– borgin sem aldrei sefur.
Það er sannarlega réttnefni, því meiri umferðarhávaða jafnt að nóttu sem degi höfum við aldrei upplifað, en einmitt fyrstu nóttina okkar í Cairo. Þó troðið væri bómull í bæði eyru og breytt yfir höfuð, þá dugði það ekki til að ég gæti sofnað þessa fyrstu nótt á Delta Pyramid hótelinu sem staðsett er í næsta nágrenni við hina frægu píramída í Gísa. Þessir 2 stærstu píramídar landsins sem reistir voru af feðgunum Keops og Kefran gnæfa upp úr eyðimörkinni á vesturbakka Nílar, við jaðar höfuðborgarinnar sem breiðir úr sér í 3 áttir með sínar 22 milljónir íbúa – aðeins !
Já, íbúar þessarar menguðu og óhreinu stórborgar eru sístarfandi. Líklega þykir mörgum betra að vera á ferðinni í nætursvalanum heldur en hitanum á daginn og auk þess er gatnakerfi borgarinnar sprungið fyrir lifandi löngu. Þar komast ekki áfram allar þær milljónir bíla á eðlilegum hraða samkvæmt þeim lögmálum sem við erum vön. Ónei, þar gilda lögmál frumskógarins, þeir freku og sterku ryðjast áfram, hinir víkja og dragast aftur úr. Hvílíkt kaos á götunum. Við höfum stundum kvartað yfir umferðinni í Reykjavík og ennþá meira yfir umferðinni sem við lentum í þegar við dvöldum í Rómarborg fyrir nokkrum árum. En þessi umferðarmenning í Cairo er hreinlega engu lík og ótrúlegt hvað hún gengur slysalítið fyrir sig. Við sáum reyndar 2 smá árekstra og einnig blóðugan mann eftir ákeyrslu og verðum að segja eins og er, að það er lítið miðað við þann skelfilega akstursmáta sem þarna fer fram.Ef til vill hef ég bara verið yfir mig stressuð fyrstu nóttina eftir ótrúlega langan aksturinn frá flugvellinum á hótelið, ég geri mér ekki grein fyrir því. En viðbrigðin að vera komin í þennan ærandi næturhávaða var meiri en svo að ég gæti sofið. Sjálf vil ég meina að aðal ástæðan hafi verið sífellt flaut bílstjóranna. Þeir böðlast áfram á hámarks hraða, flautandi að því er virðist af litlu eða engu tilefni, kannski í varúðarskyni, spyr sá sem ekki veit. Þarlendir bílstjórar nota mikið flautu, stefnuljós og aðalljós til tjáskipta í umferðinni og virtist það nauðsynlegt miðað við aðstæður. En okkar geðprúði og kvensami bílstjóri Mahmoud brosti bara og hló að okkur þegar við gáfum frá okkur stunur og viðvörunaróp. Hann horfði meira á okkur í aftursætinu en göturnar og notaði hendurnar meira til útskýringa en til að stýra bílnum. Samt komst hann leiðar sinnar slysalaust með okkur í heila 2 daga, það finnst manni ganga kraftaverki næst. Svona umferð krefst óskaplega mikils af ökumönnum, þeir verða að vera mjög einbeittir, vel vakandi og mega alls ekki vera svifaseinir, þá færi fljótt illa. Þeir hljóta að verða stressaðir og þreyttir af öllum þessum hamagangi, jafnvel þó þeir séu geðgóðir og hraustir. Mig undrar þetta sérstaklega mikið, því hvergi á jarðríki hef ég séð fleiri karlmenn reykja heldur en einmitt í Egyptalandi. Við hittum reyndar 1 karlmann hjá þessari 75 milljón manna þjóð sem við vitum fyrir víst að reykir ekki, því skv. upplýsingum heimamanna, þá reykja nánast allir karlmenn landsins. Hvílík sóun á heilsu og peningum þessarar fátæku þjóðar. Ég varð hálf miður mín yfir þessu, ekki síst þegar ég heyrði 24 ára gamlan leiðsögumann okkar síhóstandi, enda var hann síreykjandi og hafði að eigin sögn reykt í 7 ár. Ég sá hann bjóða dreng á fermingaraldri sígarettur, þá gat ég ekki orða bundist og spurði hvort þeir vissu ekki hve hættulegt það væri að reykja. Jú, þeir sögðu það standa utan á pökkunum á arabísku, en það reyktu samt allir, svo þeir gerðu það líka ... Vilji minn og annarra til úrbóta má sín greinilega lítils gegn þessum skelfilega ávana...!
En áfram með smjörið... Eftir þessa fyrstu ökuferð að næturlagi um Cairo, ákvað ég að horfa ekki fram fyrir bílinn, heldur einbeita mér að umhverfinu til hliðar og reyna að festa á myndir það sem fyrir augu bar og það var ekkert smáræði. Hvílík upplifun. Þúsundir ólíkra farartækja runnu hjá, flest gamlir, beyglaðir og ryðgaðir bílar af öllum stærðum og gerðum, en einnig ótrúlega mikið af asna-og-hestakerrum með ýmiskonar varningi á. Einnig hjól af ýmsum gerðum, sömuleiðis hlaðin hinum furðulegustu hlutum, eins og mjólkurbrúsum og gaskútum svo eitthvað sé nefnt. Gangandi fólk bar gjarnan eitthvað á höfðinu og einstaka karlmann sáum við með stærðar vörubretti hlaðin varningi. Klæðnaður fólks var af öllum gerðum, allt frá aldagömlu tískunni úr 1001 nótt til nýtísku fatnaðar vestrænna manna. Allt virtist leyfilegt og eðlilegt, en í mínum augum stakk þetta fyrst í stúf hvort við annað. Ég þurfti smá tíma til að venjast svona gríðarlega miklu samkrulli og það vandist ótrúlega fljótt. Eftir 2 vikur var ég næstum hætt að veita athygli því sem mér þótti stórmerkilegt við fyrstu sýn.Það er við hæfi að segja frá því, að arabískar konur ganga yfirleitt ekki með höfuðskýlur af trúarlegum ástæðum, heldur eru þær táknmál sem þarlendir skilja. Giftar konur, heitbundnar og aðrar sem ekki kæra sig um athygli karlmanna, ganga með slæður sem skilaboð til karlmanna, að þær óski eftir að fá frið af þeirra hálfu og það er virt. Þá vitum við það, - góð hugmynd !Það sem maður tók einna mest eftir í byrjun voru karlmenn, sem voru alls staðar að vinna hin ólíkustu störf fyrir allra augum, fyrir opnum dyrum við göturnar eða á götunum. Við hér á vesturlöndum erum vanari að sjá konur sinna sumum þessum störfum. Þar má nefna straujarana sem stóðu og kepptust við að strauja þvott í litlum skotum við gangstéttina og aðrir báru ýmiss konar vörur og varning á höfðinu, mun meira en konurnar sem við sáum, enda er kvenfólk greinilega í miklum minnihluta á strætum borgarinnar. Ég þarf greinilega að fara að kenna mínum manni að strauja ;-)
Já, myndefni götunnar eru hreinlega óþrjótandi svo ekki sé meira sagt. Ég náði aðeins örfáum sýnishornum af öllum þeim dásamlegu augnablikum sem ég hefði viljað fanga í vélina mína og afraksturinn getið þið séð í þeim albúmum sem ég hef nú sett á netið á slóðinni: http://photos.yahoo.com/sollasig54
Eitt atriði sem ég verð víst að minnast á, stakk okkur dálítið mikið á ferð okkar um borgina, það var ruslið sem alls staðar blasti við, nánast hvert sem farið var. Sums staðar voru hreinlega haugar af rusli. En það skrítna var að við fundum engan óþef af því, þetta virtist mest allt vera plast og bréfarusl en enginn lífrænn úrgangur, hvernig sem á því stendur. Annað sem vekur athygli er aragrúi af köttum í Cairo. Líklega er stór hluti þeirra villikettir, enda margir horaðir og illa til reika. Einn rauðbröndóttur fallegur köttur kom samt og lagðist við fætur okkar á matsölustað og beið greinilega eftir bita. Lítið fékk hann greyið, því hann var vandætinn, þáði ekki hvað sem var og því trúlega góðu vanur. Fleiri kettir gerðust nærgöngulir við okkur, t.d. á meðan við biðum eftir sólmyrkvanum þann 30. mars, þá sátum við utan dyra á veitingahúsi. Birtust þá 2 kettir sem báðir vildu greinilega eigna sér svæðið og upphófst allsherjar slagur sem fór fram meira og minna undir sætinu mínu og fótunum sem ég lyfti eins hátt upp frá jörðu og ég gat. Nærstaddir gripu vatn og skvettur á þá og skökkuðu leikinn, en hárflyksur lágu eftir á víð og dreif. Hinsvegar var sólmyrkvinn ósköp fyrirferðarlítill séður frá Cairo. Aðeins sást dökkur skuggi á parti af sólinni og það ógreinilega gegnum tvenn sólgleraugu. Myndataka af fyrirbærinu mislukkaðist, við höfðum greinilega ekki réttu græjurnar...Eitt af því sem kom þægilega á óvart var glaðværð, athafnasemi og nægjusemi íbúanna sem reyndu hvað þeir gátu að vera okkur til þjónustu reiðubúnir til að fá greitt fyrir það í stað þess að betla. Ég held ég hafi aðeins 3 sinnum séð fólk sitjandi á gangstétt að betla, það er lítið í samanburði við svo mörg önnur lönd sem ég hef heimsótt, að ógleymdri sjálfri höfuðborg heimsins Washington DC, en þar var útigangsfólk og betlarar í tugavís nokkra metra frá Hvíta húsinu.
Að lokum verð ég að segja frá því, að ég óskaði mér þess af heilum hug að það mundi nú rigna svolítið á þetta skrælnaða land og íbúa þess og mér varð að ósk minni. Það fór að rigna með þrumum og eldingum og víða mynduðust tjarnir á götunum því engin eru niðurföllin. Þegar stytti upp fannst mér loftið ótrúlega ferskt og svalt og gróðurinn varð hreinn og fallegur og allt virtist lifna við. Hvílíkur munur eftir alla óþægilegu rykmengunina.Ég held ég láti hér staðar numið með þennan fyrsta hluta ferðafrásagnar minnar um Egyptaland. Ótalmargt fleira er hægt að telja upp, en hann yrði endalaus ef ég héldi áfram að tíunda allt sem við sáum og upplifðum þar. Ég vona að þessi frásögn ásamt t.d. myndunum í albúmunum Cairo streets og Cairo life gefi örlitla hugmynd um allt það fjölbreytta og skemmtileg mannlíf sem blasir við þegar maður fer í gegnum þessa ótrúlega stóru og fjölmennu borg, sem er örugglega engri lík.... !
1 comment:
Frábær ferðasaga Solla - þú mátt alls ekki hætta að skrifa!
Post a Comment