Á ferðalögum, einkum erlendis upplifir maður oft ógleymanleg augnablik sem erfitt er að lýsa eða útskýra. Hugur manns fer á flug og virðist vera á öðrum bylgjulengdum jafnvel heilu dagana, þegar ólík menning og framandlegir staðir eru annars vegar.
Á þessari nýafstöðnu ferð okkar til Egyptalands upplifði ég nýja ferða-útgáfu ef ég má orða það svo. Á köflum fannst mér ég hafa dottið aftur í tímann og væri að horfa á löngu liðna atburði, en þess á milli undraðist ég þann ótrúlega fjölbreytileika sem sjá mátti hvert sem litið var. Þrátt fyrir þetta, leið mér vel, hafði notalega tilfinningu og fann til öryggis eins og ég væri “heima”. Við höfðum líka afskaplega þægilega ferðafélaga sem virtust á svipaðri bylgjulengd og við. Við deildum áhuga á sömu hlutum og sáum broslegu hliðarnar á því sem fyrir bar og gerðum góðlátlegt grín að þeim hugmyndum sem komu upp okkar á milli og hlógum mikið að allri okkar vitleysu. Takmörkuð tungumálakunna okkar var ekki til vandræða og Rúnar var ófeiminn við að þýða íslenska brandara yfir á ensku og kom öllum til að skellihlæja þegar tími gafst til að sitja og spjalla.
Á siglingunni niður Níl bar fyrir augu okkar gamalt og fallegt farþegahótel með ártalinu 1917. Fararstjórinn sagði þetta vera elsta og dýrasta hótelskipið. Okkur fannst mjög líklegt að sjálf glæpasagnadrottningin Agatha Christie sem dvaldi oft á vetrum á þessum slóðum við skriftir, hefði siglt hér um á þessu skipi og notið þessa sama rólega og fallega umhverfis sem við nú sátum og horfðum á. Við heimsóttum líka hótelið sem hún dvaldi á í Luxor, en það heitir Winter Palace (sjá mynd). Það er þekktast fyrir alla þá frægu aðila sem dvalið hafa þar gegnum tíðina. Auk A. Cristie má nefna Englendinginn Howard Carter sem árum saman dvaldi þar á meðan hann leitaði að gröf Tutankamons, sem hann loks fann árið 1922, á elleftu stundu að því sagt er. Hefur sá atburður síðan verið nefndur Fornleifafundur aldarinnar og er trúlega réttnefni.
Við lögðum margar erfiðar spurningar fyrir fararstjórann okkar, sem virtist svara oft af tilfinningahita, enda ungur maður og greinilega sár og reiður yfir ýmsu sem betur má fara í hans fjölmenna og fátæka landi, þar sem atvinnuleysi er alltof mikið. Hann, eins og flestir íbúar landsins að sögn, eru mjög ósáttir við forsetann og gera grín að honum. Ég spurði hvers vegna fólk kysi þá ekki nýjan forseta. Svarið var á þá leið að það væri ekki hægt. Jafnvel þó að meirihluti íbúanna kysi á móti forsetanum, þá fengi hann samt 99% atkvæða að sögn eftir kosningarnar. Málið er þannig vaxið að þegar hann (fararstjórinn) fór að kjósa, þá voru honum boðnir 2 miðar. Annar var miði forsetans, hinn miðinn var kosning á móti honum. Þeir sem þora að velja þann miða, eiga yfir höfði sér að lenda í fangelsi og eru örugglega settir á svartan lista og jafnvel fylgst með þeim. Af þessum sökum kjósa alltof fáir það sem þeir virkilega vilja og mjög margir sleppa því að mæta á kjörstað, þó það séu álitin viss mótmæli gegn stjórninni, þá er það skárra heldur en að kjósa á móti forsetanum, ef maður vill ekki lenda í ónáð.
Útkoma kosninganna virðist því fyrirfram ákveðin og er eintóm sýndarmennska. Sjálfur sagðist hann hata þetta ástand og kjósa á móti forsetanum, hvað sem það mundi kosta hann í framtíðinni.
Við komumst líka að því að múslimakonur ráða yfirleitt meiru en við héldum. Þrátt fyrir að arabískir karlmenn megi eiga allt að 4 eiginkonum í einu, þá láta flestir sér nægja eina konu. Kvaðst fararstjórinn t.d. mundi koma föður sínum fyrir kattarnef ef hann vogaði sér að líta á aðrar konur en móður hans. Konur hafa líka vald til að hafna nýjum eiginkonum og mega skilja við menn sína ef þeir kjósa nýja konu gegn þeirra vilja. Þá verða eiginmennirnar að ganga út af heimili þeirra slyppir og snauðir en þær fá íbúðina og börnin. Þær koma líka ákveðnum skilaboðum til karlmanna með því að ganga með höfuðslæðurnar, þær vilja ekki athygli þeirra, hvort sem það er vegna þess að þær eru giftar, heitbundnar eða áhugalausar. Þessi skilaboð eru virt og hafa ekkert með trúarbrögð þeirra að gera, heldur er þetta fyrst og fremst þjóðarsiður, að þeirra sögn. Mér sýnast því múlímakonur vera að sumu leyti betur settar en karlmenn og get nefnt eitt dæmi enn. Það reykja hlutfallslega fáar arabískar konur og eru auk þess lítið á ferðinni utandyra í menguðu lofti stórborganna, en flestir karlmenn reykja og þeir lifa og hrærast á götunum, svo að segja má að þeir búi við tvöfalda mengun sem hlýtur að hafa slæm áhrif.
Jæja, þetta er orðið nokkuð langt spjall og ekki von til þess að nokkur endist til að lesa meira. Ég læt því þessar hugleiðinar nægja, a.m.k. í þetta sinn. Þakka ykkur fyrir innlitið. Lifið heil......!
No comments:
Post a Comment