Thursday, April 30, 2009

Gleðilegt sumar !




Heil og sæl
Nú er vika liðin af sumri og það hefur verið óvenju hlýtt í veðri, þó rignt hafi á hverjum degi. Hinsvegar voru síðustu dagar vetrar sólríkir og fallegir og tók ég t.d. báðar meðfylgjandi myndir þann 20. apríl s.l. en þá mátti sjá fyrstu blómin hér og þar, krókusa og gula hóffífla og fleira.
Ég skellti mér suður um síðustu helgi til að klára námið mitt í bókasafnstækninni og skrapp í fertugsafmæli einnar skólasystur minnar í leiðinni, upp í Borgarfjörð.
Hér á Seyðisfirði er alltaf mikið um að vera, það er nýlega afstaðin heilmikil tískusýning á kjólum og núna þessa helgi er landsmót öldunga í blaki hér í bænum og fjöldi fólks flutti að heiman og leigði hús sín til keppenda þessa helgi. Ég reiknaði með að vera heima þessa helgi og spáði því ekki í að lána mitt hús, en nú hef ég ákveðið að nota þessa löngu helgi til að heimsækja mömmu og vini og ættingja fyrir norðan.
Eftir 2 vikur fer ég suður með kirkjukórnum en til stendur að syngja við messu í Grafarvogskirkju og skemmta brottfluttum Seyðfirðingum síðar sama dag. Viku síðar þarf ég svo að fara aftur suður við útskriftina mína. En ég ætla að nota mér þetta flakk og taka dótturson minn með mér austur og hafa hann í heimsókn hjá okkur gamla settinu þessa tæpu viku. Þá fáum við að njóta hans í nokkra daga og Jóhanna að sofa út og hvíla sig aðeins frá barnastússinu.
Rúnar notaði fríið sem hann var í undanfarið til að taka bátinn á land, botnhreinsa hann og mála og tók af honum einkennisstafina ÞH 226, því nú hefur hann fengið NS í staðinn. Báturinn er því klár og við líka tilbúin að skreppa á sjóinn í sumar þegar gestirnir fara að koma sem boðað hafa komu sína og langar að fara á dorg eða í útsýnisferð um fjörðinn.
Það er notaleg tilhugsun að vera næstum komin í frí og eiga heilt sumar framundan, jafnvel þó allra veðra sé von á okkar blessaða landi, þá vonar maður alltaf að sólin láti sjá sig sem mest og við getum notið náttúrunnar sem best til að safna orku í kroppinn fyrir langan og dimman vetur....:)

Saturday, April 18, 2009

Mannlífð í bænum !





Hér getur að líta jafnt "gamla" sem "nýja" bæjarbúa. Fyrstan skal telja hann Kela okkar allra, eða Þorkel Helgason kennara og listamann sem ég held að allir bæjarbúar þekki. Þessa mynd tók ég reyndar sérstaklega fyrir Möggu Veru sem þurfti á mynd af honum að halda af einhverju tilefni og enginn viðstaddur með myndavél nema ég :)
Allir þekkja líka Sigga Valda aðal-hjálparliðann hjá Viljanum á Seyðisfirði og sömuleiðis Guðjón Óskarsson, enda eru þarna tveir innfæddir Seyðfirðingar á ferðinni.
Svo eru það Rúnar og Jói Larsen sem þurftu að ræða málin eins og gengur og gerist og ég held að allir heimamenn þekki þá báða. Mér láðist hinsvegar að taka myndir af "bjartsýnu hjónunum" Birnu og Guðna sem standa fyrir verðandi gistiþjónustu í Norðursíld.
Síðast en ekki síst eru það svo nýbúarnir í bænum sem tóku vel á móti gestum í "gömlu" bókabúðinni í dag, með léttum veitingum og tónlist. Hér má sjá mæðgurnar að fylla á popppoka og glösin svo allir fengju smakk. Takk fyrir mig !

Ferðamenningardagur á Seyðisfirði í dag





Listafólk og ferðamenningar-aðilar í bænum efndu til opinna húsa um allann bæ í dag og kynntu sýningar og það sem er í boði fyrir ferðamenn á staðnum. Við fórum einn hring um bæinn og litum fyrst inn í bókabúðina (fyrrverandi) en þar var verið að opna sýningu á nokkrum "listaverkum" ásamt því að höfundur þeirra flutti tónlist fyrir viðstadda. Þar var boðið uppá létta drykki og poppkorn.
Síðan röltum við yfir götuna til handverksfólksins í Brattahlíð og sáum hvað þau eru gríðarlega myndarleg við alls konar handverk. Vonandi gengur þeim vel að selja...
Þaðan tókum við strikið út í Norðursíld til að kíkja á gömlu verbúðina sem er á góðri leið með að verða notalegt gistihús ásamt gömlu skrifstofubyggingunni, sem báðar hafa tekið stakkaskiptum innan dyra, þó ytra útlitið þarfnist sárlega viðhalds. Þar var boðið uppá kaffi og kleinur sem flestir þáðu.
Loks hoppuðum við inn í smiðjuna til Pétur Kr. sem stóð þar og hélt fyrirlestur um tilurð hennar fyrir hóp af karlmönnum sem voru staddir hér í dag vegna björgunarsveitar æfingar sem fór víst að mestu leyti fram uppi á Fjarðarheiði. Þar logaði glatt í smiðju-aflinum, svo að trúlega hefur átt að fara þar fram einhver sýning ???
Einn stað heimsóttum við þó ekki í dag, en það er Skaftfell og ástæðan er sú að við erum nýbúin að líta þangað inn og skoða sýningarnar sem þar eru. Á miðhæðinni eru ýmiss konar myndverk, m.a. af íslensku grjóti og myndir af álfahúfum og íslenskri náttúru. En á neðri hæðinni eru nokkrar fallegar ljósmyndir eftir kokkinn í Skaftfelli og eru þær sannarlega þess virði að berja þær augum.
Að síðustu var það svo mannlífið í bænum sem lífgaði uppá daginn, en myndir af því set ég kannski hér á eftir í von um að einhverjir fjarstaddir hafi gaman af !

Ætli vorið sé handan við hornið?




Undanfarnir dagar hafa verið óvenju hlýir, sólríkir og notalegir, svo maður fer að leyfa sér að vona að nú sé vorið loksins að koma.
Við "gamla settið" skruppum smá rúnt út með firðinum í blíðunni í dag til að kíkja á lífríkið. Nóg var af fuglum, enda eru farfuglarnir að hópast hingað hver í kapp við annan. Til gamans má geta þess að einn sjaldséður flækingur er staddur hér á meðal fiðurfuglanna, það er Bleshæna, sem er svört með ljósan gogg og lítur út eins og önd (sjá mynd). Hún hefur haldið sig við lónið og forðar sér þegar maður nálgast hana með myndavélina.
Nú við sáum líka fyrstu lömb vorsins úti á Dvergasteini og hestar, kindur og kýr voru þar á beit upp um allar brekkur. Auk þess voru aligæsirnar vappandi á sínum stað, en frænkur þeirra grágæsirnar eru komnar hingað á varpstöðvarnar og fleira mætti telja eins og hundana sem voru að viðra sig í dag og þessi köttur á myndinni gægðist svo skemmtilega út úr gömlu fjárhúsunum við Dvergastein, að ég stóðst ekki að "skjóta" á hann nokkrum myndum.

Sunday, April 05, 2009

Sólrík helgi




Hæ, þessi helgi 4.-5. apríl er búin að vera alveg einstaklega sólrík og falleg. Ég var friðlaus og tolldi ekki inni við lærdóm, en lét eftir mér að fara út að hjóla og labba um bæinn til að sjá hvað væri um að vera í bænum, því Sony-liðið er búið að hengja upp ýmsar stærðir og gerðir hátalara víða um bæinn, mest þó í miðbænum. Þegar þetta er ritað eru þeir trúlega búnir að ljúka myndatökum og fjarlægja dótið. Ég læt fylgja hér með 3 myndir sem ég tók í dag og vil benda ykkur á hátalarana ofan á dyraskyggninu á sundhöllinni, þeir passa svo flott við klæðninguna. Og þegar ég tók myndina af blokkinni, þá hitti ég Röggu Gunnsa sem býr einmitt í þessum enda, hún sagðist hafa verið að fá sér NÝJAR GRÆJUR og það engar SMÁ-GRÆJUR... hehe !!!
Minnismerkið við skólann kom skemmtilega út svona klætt og málað blátt. Svo skrúfuðu smiðirnir þessar fínu skálar á klæðninguna, svo þetta lítur út eins og hátalarasúla.
Friðsæl tónlist ómaði um bæinn lengi dags, líklega á meðan á myndatökum stóð.

Annars er það helst að frétta að yfir 20 manns rölti yfir heiðina í blíðunni í gær og þótti mér verst að vera ekki nógu gönguvön til að fara með þeim. Ég er orðin úthaldslaus eftir vetrarlangar innisetur og verð að koma mér í betra form fyrir sumarið, svo ég geti rölt yfir heiðina a.m.k. einu sinni í sumar.
En nú er sólríkur og góður dagur að kvöldi kominn....

Friday, April 03, 2009

Sony auglýsing tekin á Seyðisfirði




Undanfarna daga hefur mikið verið um að vera hér á Seyðisfirði, því að Sony fyrirtækið ákvað að taka hér auglýsingamyndir og auglýstu eftir fólki sem vildi taka þátt í upptökunum, auk þess sem fjöldi manns er við ýmiss konar hjálparstörf í kringum þetta fjölmenna lið tæknifólks sem hingað mætti með marga bíla og alls konar græjur. Það fyrsta sem ég tók eftir var að bæjarlistaverkið framan við skólann var á góðri leið með að hverfa inn í trékassa, hver sem ástæðan nú er. Síðan sá ég að búið var að reisa gríðarstórt mastur úti í hólmanum í lóninu og á því hanga hátalarar sem sendu út nokkuð háværa en rólega tónlist um tíma í dag. Líklega hafa þá staðið yfir einhverjar upptökur. Mér var sagt að klæða ætti stafninn á stóru blokkinni, því nota á hann við upptökurnar, við verðum bara að sjá síðar hvernig það kemur út.
Ég bjóst ekki við að þurfa neitt að taka þátt í þessu "auglýsingadæmi" en í dag kom einn stjórnandi Sony-liðsins til mín á bóksafnið og óskaði eftir að fá lánaðar frístandandi bókahillur (án bóka) til að flytja þær upp í skóla, þar sem fara á fram hluti af myndatökunum.
Ég eyddi því klukkustund í að pakka niður bókum úr 32 hillum í 20 stóra kassa og hjálpaði svo þeim sem komu til að sækja hillurnar, að bera þær út. Þetta var heilmikið puð og er auðvitað aðeins hálfnað verk, því allur frágangurinn er eftir. Ég reikna með að þeir hafi samband við mig á morgun eða sunnudag til að færa mér aftur hillurnar og auðvitað verð ég að klára að ganga frá öllu á sinn stað áður en ég opna safnið á mánudaginn.
Ekki veit ég hvort að bærinn fær sérstaklega borgað fyrir aðstöðu og annað sem Sony-starfsfólkinu er látið í té, þó veit ég að Ragga Gunnars fær laun fyrir að elda ofan í liðið og trúlega verður greidd húsaleiga fyrir aðstöðuna í Herðubreið. Ennfremur hljóta þeir sem voru ráðnir til að mæta í upptökur að fá greitt fyrir sitt ómak, en mér hefur sýnst hingað til að þeir geri ekkert annað en að bíða og bíða sem er nú ekki skemmtilegt fyrir neinn.
En mér þykir ólíklegt að ég fái greitt fyrir mína aðstoð, hvað sem öðru líður.
Ekki get ég giskað á hvað það kostar að gera þessar upptökur með öllu sem til þarf en mér finnst allavega mikið mál að setja heilt bæjarfélag meira og minna á hvolf til að geta tekið upp eina auglýsingu. Hún má vera góð eftir alla þessa fyrirhöfn sem fólkið hefur haft sem starfar við þetta á einn eða annan hátt.
Við skulum vona að allir verði sáttir þegar upp er staðið !