Friday, April 03, 2009

Sony auglýsing tekin á Seyðisfirði




Undanfarna daga hefur mikið verið um að vera hér á Seyðisfirði, því að Sony fyrirtækið ákvað að taka hér auglýsingamyndir og auglýstu eftir fólki sem vildi taka þátt í upptökunum, auk þess sem fjöldi manns er við ýmiss konar hjálparstörf í kringum þetta fjölmenna lið tæknifólks sem hingað mætti með marga bíla og alls konar græjur. Það fyrsta sem ég tók eftir var að bæjarlistaverkið framan við skólann var á góðri leið með að hverfa inn í trékassa, hver sem ástæðan nú er. Síðan sá ég að búið var að reisa gríðarstórt mastur úti í hólmanum í lóninu og á því hanga hátalarar sem sendu út nokkuð háværa en rólega tónlist um tíma í dag. Líklega hafa þá staðið yfir einhverjar upptökur. Mér var sagt að klæða ætti stafninn á stóru blokkinni, því nota á hann við upptökurnar, við verðum bara að sjá síðar hvernig það kemur út.
Ég bjóst ekki við að þurfa neitt að taka þátt í þessu "auglýsingadæmi" en í dag kom einn stjórnandi Sony-liðsins til mín á bóksafnið og óskaði eftir að fá lánaðar frístandandi bókahillur (án bóka) til að flytja þær upp í skóla, þar sem fara á fram hluti af myndatökunum.
Ég eyddi því klukkustund í að pakka niður bókum úr 32 hillum í 20 stóra kassa og hjálpaði svo þeim sem komu til að sækja hillurnar, að bera þær út. Þetta var heilmikið puð og er auðvitað aðeins hálfnað verk, því allur frágangurinn er eftir. Ég reikna með að þeir hafi samband við mig á morgun eða sunnudag til að færa mér aftur hillurnar og auðvitað verð ég að klára að ganga frá öllu á sinn stað áður en ég opna safnið á mánudaginn.
Ekki veit ég hvort að bærinn fær sérstaklega borgað fyrir aðstöðu og annað sem Sony-starfsfólkinu er látið í té, þó veit ég að Ragga Gunnars fær laun fyrir að elda ofan í liðið og trúlega verður greidd húsaleiga fyrir aðstöðuna í Herðubreið. Ennfremur hljóta þeir sem voru ráðnir til að mæta í upptökur að fá greitt fyrir sitt ómak, en mér hefur sýnst hingað til að þeir geri ekkert annað en að bíða og bíða sem er nú ekki skemmtilegt fyrir neinn.
En mér þykir ólíklegt að ég fái greitt fyrir mína aðstoð, hvað sem öðru líður.
Ekki get ég giskað á hvað það kostar að gera þessar upptökur með öllu sem til þarf en mér finnst allavega mikið mál að setja heilt bæjarfélag meira og minna á hvolf til að geta tekið upp eina auglýsingu. Hún má vera góð eftir alla þessa fyrirhöfn sem fólkið hefur haft sem starfar við þetta á einn eða annan hátt.
Við skulum vona að allir verði sáttir þegar upp er staðið !

No comments: