Tuesday, April 25, 2006

Ferðahugleiðingar

Á ferðalögum, einkum erlendis upplifir maður oft ógleymanleg augnablik sem erfitt er að lýsa eða útskýra. Hugur manns fer á flug og virðist vera á öðrum bylgjulengdum jafnvel heilu dagana, þegar ólík menning og framandlegir staðir eru annars vegar.
Á þessari nýafstöðnu ferð okkar til Egyptalands upplifði ég nýja ferða-útgáfu ef ég má orða það svo. Á köflum fannst mér ég hafa dottið aftur í tímann og væri að horfa á löngu liðna atburði, en þess á milli undraðist ég þann ótrúlega fjölbreytileika sem sjá mátti hvert sem litið var. Þrátt fyrir þetta, leið mér vel, hafði notalega tilfinningu og fann til öryggis eins og ég væri “heima”. Við höfðum líka afskaplega þægilega ferðafélaga sem virtust á svipaðri bylgjulengd og við. Við deildum áhuga á sömu hlutum og sáum broslegu hliðarnar á því sem fyrir bar og gerðum góðlátlegt grín að þeim hugmyndum sem komu upp okkar á milli og hlógum mikið að allri okkar vitleysu. Takmörkuð tungumálakunna okkar var ekki til vandræða og Rúnar var ófeiminn við að þýða íslenska brandara yfir á ensku og kom öllum til að skellihlæja þegar tími gafst til að sitja og spjalla.
Á siglingunni niður Níl bar fyrir augu okkar gamalt og fallegt farþegahótel með ártalinu 1917. Fararstjórinn sagði þetta vera elsta og dýrasta hótelskipið. Okkur fannst mjög líklegt að sjálf glæpasagnadrottningin Agatha Christie sem dvaldi oft á vetrum á þessum slóðum við skriftir, hefði siglt hér um á þessu skipi og notið þessa sama rólega og fallega umhverfis sem við nú sátum og horfðum á. Við heimsóttum líka hótelið sem hún dvaldi á í Luxor, en það heitir Winter Palace (sjá mynd). Það er þekktast fyrir alla þá frægu aðila sem dvalið hafa þar gegnum tíðina. Auk A. Cristie má nefna Englendinginn Howard Carter sem árum saman dvaldi þar á meðan hann leitaði að gröf Tutankamons, sem hann loks fann árið 1922, á elleftu stundu að því sagt er. Hefur sá atburður síðan verið nefndur Fornleifafundur aldarinnar og er trúlega réttnefni.
Við lögðum margar erfiðar spurningar fyrir fararstjórann okkar, sem virtist svara oft af tilfinningahita, enda ungur maður og greinilega sár og reiður yfir ýmsu sem betur má fara í hans fjölmenna og fátæka landi, þar sem atvinnuleysi er alltof mikið. Hann, eins og flestir íbúar landsins að sögn, eru mjög ósáttir við forsetann og gera grín að honum. Ég spurði hvers vegna fólk kysi þá ekki nýjan forseta. Svarið var á þá leið að það væri ekki hægt. Jafnvel þó að meirihluti íbúanna kysi á móti forsetanum, þá fengi hann samt 99% atkvæða að sögn eftir kosningarnar. Málið er þannig vaxið að þegar hann (fararstjórinn) fór að kjósa, þá voru honum boðnir 2 miðar. Annar var miði forsetans, hinn miðinn var kosning á móti honum. Þeir sem þora að velja þann miða, eiga yfir höfði sér að lenda í fangelsi og eru örugglega settir á svartan lista og jafnvel fylgst með þeim. Af þessum sökum kjósa alltof fáir það sem þeir virkilega vilja og mjög margir sleppa því að mæta á kjörstað, þó það séu álitin viss mótmæli gegn stjórninni, þá er það skárra heldur en að kjósa á móti forsetanum, ef maður vill ekki lenda í ónáð.
Útkoma kosninganna virðist því fyrirfram ákveðin og er eintóm sýndarmennska. Sjálfur sagðist hann hata þetta ástand og kjósa á móti forsetanum, hvað sem það mundi kosta hann í framtíðinni.
Við komumst líka að því að múslimakonur ráða yfirleitt meiru en við héldum. Þrátt fyrir að arabískir karlmenn megi eiga allt að 4 eiginkonum í einu, þá láta flestir sér nægja eina konu. Kvaðst fararstjórinn t.d. mundi koma föður sínum fyrir kattarnef ef hann vogaði sér að líta á aðrar konur en móður hans. Konur hafa líka vald til að hafna nýjum eiginkonum og mega skilja við menn sína ef þeir kjósa nýja konu gegn þeirra vilja. Þá verða eiginmennirnar að ganga út af heimili þeirra slyppir og snauðir en þær fá íbúðina og börnin. Þær koma líka ákveðnum skilaboðum til karlmanna með því að ganga með höfuðslæðurnar, þær vilja ekki athygli þeirra, hvort sem það er vegna þess að þær eru giftar, heitbundnar eða áhugalausar. Þessi skilaboð eru virt og hafa ekkert með trúarbrögð þeirra að gera, heldur er þetta fyrst og fremst þjóðarsiður, að þeirra sögn. Mér sýnast því múlímakonur vera að sumu leyti betur settar en karlmenn og get nefnt eitt dæmi enn. Það reykja hlutfallslega fáar arabískar konur og eru auk þess lítið á ferðinni utandyra í menguðu lofti stórborganna, en flestir karlmenn reykja og þeir lifa og hrærast á götunum, svo að segja má að þeir búi við tvöfalda mengun sem hlýtur að hafa slæm áhrif.
Jæja, þetta er orðið nokkuð langt spjall og ekki von til þess að nokkur endist til að lesa meira. Ég læt því þessar hugleiðinar nægja, a.m.k. í þetta sinn. Þakka ykkur fyrir innlitið. Lifið heil......!

Wednesday, April 19, 2006

Aftur til Cairo



Jæja, þá er það lokaáfanginn. Eftir frábæra dvöl á hótelskipinu Anni urðum við að fara aftur með næturlest til Cairo og gekk það jafn ljúflega og í fyrra skiptið. Indverska parið varð okkur samferða, en Jill og Sara höfðu kosið að fljúga.
Við komuna til Cairo að morgni 25. mars tók okkar fyrrverandi bílstjóri (sem hlaut viðurnefnið crazy driver) á móti okkur og mikið urðum við fegin að sjá hann, þrátt fyrir “geðveikan”akstursmátann. Eftir eldsnögga sturtu á Delta Pyramid hótelinu vorum við sótt aftur og nú var ekið upp í Mohamed Ali moskuna sem er á efstu hæðinni í Cairo. Þetta er gríðarlega stór og falleg bygging sem orðin er fyrst og fremst vinsæll ferðamannastaður, þó hún þjóni einnig trúuðum heimamönnum. Ekki má fara inn í moskuna á skóm og kvenfólk má ekki sjást með bera handleggi og fætur. En það virðist í lagi með karlmenn, því Rúnar fór óáreittur inn í stuttbuxum og bol, en ég sem var í síðum buxum og svolítið flegnum hálferma bol, varð að fara í mussu til að hylja allt nema hendur og andlit. Þær Sara og Jill voru okkur samferða þennan dag og skemmtum við okkur hið besta eins og alla hina dagana. Farið var með okkur hraðferð í þjóðminjasafnið og síðan í 3 kirkjur, ein var tileinkuð heilagri Barböru sem ég held að sé verndardýrðlingur Hafnarfjarðar. Jarðneskar leifar hennar eru þarna geymdar. Önnur kirkjan stendur á þeim stað sem konungshöllin stóð til forna, þegar Móses fannst þar í sefinu og var alinn þar upp meðal fyrirfólksins. Síðast en ekki síst fórum við í kirkju með hrörlegum gömlum kjallara sem við reyndar fengum ekki að skoða, en okkur var sagt að í þessum kjallara hefðu Jósef og María verið í felum með Jesúbarnið fyrstu 2 ár hans, eftir að þau flúðu undan Heródesi sem ætlaði að láta aflífa öll nýfædd sveinbörn. Hvort þetta er allt satt og rétt skal ekki dæmt um, en örugglega er eitthvað til í þessu öllu saman.
Í stað þess að fara á gamla markaðinn og í búðir, þá samþykkti bílstjórinn að keyra okkur í staðinn að píramídunum og aðstoða okkur við að komast í úlfaldaferð út í eyðimörkina til að skoða píramídana bakdyramegin. Þetta gekk bara vel en tók sinn tíma og þarna upplifðum við alveg sérstaka stund, því það er engu líkt að rölta á hægagangi við sólarlag yfir sandinn með heimamönnum og horfa yfir þessa stóru borg sem ómaði af hinum hefðbundnu og háværu bænaköllum sem maður varð að hlusta á 5 sinnum á dag, hvort sem manni líkaði það betur eða verr. Þegar við komum til baka var orðið hálf dimmt. Þá hittum við indverska parið og fórum öll á sérstaka sýningu, Sound and Lightshow, sem fer þarna fram við “Svingsinn” eftir sólarlag. Marglit ljós lýsa upp umhverfið og píramídana. Saga þeirra er sögð og myndum varpað á hlaðinn vegg skammt frá. Þetta var frábær stund að öðru leyti en því, að nú var orðið ansi kalt úti og við ekki nógu vel klædd. Hitamismunurinn suður í Aswan og Luxor annars vegar og Cairo hinsvegar er ótrúlega mikill. Það var aldrei óþægilega heitt í Cairo þessa viku og frekar svalt á kvöldin. Það rigndi þar að auki part úr 2 dögum sem er víst mjög óvenjulegt, ekki síst á þessum tíma.
En nú var komið að kveðjustund. Félagar okkar frá USA voru öll á leið heim næstu nótt, en við ætluðum að dvelja nokkra daga í viðbót með dóttur okkar og tengdafólki hennar í Cairo. Við fluttum á betra hótel og leigðum bílaleigubíl sem tengdasonur okkar ók af engu minni ákafa og látum en aðrir heimamenn, svo að við lá að ég þyrfti að líma fyrir munninn til að trufla hann ekki með óvæntum óhljóðum þegar verst lét. En allt gekk þetta slysalaust. Við skoðuðum margt skemmtilegt, m.a. fallegan listigarð á einni hæstu hæð borgarinnar og hinn fræga markað Khan El Khalily. Þar sátum við og biðum eftir þeim einstæða atburði að sjá sólmyrkva. Ekki fór nú mikið fyrir honum frá okkur séð og urðu það smá vonbrigði, sem við tókum þó ekki nærri okkur. Á betri stað í Egyptalandi mátti sjá hinn fullkomna sólmyrkva sem sérstakir áhugamenn fóru til að sjá. Þar var víst margt frægt fólk saman komið, t.d. Kalli bretaprins og Kamilla nýja konan hans ásamt sjálfum forseta Egyptalands og hópi evrópubúa sem urðu okkur samferða í fluginu til Amsterdam 3 dögum síðar.
Við fórum líka þriðju ferðina að píramídunum. Að þessu sinni var eiginlega of heitt, en við gengum þó loksins allan hringinn í kringum þá og skoðuðum safnið sem hýsir Sólfarið mikla (skip faraós) sem fannst í djúpri gröf við hliðina á Keopspíramídanum. Það eina sem ég varð að sleppa að þessu sinni, var að skríða inn í þennan stærsta og frægasta píramída í heimi. Hann er bara opinn á vissum tímum vikulega og aðeins er hleypt inn 50 manns í einu. Þetta mun vera gert til að hlífa göngunum sem líklega slitna talsvert af þessum stöðugu heimsóknum.
En nú var komið að tengdafólki Jóhönnu. Okkur var boðið til veislu daginn sem við vorum laus frá ferðaskrifstofunni. Afar vel var tekið á móti okkur og til þess ætlast að við borðuðum meira en góðu hófi gegndi. Settur var heill og úttroðinn fugl á diskinn hjá hverju okkar og sagt að þetta væri einhver dúfutegund. Síðan bættist við stórt stykki af steiktu lambakjöti og heil ósköp af meðlæti með. Ekki gátum við klárað þetta allt og okkur fyrirgafst lystarleysið vegna þess hve slæm við höfðum verið í maga alla vikuna.
Ég gleymdi að geta þess að við fórum öll saman í siglingu í kringum eyju í Níl sem nefnd er Jakobseyja. Þar er stórt og mikið safn, næstum eins og þorp sem útbúið er fyrir ferðamenn sem vilja sjá lifnaðarhætti og starfshætti Egypta gegnum aldirnar. Heimamenn eru þarna í ýmsum hlutverkum og sýna gömul og hefðbundin vinnubrögð. Einnig eru þarna söfn sem sýna eftirlýkingu af gröf Tútankamons og allt góssið sem þar fannst, einnig safn um fv. forseta Egyptalands, þá Nasser sem áður er nefndur og Anwar Sadat sem myrtur var eftir að hann hóf friðarviðræður við Ísrael.
Við notuðum líka einn daginn til að fara aftur á þjóðminjasafnið til að geta almennilega skoðað okkur um. Það var hinsvegar erfitt að mega ekki taka myndir þar inni og huggaði ég mig við það að hafa fjárfest í nokkrum fallegum myndabókum sem sýndu flesta fallegustu og áhugaverðustu hlutina sem þar eru til sýnis.
Á kvöldin gengum við í rólegheitum um nálægar götur hótelsins og fylgdumst með iðandi mannlífinu sem þar er. Okkur, þessum forvitnu útlendingum var alls staðar vel tekið og myndatökur leyfðar næstum undantekningalaust og oftast án þess að greitt væri fyrir það.
En nú er komið að leiðarlokum, fríið búið, við á förum, en þurftum að bíða eftir flugi fram á nótt. Okkur var því boðið til kvöldverðar hjá “tengdó” og að þessu sinni fengum við fiskiveislu. Aftur voru diskar okkar fylltir af mat, þó með meiri hógværð að þessu sinni. Þarna borða allir með guðsgöfflunum, þó hnífapör væru sett á borðið. Samræður okkar snérust meira og minna um fjölskyldur okkar en einnig um amerískar kvikmyndir, því að helsta áhugamál og skemmtan Egypta virðist vera að glápa á sjónvarp. Á ferðum um landið má sjá gerfihnattadiska á öllum húsum, meira að segja kofum sem varla er hægt að hugsa sér sem mannabústaði. Fólk þarf ekki að borga nein afnotagjöld og hefur aðgang að u.þ.b. 100 rásum, þar á meðal amerískum kvikmyndum. Og við komum ekki að tómum kofanum hjá þeim. Þau höfðu hreinlega horft á allar þær vestrænu kvikmyndir sem okkur datt í hug að nefna og kunnu skil á leikurunum betur en við sem þykjumst þó fylgjast þokkalega vel með hér heima.
Já, það var sannarlega margt sem kom á óvart og er þó aldeilis ekki allt upp talið hér, en ég ætla að láta þetta nægja.
Ferðin heim gekk slysalaust, hún tók að vísu mun lengri tíma en ferðin út, því vélin hjá KLM sem við áttum að fara með bilaði og það kostaði margra tíma auka-bið í Amsterdam. En heim komumst við heilu og höldnu eftir 2ja daga viðdvöl í Danmörku. Þar fannst okkur ótrúlega kalt, jafnvel verra heldur en hér heima á gamla Fróni.
Ef eitthvað í þessum frásögnum mínum er óljóst eða vekur spurningar, þá endilega hafið samband og ég mun svara eftir bestu getu...
Að síðustu viljum við láta þess getið, að svona skipulögð ferð á vegum ferðaskrifstofu er mjög áhugaverð fyrir þá sem treysta sér til að vera mikið á ferðinni. Að vísu er hægt að fara rólegri ferð en við kusum og maður þarf auðvitað ekki að fara í öll þessi musteri eða aðra staði ef maður vill það ekki. Það er líka hægt að liggja bara í leti um borð í ferjunni og sóla sig, en þá væri viturlegra að sigla upp Níl, það tekur lengri tíma og er meira frí. Það eru svo margar tegundir af ferðum í boði að engin hætta er á að allir geti ekki fundið eitthvað við sitt hæfi. Vonandi eiga sem flestir eftir að upplifa svipuð ævintýri eins og við gerðum í þessari ferð. Við eru alveg til í aðra slíka – hvað með þig ....?

Monday, April 17, 2006

Nílarsiglingin

Eftir að við komum um borð í hótelferjuna Anni, var yndislega notalegt að sitja uppi á sóldekki meðan sólin hneig til viðar og njóta hlýrrar golu sem myndaðist þegar skipið seig rólega niður fljótið í átt til Kom Ombo sem var fyrsti viðkomustaðurinn. Þá vorum við kynnt fyrir 2 ferðafélögum, þeim Jill og Söru sem urðu okkur samferða það sem eftir var ferðarinnar á vegum Egypt On Line. Jill var að koma í 4 sinn til landsins og alltaf jafn heilluð af fornri sögu faraóanna. Við höfum grun um að hún hafi vitað jafn mikið eða meira en fararstjórinn okkar og var hann þó vel að sér. Hún fræddi okkur um ýmislegt forvitnilegt og segja má að hún hafi á vissan hátt tekið stjórnina svolítið í sínar hendur. Hún fékk fararstjórann til að samþykkja smá breytingar á nokkrum ferðum sem kostuðu ekkert, en urðu til þess að við nýttum tímann betur og gátum séð og gert fleira en til stóð. Hún valdi líka í samráði við hann hvaða konunga-og-drottningagrafir við fengjum að sjá, en skv. reglum fá ferðamenn aðeins að velja 3 grafir í hvorum dal til að skoða. Þau vissu hvaða grafir voru fallegastar og áhugaverðastar, voru raunar alveg sammála um það, svo að allt var þetta í mesta bróðerni. Síðan bættust í okkar hóp (Ramses-group) ung indversk hjón sem fylgdu okkur í hluta af þeim ferðum sem við fórum og voru okkur samferða á skipinu. Frá Kom Ombo fórum við í skreyttum hestvögnum að tignarlegu musteri Edfu, það er tileinkað fálkaguðinum Hórusi. Þar standa meira en 2 m háar fálkastyttur við innganginn. Fyrstu viðbrögðin við öllum þessum gríðarlega stóru og háu súlum, styttum og skreytingum eru mögnuð. Maður hefur það sterklega á tilfinningunni að þeir sem byggt hafi slík mannvirki, hljóti að hafa verið risar að vexti, hvorki meira né minna. Svo gríðarlega yfirþyrmandi eru þessar byggingar. Um kvöldið var þjóðlegur dans um borð og til þess ætlast að menn mættu í viðeigandi búningum sem þeir nefna Galabiya. Við fórum því á stúfana, keyptum búninga og mættum á tilsettum tíma. Tókum svo þátt í dansi og skemmtan fram á nótt, (án áfengis). Eftir notalega siglingu og sólbað daginn eftir, á leiðinni til Luxor, var farið í gegnum skipastiga sem greinilega var þannig útbúinn að hann virkjaði vatnsaflið um leið og því var hleypt í gegn. Sniðugt hjá þeim.... Það var mjög athyglisvert að fylgjast með mannlífinu á bökkum fljótsins. Víðast hvar er ræktað land meðfram fljótinu aðeins nokkur hundruð metrar á breidd, því að oftar en ekki tóku við gróðurlausar sandhæðir eða lág fjöll. Maður sér því alla byggðina og mannlífið við árbakkana meðan flotið er framhjá. Bændur og búalið hafði hvarvetna reist sólskýli úr bambus og öðrum gróðri til að skýla sér og skepnum sínum í sólarhitanum yfir hádaginn. Fólk var þarna við vinnu sína á ökrunum eða að ferma báta af sykurreyr eða öðrum afurðum sem voru á leið á markað. Aragrúi báta og skipa af öllum stærðum og gerðum flaut framhjá, ýmist upp eða niður fljótið. Að sögn Ahmeds fararstjóra eru um 450 stór hótelskip á siglingu með ferðafólk þessa leið á milli Aswan og Luxor. Seglbátar gátu hinsvegar aðeins siglt hluta úr degi, meðan golan entist, annars var yfirleitt logn bæði kvölds og morguns. Við sáum því oft dráttarbáta, hvern með margar skútur í togi. Morgnarnir eru líka besti tíminn til að fara í loftbelg, en það er vinsælt meðal ferðamanna. Okkar félagar fóru í eina slíka ( öll nema Jill) og höfðu mjög gaman af. Ætli við prófum það ekki bara í næstu ferð...(?) Við komuna til Luxor að kvöldi dags var ákveðið að fá sér gönguferð yfir í stóra musterið og skoða það uppljómað af ljóskösturum. Það verður að segjast eins og er, að það var jafnvel ennþá frábærara en að degi til og sá plús fylgdi, að hitinn var þá alveg mátulegur. En yfir hádaginn var eiginlega ekki hægt að láta sólina skína á bert hörund, mann sveið undan því. Rúnar sólbrann á herðum nokkuð hressilega fyrsta daginn. Við héldum okkur því sem mest í skuggum, hvar sem þá var að finna og urðum lítið sólbrún. Í Luxor var margt að skoða, við kíktum líka í verslanir og nutum þess að slappa af á milli ferða, því þarna varð áð í 3 daga. Við fórum m.a. til Karnak að skoða musterin þar, heimsóttum dali konunga og drottninga eins og ég nefndi hér í upphafi. Þar skoðuðum við m.a. grafhýsi hins unga faraós Tutankamons, sem varð heimsfrægur þegar Howard Carter fann ósnerta gröf hans árið 1922. Í þessari litlu gröf, sem var sú lang minnsta þeirra sem við skoðuðum, var ótrúlegt magn af verðmætum dýrgripum sem við síðar fengum að sjá á þjóðminjasafninu í Cairo. Það er því ekki hægt að ímynda sér hvílík auðæfi hljóta að hafa verið fólgin í öllum hinum stóru gröfunum sem búið var að ræna í gegnum aldirnar... við hefðum sko viljað sjá það og erum ekki ein um það...! Óvænt uppákoma varð þegar rafmagnið fór á meðan við vorum stödd niður í einni gröfinni ásamt fjölda fólks. Hvílíkt svarta myrkur, vaaá.. ég bjóst við ópum og hljóðum en ekkert slíkt gerðist. Allir héldu ró sinni, enda ekkert hægt að fara eða gera nema bíða. Sumir höfðu verið forsjálir og voru með vasaljós á sér (m.a. Jill og Sara en ég gleymdi mínu um borð í skipinu). Menn drógu þau upp og lýstu okkur þessar fáu mínútur sem liðu þar til ljósin kviknuðu á ný. Ekki fundum við til neinna ónota eða hræðslu, það er eins og andar hinna framliðnu hafi fyrir löngu síðan sætt sig við þennan mikla átroðning ferðamanna á staðinn, bjóði þá jafnvel velkomna... hver veit...(?) Annar ógleymanlegur atburður skeði þarna í hitanum í konungadalnum. Við sátum undir sólskýli og biðum eftir vagninum sem átti að flytja okkur aftur niður á veg. Þá sé ég hvar einn af hermönnunum lá sofandi með höfuðið á hríðskotabyssunni sinni. Ég smelli mynd af honum og hélt það væri í lagi. En annar hermaður sá til mín, vakti félaga sinn og lét hann vita hvað ég hafði gert. Nú var fararstjóri okkar sóttur og miklar umræður hófust. Loks spurði hann mig hvort ég hefði tekið mynd af honum sofandi og hvort ég gæti ekki þurrkað hana út. Ég játaði hvoru tveggja en var ekki fús að eyða þessari fínu mynd að ástæðulausu. Ég reyndi því að prútta við þá. Óskaði eftir að fá að sjá eina af gröfunum sem Jill hafði sagt mér að væri sú áhugaverðasta af öllum, en einmitt þennan dag var hún lokuð. Þetta var samþykkt, bara ef ég þurrkaði myndina út. Ég hlýddi því í stað þess að svindla og auðvitað var ég svikin um leið og myndin var horfin, eins og ég raunar mátti eiga von á. Achmed sagði okkur á leiðinni heim að hermennirnir hefðu orðið hræddir, þetta væri alvarlegt mál og það væri í raun harðbannað að taka myndir af hermönnum, þó ekkert væri gert í því við eðlilegar aðstæður. Í þessari sömu ferð var dauðamusteri Hatshepsuit drottningar einnig skoðað. Hún var eina konan sem lét krýna sig sem faraó og var víst hinn mesti skörungur. En fáar myndir eru til af henni, því að reiður bróðursonur hennar sem tók við völdum á eftir henni, hataði hana víst svo mikið að hann reyndi að afmá allar myndir af henni, þar sem hann náði til. Þó eru til nokkrar myndir og ég komst að því hvers vegna bæði fararstjórinn okkar og einn bílstjórinn kölluðu mig alltaf þessu drottningarnafni, ég líkist henni víst þó nokkuð! Við grafarsvæðið er lítið og fátæklegt þorp sem nú er verið að tæma, því stjórnvöld vilja íbúana á brott. Fólk á þessu svæði hefur lengi stundað leit að gröfum og hirt allt úr þeim sem einhvers virði er. Koma á í veg fyrir slíkt í framtíðinni. En alabastursverksmiðja og verslun með vörur hennar sem er á svæðinu fær væntanlega að vera, því hún sér mörgum fyrir vinnu og selur varning sem ferðmenn kaupa alltaf eitthvað af við komuna þangað. Einu má ég ekki gleyma, en það er blessaður herbergisþjónninn okkar hann Abdulla. Hann hafði einstaklega gaman af því að gleðja okkur með skemmtilegum uppákomum. Fyrsta daginn hafði hann útbúið stóran krókódíl úr teppum og handklæðum og setti á gólfið í klefann okkar. Þetta var vel gert hjá honum og þrælsniðugt. Við gáfum honum mjög ríflegt þjórfé að launum. Á hverjum degi útbjó hann svo eitthvað nýtt fyrirbæri úr handklæðum og skreytti herbergið, m.a. með hjarta úr handklæðum og setti lifandi blóm í vasa o.s.frv.. Myndir eru í albúminu Nílarsigling á https://www.flickr.com/photos/sollasig54/
 Þegar hann kvaddi okkur kom hann með fullan poka af smágjöfum. Líklega voru þetta hlutir sem gestir hafa skilið eftir eða gleymt á herbergjunum við brottför. Auk þess var hann með kryddpoka handa tengdasyni okkar, sem hann vissi að var egypskur kokkur. Hann vildi að hann kenndi mér að nota egypska kryddið. Við kunnum ekki við að afþakka þetta, en þessi miklu vinahót voru næstum of mikil. Við fengum því heimilisfang hans og lofuðum að senda honum eitthvað að heiman, því hann var svo hrifinn af Íslandi og vissi greinilega svolítið um land og þjóð. Ég hef nú reynt að standa við loforðið, því ég var að senda honum pakka, hann á það skilið blessaður karlinn með sitt ljúfa bros og löngun til að gleðja fólk eftir 24 ára þjónustu á þessu sama skipi, geri aðrir betur... Eitt að lokum áður en ég slæ botninn í þessa frásögn, það er að segja aðeins frá matnum sem við fengum. Hann var alveg ágætur og vel eldaður. Mest brasað kinda, kálfa og kjúklingakjöt, en einnig fiskréttir af og til. Við þorðum ekki að borða neitt hrátt grænmeti eða annað vafasamt af ótta við salmonellu. Þrátt fyrir þessar og aðrar varúðarráðstafanir af okkar hálfu, fengum við í magann, en sluppum ótrúlega vel með því að nota Imodium daglega og drekka alla daga nóg af flöskuvatni bragðbættu með ávaxtasafa eða koníaki sem við tókum með í ferðina til maga-sótthreinsunar ;-) Rúnar taldi að bakteríur af skítugum peningaseðlum hefðu auðveldlega getað verið sökudólgurinn, því vissulega vorum við ekki alltaf nýbúin að þvo okkur um hendur þegar við fengum okkur að borða. Án gríns, þá er það slæmt mál að passa ekki vel uppá þessa hluti og eins gott að taka þetta alvarlega í næstu ferð og þakka fyrir að ekki fór verr að þessu sinni. Allt er gott þegar endirinn er góður.........

Sunday, April 16, 2006

Aswan og Abu Simbel


Jæja, best að halda áfram með ferðasöguna í von um að hún komist á netið.
Í upphafi ferðar, eftir að við höfðum keypt flugfar á netinu með KLM frá Kaupmannahöfn til Cairo, fórum við að skoða hvað Egypskar ferðaskrifstofur hefðu uppá að bjóða. Niðurstaðan var að panta 8 daga ferð á vegum “Egypt On Line” sem reyndist vera traustsins verð, auk þess sem uppsett verð var meira en sanngjarnt, því þegar til kom reyndust allar ferðir, gisting og fullt fæði innifalið og örugg fararstjórn allan tímann ásamt aðgöngumiðum í öll þau söfn og musteri sem við heimsóttum. Allt sem okkur langaði mest að sjá og skoða var innifalið í þessum ferðapakka. Það eina sem reyndist vera óvenjulegt var greiðslumátinn sem var viðhafður. Á leiðinni frá flugvellinum var hringt í bílstjórann sem síðan fór með okkur í skjóli nætur (um kl 02) að heimili yfirmanns Egypt On Line, þar sem hann bjó í fjölbýlishúsi. Hann kom út með pappíra samsvarandi þeim sem ég hafði prentað út við pöntunina á netinu. Undir þetta urðu báðir aðilar að skrifa úti á götu og við síðan að greiða honum út í hönd þá upphæð sem um var samið. En við kusum að greiða ferðina við komuna til Egyptalands, en ekki fyrirfram, vegna ótryggs ástands í heiminum. Þessi næturferð var dálítið “spooky” (í alvöru talað)
og óvænt viðbót við hávaða, mengun, stress og þreytu eftir langa ferð frá Íslandi. Ég taldi það mitt lán að þrauka fyrsta daginn okkar í Cairo eftir svefnlausa nótt, því að við tók sandfok við píramídana þar sem ég byrjaði á að tapa bestu gleraugunum mínum og þurfti síðan að glíma við aðgangsharða sölumenn hjá ýmsum fyrirtækjum sem við heimsóttum, auk þess sem við skoðuðum stallapíramídann í Sakkara og merkilegt safn í Memphis í steikjandi sólarhita. Að kvöldi þessa fyrsta dags var ég í vafa um hvort ég þyldi annan slíkan, nema fá fyrst góða hvíld og hana fékk ég sem betur fer. Ég losnaði auk þess við innkaupapressuna, því eftir að okkar ágæti bílstjóri í Cairo hafði komið okkur heilu og höldnu í næturlestina til Aswan, þá tók við notaleg nótt. Hvílíkur munur að láta lestina vagga sér í svefn og vakna í dagrenningu við ilmandi morgunverð áður en hoppað var úr í hinni “ungu” borg Aswan, sem státar nýlegum byggingum og hreinum strætum, miðað við Cairo. Isis hótelið sem við vorum flutt á eftir smá bið á járnbrautarstöðinni, reyndist mjög hreint og huggulegt, með fallegri sundlaug og góðri sólbaðsaðstöðu ásamt frábæru útsýni yfir Níl. Við gætum vel hugsað okkur að halda þar til um tíma. Eftir notalegt bað og stutta hvíld vorum við sótt af nýjum fararstjóra sem fór með okkur að skoða það markverðasta á þessu svæði. Siglt var m.a. með okkur út í eyju í Níl til að skoða ævafornt musteri. Söfn, lystigarður og fleira var skoðað og síðast en ekki síst granítnáma, sú eina sem til er í Egyptalandi. Þar voru allar stærstu styttur og einsteinungar (Obeliskur) Egyptalands höggnar út. Það er eitt af óþekktum leyndarmálum hinna fornu Egypta, hvernig þessar gríðarlega stóru og þungu steinblokkir voru fluttar á milli staða.
Svo fórum við að skoða stíflugarðana sem Nasser fyrrum forseti landsins lét reisa til að virkja Níl. Þar blasti við hið gríðarstóra uppstöðulón, Nasservatn, sem varð þá til og framleiðir nú þá raforku sem þjóðin þarf á að halda, ásamt því að nú geta landsmenn ráðið vatnshæð Nílar og skammtað í hæfilegu magni í stað stjórnlausra flóðanna áður. En þessar framfarir gengu ekki átakalaust fyrir sig, því flytja þurfti íbúa næstum heillar þjóðar á brott af því svæði sem fara átti á kaf, þegar stíflan yrði tilbúin. Núbíuþjóðin varð að sætta sig við að lúta í lægra haldi. Að sögn eins heimamanna, þá hatar þjóðin ennþá þennan látna forseta fyrir þessa neyðarflutninga og lái þeim það hver sem vill.
Heimsókn okkar þennan dag í lítið þorp Núbíumanna neðan við stífluna var að mínum dómi hápunktur dagsins, þar virtist tíminn standa í stað, enginn var að flýta sér og úlfaldar aðal farartækin. Allir voru brosmildir og þægilegir, engin frekja eða yfirgangur við okkur og nægjusemi greinilega ríkjandi. Íbúarnir flestir háir, grannir og fríðir sýnum. Þeir eru talsvert dekkri á hörund en arabarnir sem virka sólbrúnir. Alveg ógleymanlegt !
Að kvöldi þessa dags fórum við snemma í háttinn, því leggja átti af stað kl. 3 næstu nótt með hóp í rútu, gegnum hluta af Sahara eyðimörkinni, til að skoða hið fræga musteri Abu Simbel, en það var einmitt stórmál og kapphlaup við tímann að bjarga því úr gilinu þegar stóra stíflan reis og gilið að fyllast af vatni. Alþjóðleg samtök stóðu fyrir þeirri björgun og leystu það verkefni geysilega vel af hendi. Þetta gríðarstóra tvöfalda musteri var hlutað í sundur og því komið fyrir í öruggri hæð, þar sem það var sett upp á ný, nánast óaðfinnanlega. Eini munurinn að sögn leiðsögumanna er sá, að tvisvar á ári þegar sólin nær að skína á styttur 3ja guða inni í því allra heilagasta, þá færðist sá dagur til um einn. Þ.e.a.s. í stað þess að áður skein sólin þar inn 21. febr. og 21. okt. árlega, þá færðist það yfir á 22. febr. og 22. okt. Ekki var að heyra að menn tækju nærri sér þessa minniháttar breytingu.
Þessi næturferð gekk ótrúlega vel. Fjöldinn allur af rútum safnaðist saman og varð samferða, trúlega af öryggis og hagkvæmnisástæðum, því alls staðar í landinu er aragrúi af vopnuðum her-og-lögreglumönnum sem eiga að gæta öryggis ferðamanna. Víða eru varðstöðvar og greinilega ákveðnar reglur í gangi sem taka þarf tillit til, enda var oft stoppað. Við vorum mætt í dagrenningu að musterinu og komumst á undan aðal ferðamannahópunum til að skoða okkur um innan dyra, en þar eins og víðast hvar á söfnum, mátti ekki taka myndir. Ég tók því það ráð að kaupa myndabækur sem sýna það helsta innandyra á þessum stöðum. En allir veggir eru skreyttir myndum og úthöggnum lágmyndum, stórmerkilegum.
Á bakaleiðinni var orðið óskaplega heitt, þrátt fyrir loftkælda rútuna, líklega var hitinn yfir 40 stigum um hádaginn. Ein ung og hraustleg samferðakona okkar leið útaf og var óttast um hana, en úr rættist og við sluppum tímanlega heim á hótel til þess að pakka saman á ný og flytja um borð í hótelskipið Anni sem við áttum að dvelja í næstu 4 daga. Þess má geta að hluti af eyðimörkinni sem við fórum um er býsna líkur Möðrudalsöræfum, þar blasa við píramídalöguð fjöll upp úr sandauðninni, sem reyndar er víðast hvar nokkuð ljósari yfirlitum en sú íslenska. Best ég láti mynd fylgja svo þið sjáið hve líkt þetta er...
Það er líka best ég segi ykkur frá því, að skömmu áður en við lögðum af stað í þessa ferð, þá dreymdi mig 2 drauma um Egyptaland. Mér finnst þeir hafa ræst. Í öðrum þeirra fannst mér við vera með Jóhönnu Björgu og fjölskyldu á sólríkum stað í Cairo, þegar hópur hermanna með byssur umkringdu okkur. Ég fann bara til öryggis og var nokkuð viss um þegar ég vaknaði að ferðin mundi ganga vel. Hitt vissi ég ekki að við yrðum umkring af vopnuðum hermönnum alla ferðina. Þessi draumur rættist því bókstaflega. Hinn draumurinn var um fararstjóra sem væri gamall og traustur vinur sem tók á móti okkur með faðmlagi og kossi á kinnar. Það sannaðist á unga leiðsögumanninum Achmed, sem stóð sig frábærlega þessa 5 daga og varð hinn besti félagi okkar og vinur.
Ég gleymdi líka að geta þess að við bjuggum við þau forréttindi fyrstu 2 daga ferðarinnar að vera ein með leiðsögumann og bílstjóra. En það hefði verið tómlegt til lengdar.
Á Nílarsiglingunni bættust við 4 nýir ferðamenn í Ramsesar-hópinn hans Ahmeds og var það vel þegið, enda fyrirmyndar samferðafólk. Þessi fjögur eru öll búsett í USA. Þetta voru ung hjón af indverskum ættum í brúðkaupsferð og miðaldra barnlaus kona (Jill) með tvítugri systurdóttur sinni (Söru) sem er áhugaljósmyndari og stundar spænskunám. Auk þess kom í ljós að hún er afbragðs góður knapi. Segi meira frá þeim í næsta þætti sem verður um ferð okkar saman niður Níl, frá Aswan til Luxor og aftur til Cairo.
Læt nú þessum hluta lokið.

Gleðilega páska !



Já gleðilega hátíð kæru landar !

Ég hef nú árangurslaust reynt að kópera næsta hluta ferðasögunnar inn á vefinn, en það tekst ekki með nokkru móti, þrátt við að ég skipti um tölvu. Ég veit því ekki hvort mér tekst að koma þessum skilaboðum áleiðis. Þó er myndin komin inn sem ég valdi, en hún var tekin þegar við vorum nýlögð af stað frá Cairo áleiðis til Aswan. Þetta mun vera brautarpallur í útjaðri borgarinnar, þar sem heimamenn bíða eftir sinni lest... Í landi Faraóanna dugði ekkert annað en þolinmæði og líklega verð ég að halda mig við þolinmæðina framvegis og held í vonina....

Megið þið öll eiga gleðilega páskahátíð, sama hvernig viðrar......!

Friday, April 14, 2006

Cairo

– borgin sem aldrei sefur.
Það er sannarlega réttnefni, því meiri umferðarhávaða jafnt að nóttu sem degi höfum við aldrei upplifað, en einmitt fyrstu nóttina okkar í Cairo. Þó troðið væri bómull í bæði eyru og breytt yfir höfuð, þá dugði það ekki til að ég gæti sofnað þessa fyrstu nótt á Delta Pyramid hótelinu sem staðsett er í næsta nágrenni við hina frægu píramída í Gísa. Þessir 2 stærstu píramídar landsins sem reistir voru af feðgunum Keops og Kefran gnæfa upp úr eyðimörkinni á vesturbakka Nílar, við jaðar höfuðborgarinnar sem breiðir úr sér í 3 áttir með sínar 22 milljónir íbúa – aðeins !
Já, íbúar þessarar menguðu og óhreinu stórborgar eru sístarfandi. Líklega þykir mörgum betra að vera á ferðinni í nætursvalanum heldur en hitanum á daginn og auk þess er gatnakerfi borgarinnar sprungið fyrir lifandi löngu. Þar komast ekki áfram allar þær milljónir bíla á eðlilegum hraða samkvæmt þeim lögmálum sem við erum vön. Ónei, þar gilda lögmál frumskógarins, þeir freku og sterku ryðjast áfram, hinir víkja og dragast aftur úr. Hvílíkt kaos á götunum. Við höfum stundum kvartað yfir umferðinni í Reykjavík og ennþá meira yfir umferðinni sem við lentum í þegar við dvöldum í Rómarborg fyrir nokkrum árum. En þessi umferðarmenning í Cairo er hreinlega engu lík og ótrúlegt hvað hún gengur slysalítið fyrir sig. Við sáum reyndar 2 smá árekstra og einnig blóðugan mann eftir ákeyrslu og verðum að segja eins og er, að það er lítið miðað við þann skelfilega akstursmáta sem þarna fer fram.Ef til vill hef ég bara verið yfir mig stressuð fyrstu nóttina eftir ótrúlega langan aksturinn frá flugvellinum á hótelið, ég geri mér ekki grein fyrir því. En viðbrigðin að vera komin í þennan ærandi næturhávaða var meiri en svo að ég gæti sofið. Sjálf vil ég meina að aðal ástæðan hafi verið sífellt flaut bílstjóranna. Þeir böðlast áfram á hámarks hraða, flautandi að því er virðist af litlu eða engu tilefni, kannski í varúðarskyni, spyr sá sem ekki veit. Þarlendir bílstjórar nota mikið flautu, stefnuljós og aðalljós til tjáskipta í umferðinni og virtist það nauðsynlegt miðað við aðstæður. En okkar geðprúði og kvensami bílstjóri Mahmoud brosti bara og hló að okkur þegar við gáfum frá okkur stunur og viðvörunaróp. Hann horfði meira á okkur í aftursætinu en göturnar og notaði hendurnar meira til útskýringa en til að stýra bílnum. Samt komst hann leiðar sinnar slysalaust með okkur í heila 2 daga, það finnst manni ganga kraftaverki næst. Svona umferð krefst óskaplega mikils af ökumönnum, þeir verða að vera mjög einbeittir, vel vakandi og mega alls ekki vera svifaseinir, þá færi fljótt illa. Þeir hljóta að verða stressaðir og þreyttir af öllum þessum hamagangi, jafnvel þó þeir séu geðgóðir og hraustir. Mig undrar þetta sérstaklega mikið, því hvergi á jarðríki hef ég séð fleiri karlmenn reykja heldur en einmitt í Egyptalandi. Við hittum reyndar 1 karlmann hjá þessari 75 milljón manna þjóð sem við vitum fyrir víst að reykir ekki, því skv. upplýsingum heimamanna, þá reykja nánast allir karlmenn landsins. Hvílík sóun á heilsu og peningum þessarar fátæku þjóðar. Ég varð hálf miður mín yfir þessu, ekki síst þegar ég heyrði 24 ára gamlan leiðsögumann okkar síhóstandi, enda var hann síreykjandi og hafði að eigin sögn reykt í 7 ár. Ég sá hann bjóða dreng á fermingaraldri sígarettur, þá gat ég ekki orða bundist og spurði hvort þeir vissu ekki hve hættulegt það væri að reykja. Jú, þeir sögðu það standa utan á pökkunum á arabísku, en það reyktu samt allir, svo þeir gerðu það líka ... Vilji minn og annarra til úrbóta má sín greinilega lítils gegn þessum skelfilega ávana...!
En áfram með smjörið... Eftir þessa fyrstu ökuferð að næturlagi um Cairo, ákvað ég að horfa ekki fram fyrir bílinn, heldur einbeita mér að umhverfinu til hliðar og reyna að festa á myndir það sem fyrir augu bar og það var ekkert smáræði. Hvílík upplifun. Þúsundir ólíkra farartækja runnu hjá, flest gamlir, beyglaðir og ryðgaðir bílar af öllum stærðum og gerðum, en einnig ótrúlega mikið af asna-og-hestakerrum með ýmiskonar varningi á. Einnig hjól af ýmsum gerðum, sömuleiðis hlaðin hinum furðulegustu hlutum, eins og mjólkurbrúsum og gaskútum svo eitthvað sé nefnt. Gangandi fólk bar gjarnan eitthvað á höfðinu og einstaka karlmann sáum við með stærðar vörubretti hlaðin varningi. Klæðnaður fólks var af öllum gerðum, allt frá aldagömlu tískunni úr 1001 nótt til nýtísku fatnaðar vestrænna manna. Allt virtist leyfilegt og eðlilegt, en í mínum augum stakk þetta fyrst í stúf hvort við annað. Ég þurfti smá tíma til að venjast svona gríðarlega miklu samkrulli og það vandist ótrúlega fljótt. Eftir 2 vikur var ég næstum hætt að veita athygli því sem mér þótti stórmerkilegt við fyrstu sýn.Það er við hæfi að segja frá því, að arabískar konur ganga yfirleitt ekki með höfuðskýlur af trúarlegum ástæðum, heldur eru þær táknmál sem þarlendir skilja. Giftar konur, heitbundnar og aðrar sem ekki kæra sig um athygli karlmanna, ganga með slæður sem skilaboð til karlmanna, að þær óski eftir að fá frið af þeirra hálfu og það er virt. Þá vitum við það, - góð hugmynd !Það sem maður tók einna mest eftir í byrjun voru karlmenn, sem voru alls staðar að vinna hin ólíkustu störf fyrir allra augum, fyrir opnum dyrum við göturnar eða á götunum. Við hér á vesturlöndum erum vanari að sjá konur sinna sumum þessum störfum. Þar má nefna straujarana sem stóðu og kepptust við að strauja þvott í litlum skotum við gangstéttina og aðrir báru ýmiss konar vörur og varning á höfðinu, mun meira en konurnar sem við sáum, enda er kvenfólk greinilega í miklum minnihluta á strætum borgarinnar. Ég þarf greinilega að fara að kenna mínum manni að strauja ;-)
Já, myndefni götunnar eru hreinlega óþrjótandi svo ekki sé meira sagt. Ég náði aðeins örfáum sýnishornum af öllum þeim dásamlegu augnablikum sem ég hefði viljað fanga í vélina mína og afraksturinn getið þið séð í þeim albúmum sem ég hef nú sett á netið á slóðinni: http://photos.yahoo.com/sollasig54
Eitt atriði sem ég verð víst að minnast á, stakk okkur dálítið mikið á ferð okkar um borgina, það var ruslið sem alls staðar blasti við, nánast hvert sem farið var. Sums staðar voru hreinlega haugar af rusli. En það skrítna var að við fundum engan óþef af því, þetta virtist mest allt vera plast og bréfarusl en enginn lífrænn úrgangur, hvernig sem á því stendur. Annað sem vekur athygli er aragrúi af köttum í Cairo. Líklega er stór hluti þeirra villikettir, enda margir horaðir og illa til reika. Einn rauðbröndóttur fallegur köttur kom samt og lagðist við fætur okkar á matsölustað og beið greinilega eftir bita. Lítið fékk hann greyið, því hann var vandætinn, þáði ekki hvað sem var og því trúlega góðu vanur. Fleiri kettir gerðust nærgöngulir við okkur, t.d. á meðan við biðum eftir sólmyrkvanum þann 30. mars, þá sátum við utan dyra á veitingahúsi. Birtust þá 2 kettir sem báðir vildu greinilega eigna sér svæðið og upphófst allsherjar slagur sem fór fram meira og minna undir sætinu mínu og fótunum sem ég lyfti eins hátt upp frá jörðu og ég gat. Nærstaddir gripu vatn og skvettur á þá og skökkuðu leikinn, en hárflyksur lágu eftir á víð og dreif. Hinsvegar var sólmyrkvinn ósköp fyrirferðarlítill séður frá Cairo. Aðeins sást dökkur skuggi á parti af sólinni og það ógreinilega gegnum tvenn sólgleraugu. Myndataka af fyrirbærinu mislukkaðist, við höfðum greinilega ekki réttu græjurnar...Eitt af því sem kom þægilega á óvart var glaðværð, athafnasemi og nægjusemi íbúanna sem reyndu hvað þeir gátu að vera okkur til þjónustu reiðubúnir til að fá greitt fyrir það í stað þess að betla. Ég held ég hafi aðeins 3 sinnum séð fólk sitjandi á gangstétt að betla, það er lítið í samanburði við svo mörg önnur lönd sem ég hef heimsótt, að ógleymdri sjálfri höfuðborg heimsins Washington DC, en þar var útigangsfólk og betlarar í tugavís nokkra metra frá Hvíta húsinu.
Að lokum verð ég að segja frá því, að ég óskaði mér þess af heilum hug að það mundi nú rigna svolítið á þetta skrælnaða land og íbúa þess og mér varð að ósk minni. Það fór að rigna með þrumum og eldingum og víða mynduðust tjarnir á götunum því engin eru niðurföllin. Þegar stytti upp fannst mér loftið ótrúlega ferskt og svalt og gróðurinn varð hreinn og fallegur og allt virtist lifna við. Hvílíkur munur eftir alla óþægilegu rykmengunina.Ég held ég láti hér staðar numið með þennan fyrsta hluta ferðafrásagnar minnar um Egyptaland. Ótalmargt fleira er hægt að telja upp, en hann yrði endalaus ef ég héldi áfram að tíunda allt sem við sáum og upplifðum þar. Ég vona að þessi frásögn ásamt t.d. myndunum í albúmunum Cairo streets og Cairo life gefi örlitla hugmynd um allt það fjölbreytta og skemmtileg mannlíf sem blasir við þegar maður fer í gegnum þessa ótrúlega stóru og fjölmennu borg, sem er örugglega engri lík.... !

Thursday, April 13, 2006

Endalaus vandamál


Heil og sæl enn og aftur !
Ég hef nú reynt án árangurs að koma inn fyrsta hluta ferða- frásagnarinnar, en það gengur ekki með nokkru móti. Fyrst reyndi ég að kópera það sem ég var búin að skrifa í Word, en það gekk alls ekki (furðulegt ?) Þá ákvað ég að nota þetta skírdagskvöld, því nú væri ég komin í frí og hefði tíma. Sat áðan í 2 tíma og pikkaði ferðasöguna beint inn í stað þess að kópera og hvað haldiði að hafi skeð. Ég gat ekki afritað skrifin og þegar ég smellti á Publish þá fraus tölvan enn einu sinni og öll vinnan hvarf....! Ég er búin að fá nóg í bili og langar mest að hætta við allt saman, en ákvað að gera eina stutta tilraun fyrir svefninn og sjá hvað skeði, því mér er illa við að standa ekki við það sem ég segi (svona er að lofa upp í ermina á sér). Þannig að ef að þessi skrif komast inn á vefinn, þá vitið þið af hverju ekkert hefur ennþá skeð í ferðasöguskrifunum hjá mér. Reyni einu sinni enn á morgun og sé til hvernig fer...
Læt þetta duga í kvöld og óska ykkur öllum GLEÐILEGRAR PÁSKAHÁTÍÐAR

Saturday, April 08, 2006

Píramídarnir heimsóttir


Myndin sem átti að fylgja með síðasta bloggi kemur hér. Ég á sífellt í vandræðum með að setja myndir inn með blogginu, veit ekki hvað veldur, en hef þetta þá bara svona....
Við heimsóttum píramídana 3 sinnum. Fyrsta daginn var rok og mikið sandfok svo við urðum frá að hverfa. Í hamaganginum tapaði ég bestu gleraugunum mínum en bjargaðist með lítil vasagleraugu alla ferðina. Annað skiptið fórum við á hestum og úlföldum bakdyramegin ef svo má segja, því við fórum með heimamönnum aðra leið en flestir fara og sáum Cairo úr eyðimörkinni hjá píramídunum við roðagullið sólsetur þegar bænaköllin ómuðu úr kallkerfum borgarinnar, það var ólýsanleg upplifun. Myndir úr þeirri ferð eru komnar í Yahoo-netmyndaalbúm sem heitir Giza pyramids. Fleiri albúm eru tilbúin t.d. Temples og Cairo life og fleira á leiðinni.
Læt þetta duga að sinni.... skrifa meira næst...

Friday, April 07, 2006

Komin heim...

Heil og sæl á ný ! Þá er ógleymanlega hlýleg Egyptalandsferð að baki og kaldur íslenskur hversdagsleiki tekinn við. Það er vissulega alltaf gott að koma heim, en þessi nýafstaðna ferð skilur eftir svo sterkar minningamyndir og áhrif að ekki er hægt að sleppa því að tjá sig meira eða minna um það. Ég ætla því á næstunni að hripa niður helstu hugleiðingar mínar um ferðina, segja frá því sem kom mest á óvart og reyna að lýsa þeim undarlegu áhrifum sem fólk og umhverfi hafði á mig persónulega. Svona umfjöllun verður samt aldrei tæmandi og getur aldrei lýst mannlífi og umhverfi nema að litlu leyti, ekki frekar en myndir, þó hvoru tveggja gefi góðar hugmyndir um aðstæður, þá er svo margt sem skilur á milli, eins og lykt, tilfinning, þrívídd og annað sem aðeins líkamleg skilningarvit finna. Ég er þegar byrjuð á að setja ferðamyndir inn í albúm á sömu slóðinni: http://photos.yahoo.com/sollasig54 en þar getið þið séð myndir af Adam litla ömmu/afastráknum okkar í Cairo, en við dvöldum með þeim Jóhönnu, Mo og fjölskyldu hans í 5 daga og fórum vítt og breitt um borgina. Einnig setti ég inn myndir af ferðafélögum okkar (aðallega Söru og Jill) ásamt aðal leiðsögumönnunum okkar Núbíumanninum Ahmed og Latif í Cairo auk bílstjórans Mahmoud í albúm sem nefnist: Félagar á Níl. Mannlíf á götum Cairo er að finna í sérstöku albúmi og þannig mun ég halda áfram, t.d. Musteri Egyptalands, Nílarsigling og fleira.Þeir sem hafa áhuga á að lesa um ferðina geta kíkt hér inn á næstunni og einnig skoðað albúmin af og til, því alltaf bætist við eitthvað nýtt. Ég læt þetta duga þar til ég hef samið ferðafrásagnirnar og komið inn fleiri myndum. Þangað til – hafið það sem allra best....!

Ég vil taka það fram að slóðin hér á ferðamyndir og fleira á netinu er ekki rétt, sú rétta er :
https://www.flickr.com/photos/sollasig54/