Sunday, April 16, 2006

Aswan og Abu Simbel


Jæja, best að halda áfram með ferðasöguna í von um að hún komist á netið.
Í upphafi ferðar, eftir að við höfðum keypt flugfar á netinu með KLM frá Kaupmannahöfn til Cairo, fórum við að skoða hvað Egypskar ferðaskrifstofur hefðu uppá að bjóða. Niðurstaðan var að panta 8 daga ferð á vegum “Egypt On Line” sem reyndist vera traustsins verð, auk þess sem uppsett verð var meira en sanngjarnt, því þegar til kom reyndust allar ferðir, gisting og fullt fæði innifalið og örugg fararstjórn allan tímann ásamt aðgöngumiðum í öll þau söfn og musteri sem við heimsóttum. Allt sem okkur langaði mest að sjá og skoða var innifalið í þessum ferðapakka. Það eina sem reyndist vera óvenjulegt var greiðslumátinn sem var viðhafður. Á leiðinni frá flugvellinum var hringt í bílstjórann sem síðan fór með okkur í skjóli nætur (um kl 02) að heimili yfirmanns Egypt On Line, þar sem hann bjó í fjölbýlishúsi. Hann kom út með pappíra samsvarandi þeim sem ég hafði prentað út við pöntunina á netinu. Undir þetta urðu báðir aðilar að skrifa úti á götu og við síðan að greiða honum út í hönd þá upphæð sem um var samið. En við kusum að greiða ferðina við komuna til Egyptalands, en ekki fyrirfram, vegna ótryggs ástands í heiminum. Þessi næturferð var dálítið “spooky” (í alvöru talað)
og óvænt viðbót við hávaða, mengun, stress og þreytu eftir langa ferð frá Íslandi. Ég taldi það mitt lán að þrauka fyrsta daginn okkar í Cairo eftir svefnlausa nótt, því að við tók sandfok við píramídana þar sem ég byrjaði á að tapa bestu gleraugunum mínum og þurfti síðan að glíma við aðgangsharða sölumenn hjá ýmsum fyrirtækjum sem við heimsóttum, auk þess sem við skoðuðum stallapíramídann í Sakkara og merkilegt safn í Memphis í steikjandi sólarhita. Að kvöldi þessa fyrsta dags var ég í vafa um hvort ég þyldi annan slíkan, nema fá fyrst góða hvíld og hana fékk ég sem betur fer. Ég losnaði auk þess við innkaupapressuna, því eftir að okkar ágæti bílstjóri í Cairo hafði komið okkur heilu og höldnu í næturlestina til Aswan, þá tók við notaleg nótt. Hvílíkur munur að láta lestina vagga sér í svefn og vakna í dagrenningu við ilmandi morgunverð áður en hoppað var úr í hinni “ungu” borg Aswan, sem státar nýlegum byggingum og hreinum strætum, miðað við Cairo. Isis hótelið sem við vorum flutt á eftir smá bið á járnbrautarstöðinni, reyndist mjög hreint og huggulegt, með fallegri sundlaug og góðri sólbaðsaðstöðu ásamt frábæru útsýni yfir Níl. Við gætum vel hugsað okkur að halda þar til um tíma. Eftir notalegt bað og stutta hvíld vorum við sótt af nýjum fararstjóra sem fór með okkur að skoða það markverðasta á þessu svæði. Siglt var m.a. með okkur út í eyju í Níl til að skoða ævafornt musteri. Söfn, lystigarður og fleira var skoðað og síðast en ekki síst granítnáma, sú eina sem til er í Egyptalandi. Þar voru allar stærstu styttur og einsteinungar (Obeliskur) Egyptalands höggnar út. Það er eitt af óþekktum leyndarmálum hinna fornu Egypta, hvernig þessar gríðarlega stóru og þungu steinblokkir voru fluttar á milli staða.
Svo fórum við að skoða stíflugarðana sem Nasser fyrrum forseti landsins lét reisa til að virkja Níl. Þar blasti við hið gríðarstóra uppstöðulón, Nasservatn, sem varð þá til og framleiðir nú þá raforku sem þjóðin þarf á að halda, ásamt því að nú geta landsmenn ráðið vatnshæð Nílar og skammtað í hæfilegu magni í stað stjórnlausra flóðanna áður. En þessar framfarir gengu ekki átakalaust fyrir sig, því flytja þurfti íbúa næstum heillar þjóðar á brott af því svæði sem fara átti á kaf, þegar stíflan yrði tilbúin. Núbíuþjóðin varð að sætta sig við að lúta í lægra haldi. Að sögn eins heimamanna, þá hatar þjóðin ennþá þennan látna forseta fyrir þessa neyðarflutninga og lái þeim það hver sem vill.
Heimsókn okkar þennan dag í lítið þorp Núbíumanna neðan við stífluna var að mínum dómi hápunktur dagsins, þar virtist tíminn standa í stað, enginn var að flýta sér og úlfaldar aðal farartækin. Allir voru brosmildir og þægilegir, engin frekja eða yfirgangur við okkur og nægjusemi greinilega ríkjandi. Íbúarnir flestir háir, grannir og fríðir sýnum. Þeir eru talsvert dekkri á hörund en arabarnir sem virka sólbrúnir. Alveg ógleymanlegt !
Að kvöldi þessa dags fórum við snemma í háttinn, því leggja átti af stað kl. 3 næstu nótt með hóp í rútu, gegnum hluta af Sahara eyðimörkinni, til að skoða hið fræga musteri Abu Simbel, en það var einmitt stórmál og kapphlaup við tímann að bjarga því úr gilinu þegar stóra stíflan reis og gilið að fyllast af vatni. Alþjóðleg samtök stóðu fyrir þeirri björgun og leystu það verkefni geysilega vel af hendi. Þetta gríðarstóra tvöfalda musteri var hlutað í sundur og því komið fyrir í öruggri hæð, þar sem það var sett upp á ný, nánast óaðfinnanlega. Eini munurinn að sögn leiðsögumanna er sá, að tvisvar á ári þegar sólin nær að skína á styttur 3ja guða inni í því allra heilagasta, þá færðist sá dagur til um einn. Þ.e.a.s. í stað þess að áður skein sólin þar inn 21. febr. og 21. okt. árlega, þá færðist það yfir á 22. febr. og 22. okt. Ekki var að heyra að menn tækju nærri sér þessa minniháttar breytingu.
Þessi næturferð gekk ótrúlega vel. Fjöldinn allur af rútum safnaðist saman og varð samferða, trúlega af öryggis og hagkvæmnisástæðum, því alls staðar í landinu er aragrúi af vopnuðum her-og-lögreglumönnum sem eiga að gæta öryggis ferðamanna. Víða eru varðstöðvar og greinilega ákveðnar reglur í gangi sem taka þarf tillit til, enda var oft stoppað. Við vorum mætt í dagrenningu að musterinu og komumst á undan aðal ferðamannahópunum til að skoða okkur um innan dyra, en þar eins og víðast hvar á söfnum, mátti ekki taka myndir. Ég tók því það ráð að kaupa myndabækur sem sýna það helsta innandyra á þessum stöðum. En allir veggir eru skreyttir myndum og úthöggnum lágmyndum, stórmerkilegum.
Á bakaleiðinni var orðið óskaplega heitt, þrátt fyrir loftkælda rútuna, líklega var hitinn yfir 40 stigum um hádaginn. Ein ung og hraustleg samferðakona okkar leið útaf og var óttast um hana, en úr rættist og við sluppum tímanlega heim á hótel til þess að pakka saman á ný og flytja um borð í hótelskipið Anni sem við áttum að dvelja í næstu 4 daga. Þess má geta að hluti af eyðimörkinni sem við fórum um er býsna líkur Möðrudalsöræfum, þar blasa við píramídalöguð fjöll upp úr sandauðninni, sem reyndar er víðast hvar nokkuð ljósari yfirlitum en sú íslenska. Best ég láti mynd fylgja svo þið sjáið hve líkt þetta er...
Það er líka best ég segi ykkur frá því, að skömmu áður en við lögðum af stað í þessa ferð, þá dreymdi mig 2 drauma um Egyptaland. Mér finnst þeir hafa ræst. Í öðrum þeirra fannst mér við vera með Jóhönnu Björgu og fjölskyldu á sólríkum stað í Cairo, þegar hópur hermanna með byssur umkringdu okkur. Ég fann bara til öryggis og var nokkuð viss um þegar ég vaknaði að ferðin mundi ganga vel. Hitt vissi ég ekki að við yrðum umkring af vopnuðum hermönnum alla ferðina. Þessi draumur rættist því bókstaflega. Hinn draumurinn var um fararstjóra sem væri gamall og traustur vinur sem tók á móti okkur með faðmlagi og kossi á kinnar. Það sannaðist á unga leiðsögumanninum Achmed, sem stóð sig frábærlega þessa 5 daga og varð hinn besti félagi okkar og vinur.
Ég gleymdi líka að geta þess að við bjuggum við þau forréttindi fyrstu 2 daga ferðarinnar að vera ein með leiðsögumann og bílstjóra. En það hefði verið tómlegt til lengdar.
Á Nílarsiglingunni bættust við 4 nýir ferðamenn í Ramsesar-hópinn hans Ahmeds og var það vel þegið, enda fyrirmyndar samferðafólk. Þessi fjögur eru öll búsett í USA. Þetta voru ung hjón af indverskum ættum í brúðkaupsferð og miðaldra barnlaus kona (Jill) með tvítugri systurdóttur sinni (Söru) sem er áhugaljósmyndari og stundar spænskunám. Auk þess kom í ljós að hún er afbragðs góður knapi. Segi meira frá þeim í næsta þætti sem verður um ferð okkar saman niður Níl, frá Aswan til Luxor og aftur til Cairo.
Læt nú þessum hluta lokið.

No comments: