Saturday, April 18, 2009

Ætli vorið sé handan við hornið?




Undanfarnir dagar hafa verið óvenju hlýir, sólríkir og notalegir, svo maður fer að leyfa sér að vona að nú sé vorið loksins að koma.
Við "gamla settið" skruppum smá rúnt út með firðinum í blíðunni í dag til að kíkja á lífríkið. Nóg var af fuglum, enda eru farfuglarnir að hópast hingað hver í kapp við annan. Til gamans má geta þess að einn sjaldséður flækingur er staddur hér á meðal fiðurfuglanna, það er Bleshæna, sem er svört með ljósan gogg og lítur út eins og önd (sjá mynd). Hún hefur haldið sig við lónið og forðar sér þegar maður nálgast hana með myndavélina.
Nú við sáum líka fyrstu lömb vorsins úti á Dvergasteini og hestar, kindur og kýr voru þar á beit upp um allar brekkur. Auk þess voru aligæsirnar vappandi á sínum stað, en frænkur þeirra grágæsirnar eru komnar hingað á varpstöðvarnar og fleira mætti telja eins og hundana sem voru að viðra sig í dag og þessi köttur á myndinni gægðist svo skemmtilega út úr gömlu fjárhúsunum við Dvergastein, að ég stóðst ekki að "skjóta" á hann nokkrum myndum.

No comments: