir veislustjóri gerði grín að sjálfum sér og stjórninni og hélt uppi fjöldasöng, svo þetta kvöld fór friðsamlega fram á allan hátt. Hávaðinn í hljómsveitinni var full mikill að vanda, svo við fórum heim með fyrra fallinu og Ella mágkona sem kom austur til að taka þátt í skemmtun 1958 árgangsins var hin hressasta og lét ekki sitt eftir liggja í keppninni og öllu öðru þessa helgina....
Uppákomur á Seyðisfirði,,,
Það vantar ekki að nóg sé um að vera hér á Seyðisfirði. Á meðan við vorum í Noregi kviknaði í barnum hans Eyþórs, þ.e. Frú Láruhúsi. Sem betur fer brann það lítið og var tryggt, þannig að vonir standa til að hægt verði að gera það upp á ný.
Svo héldu félagar í Leikfélaginu áfram að sýna hið stórgóða leikrit Pelíkanann sem síðan var valið til að koma fram í þættinum LANDINN, en lokaþátturinn verður sýndur 17. júní og sá þáttur verður eingöngu frá Seyðisfirði. Sjávarguðirnir spiluðu líka og við Seyðfirðingar fylltum bíósal Herðubreiðar til að vera bakgrunnur sem hlær, klappar og tekur þátt í þættinum. Sjósundkonurnar verða líka með í þessum þætti og ýmislegt fleira sem ótalið er hér, enda var ég ekki viðstödd allar upptökur og hlakka því til að sjá útkomuna eftir rúma viku.
Sumarið loksins komið !
Á meðan við vorum fjarstödd var gott veður á Seyðisfirði og allur snjór hvarf úr bænum. Þegar við komum til baka voru fuglar liggjandi á hreiðrum sínum og matjurtagarðurinn okkar beið eftir að verða endurnýjaður. Rúnar sá nú að mestu um það, hann reif upp gamla fúna timbrið og bjó til 3 nýja kassa sem ég setti í kartöflur, gulrætur og jarðarber, en notaði svo gömlu jarðaberjakassana undir grænmetið. Vonandi veður sæmileg uppskera eftir þessa breytingu, því við bættum nýrri mold og skít og sandi í beðin og hreinsuðum burt allt gras og illgresi. Við gerðum þetta eins vel og aðstæður leyfðu, svo nú er bara að vona að veðrið verði líka hliðhollt okkur.
Gengið á Helgafell
Áður en við lögðum af stað til Noregs, gistum við í Hafnarfirðinum og gengum frá íbúðinni þar til útleigu í sumar. Harpa mágkona er alltaf jafn rösk og bauð okkur og Ellu mágkonu og hennar fjölskyldu í mat, svo við hefðum tækifæri til að hittast og spjalla. Hún vildi líka nota góða veðrið og ganga á Helgafell sem er þægilegt göngufjall suður af Hafnarfirði. Mig langaði að skreppa með henni og Rúnar kom þá líka, þó hann væri ekki góður í bakinu. En merkilegt nokk, þessi ganga varð líklega til þess að honum batnaði bara alveg og það var reglulega hressandi að brölta þessa leið eins og fjöldi manns gerði þennan dag. Það er ekki mín sterka hlið að labba upp brekkur eða klífa fjöll, en að ganga á jafnsléttu er ekkert mál, svo ég var bara ánægð með að hafa drifið mig þarna upp, þó ég færi frekar rólega á köflum. Á bakaleiðinni var ég að leika mér við myndatökur eins og sjá má á síðustu myndinni, þar sem við vorum komin niður í skógarlund sem varð á vegi okkar :)
Noregsferð í sól og blíðu
Mánudaginn 21. maí flugum við Rúnar út til Oslo í heimsókn til Jóhönnu okkar og fjölskyldu hennar. Einnig heimsóttum við líka Þröst bróðir Rúnars og hans fjölskyldu sem býr í sjálfri Oslo en Jóhanna og co búa í svefnbænum Ask sem er rétt utan við borgina. Þar er mikill skógur og rólegt mannlíf og aðalbláberjaling í flestum görðum, enda þekur það skógarbotninn allt um kring og því von um góða uppskeru í sumar, því komnir voru sætukoppar í miklu magni. Þau kunna öll mjög vel við sig á þessum stað og veðrið var með eindæmum gott þessa viku sem við stoppuðum hjá þeim, eða um og yfir 30 stig, því hitamælirinn sem var í skugga undir þakskyggni stóð flesta dagana í 30, þannig að hitinn í sólinni hefur verið mikið meiri. Enda flúðum við gjarnan í skugga trjánna og röltum heilmikið um skóginn með barnabörnin okkar, heimsóttum Adam í skólann og hittum þar 2 bekkjarsystur hans sem eru íslenskar og þar af önnur ættuð frá Seyðisfirði. Svona er nú heimurinn lítill. Laugardaginn fyrir Hvítasunnu dvöldum við öll hjá Þresti mági og snæddum þar saman frábæra grillmáltíð innan um plómu og eplatré. Á Hvítasunnudag þegar við þurftum að fara heim, var engu líkara en að allir borgarbúar væru í sólbaði á víðavangi, þar sem vötn, ár eða lækir voru til að busla í, enda hitinn mikill.
En okkur var sagt að við hefðum farið með góða veðrið, því daginn eftir var orðið svalt og kærkomin rigning var þá mætt á svæðið.
Þetta var ógleymanleg ferð, þó ekki færum við í neinar skoðunarferðir að þessu sinni, nema um nágrennið en þar var líka ýmislegt að sjá þó ekki verið þess getið frekar hér :)
Subscribe to:
Posts (Atom)