Saturday, June 09, 2012
Noregsferð í sól og blíðu
Mánudaginn 21. maí flugum við Rúnar út til Oslo í heimsókn til Jóhönnu okkar og fjölskyldu hennar. Einnig heimsóttum við líka Þröst bróðir Rúnars og hans fjölskyldu sem býr í sjálfri Oslo en Jóhanna og co búa í svefnbænum Ask sem er rétt utan við borgina. Þar er mikill skógur og rólegt mannlíf og aðalbláberjaling í flestum görðum, enda þekur það skógarbotninn allt um kring og því von um góða uppskeru í sumar, því komnir voru sætukoppar í miklu magni. Þau kunna öll mjög vel við sig á þessum stað og veðrið var með eindæmum gott þessa viku sem við stoppuðum hjá þeim, eða um og yfir 30 stig, því hitamælirinn sem var í skugga undir þakskyggni stóð flesta dagana í 30, þannig að hitinn í sólinni hefur verið mikið meiri. Enda flúðum við gjarnan í skugga trjánna og röltum heilmikið um skóginn með barnabörnin okkar, heimsóttum Adam í skólann og hittum þar 2 bekkjarsystur hans sem eru íslenskar og þar af önnur ættuð frá Seyðisfirði. Svona er nú heimurinn lítill. Laugardaginn fyrir Hvítasunnu dvöldum við öll hjá Þresti mági og snæddum þar saman frábæra grillmáltíð innan um plómu og eplatré. Á Hvítasunnudag þegar við þurftum að fara heim, var engu líkara en að allir borgarbúar væru í sólbaði á víðavangi, þar sem vötn, ár eða lækir voru til að busla í, enda hitinn mikill.
En okkur var sagt að við hefðum farið með góða veðrið, því daginn eftir var orðið svalt og kærkomin rigning var þá mætt á svæðið.
Þetta var ógleymanleg ferð, þó ekki færum við í neinar skoðunarferðir að þessu sinni, nema um nágrennið en þar var líka ýmislegt að sjá þó ekki verið þess getið frekar hér :)
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment