Wednesday, April 19, 2006

Aftur til Cairo



Jæja, þá er það lokaáfanginn. Eftir frábæra dvöl á hótelskipinu Anni urðum við að fara aftur með næturlest til Cairo og gekk það jafn ljúflega og í fyrra skiptið. Indverska parið varð okkur samferða, en Jill og Sara höfðu kosið að fljúga.
Við komuna til Cairo að morgni 25. mars tók okkar fyrrverandi bílstjóri (sem hlaut viðurnefnið crazy driver) á móti okkur og mikið urðum við fegin að sjá hann, þrátt fyrir “geðveikan”akstursmátann. Eftir eldsnögga sturtu á Delta Pyramid hótelinu vorum við sótt aftur og nú var ekið upp í Mohamed Ali moskuna sem er á efstu hæðinni í Cairo. Þetta er gríðarlega stór og falleg bygging sem orðin er fyrst og fremst vinsæll ferðamannastaður, þó hún þjóni einnig trúuðum heimamönnum. Ekki má fara inn í moskuna á skóm og kvenfólk má ekki sjást með bera handleggi og fætur. En það virðist í lagi með karlmenn, því Rúnar fór óáreittur inn í stuttbuxum og bol, en ég sem var í síðum buxum og svolítið flegnum hálferma bol, varð að fara í mussu til að hylja allt nema hendur og andlit. Þær Sara og Jill voru okkur samferða þennan dag og skemmtum við okkur hið besta eins og alla hina dagana. Farið var með okkur hraðferð í þjóðminjasafnið og síðan í 3 kirkjur, ein var tileinkuð heilagri Barböru sem ég held að sé verndardýrðlingur Hafnarfjarðar. Jarðneskar leifar hennar eru þarna geymdar. Önnur kirkjan stendur á þeim stað sem konungshöllin stóð til forna, þegar Móses fannst þar í sefinu og var alinn þar upp meðal fyrirfólksins. Síðast en ekki síst fórum við í kirkju með hrörlegum gömlum kjallara sem við reyndar fengum ekki að skoða, en okkur var sagt að í þessum kjallara hefðu Jósef og María verið í felum með Jesúbarnið fyrstu 2 ár hans, eftir að þau flúðu undan Heródesi sem ætlaði að láta aflífa öll nýfædd sveinbörn. Hvort þetta er allt satt og rétt skal ekki dæmt um, en örugglega er eitthvað til í þessu öllu saman.
Í stað þess að fara á gamla markaðinn og í búðir, þá samþykkti bílstjórinn að keyra okkur í staðinn að píramídunum og aðstoða okkur við að komast í úlfaldaferð út í eyðimörkina til að skoða píramídana bakdyramegin. Þetta gekk bara vel en tók sinn tíma og þarna upplifðum við alveg sérstaka stund, því það er engu líkt að rölta á hægagangi við sólarlag yfir sandinn með heimamönnum og horfa yfir þessa stóru borg sem ómaði af hinum hefðbundnu og háværu bænaköllum sem maður varð að hlusta á 5 sinnum á dag, hvort sem manni líkaði það betur eða verr. Þegar við komum til baka var orðið hálf dimmt. Þá hittum við indverska parið og fórum öll á sérstaka sýningu, Sound and Lightshow, sem fer þarna fram við “Svingsinn” eftir sólarlag. Marglit ljós lýsa upp umhverfið og píramídana. Saga þeirra er sögð og myndum varpað á hlaðinn vegg skammt frá. Þetta var frábær stund að öðru leyti en því, að nú var orðið ansi kalt úti og við ekki nógu vel klædd. Hitamismunurinn suður í Aswan og Luxor annars vegar og Cairo hinsvegar er ótrúlega mikill. Það var aldrei óþægilega heitt í Cairo þessa viku og frekar svalt á kvöldin. Það rigndi þar að auki part úr 2 dögum sem er víst mjög óvenjulegt, ekki síst á þessum tíma.
En nú var komið að kveðjustund. Félagar okkar frá USA voru öll á leið heim næstu nótt, en við ætluðum að dvelja nokkra daga í viðbót með dóttur okkar og tengdafólki hennar í Cairo. Við fluttum á betra hótel og leigðum bílaleigubíl sem tengdasonur okkar ók af engu minni ákafa og látum en aðrir heimamenn, svo að við lá að ég þyrfti að líma fyrir munninn til að trufla hann ekki með óvæntum óhljóðum þegar verst lét. En allt gekk þetta slysalaust. Við skoðuðum margt skemmtilegt, m.a. fallegan listigarð á einni hæstu hæð borgarinnar og hinn fræga markað Khan El Khalily. Þar sátum við og biðum eftir þeim einstæða atburði að sjá sólmyrkva. Ekki fór nú mikið fyrir honum frá okkur séð og urðu það smá vonbrigði, sem við tókum þó ekki nærri okkur. Á betri stað í Egyptalandi mátti sjá hinn fullkomna sólmyrkva sem sérstakir áhugamenn fóru til að sjá. Þar var víst margt frægt fólk saman komið, t.d. Kalli bretaprins og Kamilla nýja konan hans ásamt sjálfum forseta Egyptalands og hópi evrópubúa sem urðu okkur samferða í fluginu til Amsterdam 3 dögum síðar.
Við fórum líka þriðju ferðina að píramídunum. Að þessu sinni var eiginlega of heitt, en við gengum þó loksins allan hringinn í kringum þá og skoðuðum safnið sem hýsir Sólfarið mikla (skip faraós) sem fannst í djúpri gröf við hliðina á Keopspíramídanum. Það eina sem ég varð að sleppa að þessu sinni, var að skríða inn í þennan stærsta og frægasta píramída í heimi. Hann er bara opinn á vissum tímum vikulega og aðeins er hleypt inn 50 manns í einu. Þetta mun vera gert til að hlífa göngunum sem líklega slitna talsvert af þessum stöðugu heimsóknum.
En nú var komið að tengdafólki Jóhönnu. Okkur var boðið til veislu daginn sem við vorum laus frá ferðaskrifstofunni. Afar vel var tekið á móti okkur og til þess ætlast að við borðuðum meira en góðu hófi gegndi. Settur var heill og úttroðinn fugl á diskinn hjá hverju okkar og sagt að þetta væri einhver dúfutegund. Síðan bættist við stórt stykki af steiktu lambakjöti og heil ósköp af meðlæti með. Ekki gátum við klárað þetta allt og okkur fyrirgafst lystarleysið vegna þess hve slæm við höfðum verið í maga alla vikuna.
Ég gleymdi að geta þess að við fórum öll saman í siglingu í kringum eyju í Níl sem nefnd er Jakobseyja. Þar er stórt og mikið safn, næstum eins og þorp sem útbúið er fyrir ferðamenn sem vilja sjá lifnaðarhætti og starfshætti Egypta gegnum aldirnar. Heimamenn eru þarna í ýmsum hlutverkum og sýna gömul og hefðbundin vinnubrögð. Einnig eru þarna söfn sem sýna eftirlýkingu af gröf Tútankamons og allt góssið sem þar fannst, einnig safn um fv. forseta Egyptalands, þá Nasser sem áður er nefndur og Anwar Sadat sem myrtur var eftir að hann hóf friðarviðræður við Ísrael.
Við notuðum líka einn daginn til að fara aftur á þjóðminjasafnið til að geta almennilega skoðað okkur um. Það var hinsvegar erfitt að mega ekki taka myndir þar inni og huggaði ég mig við það að hafa fjárfest í nokkrum fallegum myndabókum sem sýndu flesta fallegustu og áhugaverðustu hlutina sem þar eru til sýnis.
Á kvöldin gengum við í rólegheitum um nálægar götur hótelsins og fylgdumst með iðandi mannlífinu sem þar er. Okkur, þessum forvitnu útlendingum var alls staðar vel tekið og myndatökur leyfðar næstum undantekningalaust og oftast án þess að greitt væri fyrir það.
En nú er komið að leiðarlokum, fríið búið, við á förum, en þurftum að bíða eftir flugi fram á nótt. Okkur var því boðið til kvöldverðar hjá “tengdó” og að þessu sinni fengum við fiskiveislu. Aftur voru diskar okkar fylltir af mat, þó með meiri hógværð að þessu sinni. Þarna borða allir með guðsgöfflunum, þó hnífapör væru sett á borðið. Samræður okkar snérust meira og minna um fjölskyldur okkar en einnig um amerískar kvikmyndir, því að helsta áhugamál og skemmtan Egypta virðist vera að glápa á sjónvarp. Á ferðum um landið má sjá gerfihnattadiska á öllum húsum, meira að segja kofum sem varla er hægt að hugsa sér sem mannabústaði. Fólk þarf ekki að borga nein afnotagjöld og hefur aðgang að u.þ.b. 100 rásum, þar á meðal amerískum kvikmyndum. Og við komum ekki að tómum kofanum hjá þeim. Þau höfðu hreinlega horft á allar þær vestrænu kvikmyndir sem okkur datt í hug að nefna og kunnu skil á leikurunum betur en við sem þykjumst þó fylgjast þokkalega vel með hér heima.
Já, það var sannarlega margt sem kom á óvart og er þó aldeilis ekki allt upp talið hér, en ég ætla að láta þetta nægja.
Ferðin heim gekk slysalaust, hún tók að vísu mun lengri tíma en ferðin út, því vélin hjá KLM sem við áttum að fara með bilaði og það kostaði margra tíma auka-bið í Amsterdam. En heim komumst við heilu og höldnu eftir 2ja daga viðdvöl í Danmörku. Þar fannst okkur ótrúlega kalt, jafnvel verra heldur en hér heima á gamla Fróni.
Ef eitthvað í þessum frásögnum mínum er óljóst eða vekur spurningar, þá endilega hafið samband og ég mun svara eftir bestu getu...
Að síðustu viljum við láta þess getið, að svona skipulögð ferð á vegum ferðaskrifstofu er mjög áhugaverð fyrir þá sem treysta sér til að vera mikið á ferðinni. Að vísu er hægt að fara rólegri ferð en við kusum og maður þarf auðvitað ekki að fara í öll þessi musteri eða aðra staði ef maður vill það ekki. Það er líka hægt að liggja bara í leti um borð í ferjunni og sóla sig, en þá væri viturlegra að sigla upp Níl, það tekur lengri tíma og er meira frí. Það eru svo margar tegundir af ferðum í boði að engin hætta er á að allir geti ekki fundið eitthvað við sitt hæfi. Vonandi eiga sem flestir eftir að upplifa svipuð ævintýri eins og við gerðum í þessari ferð. Við eru alveg til í aðra slíka – hvað með þig ....?

No comments: