Saturday, April 18, 2009
Ferðamenningardagur á Seyðisfirði í dag
Listafólk og ferðamenningar-aðilar í bænum efndu til opinna húsa um allann bæ í dag og kynntu sýningar og það sem er í boði fyrir ferðamenn á staðnum. Við fórum einn hring um bæinn og litum fyrst inn í bókabúðina (fyrrverandi) en þar var verið að opna sýningu á nokkrum "listaverkum" ásamt því að höfundur þeirra flutti tónlist fyrir viðstadda. Þar var boðið uppá létta drykki og poppkorn.
Síðan röltum við yfir götuna til handverksfólksins í Brattahlíð og sáum hvað þau eru gríðarlega myndarleg við alls konar handverk. Vonandi gengur þeim vel að selja...
Þaðan tókum við strikið út í Norðursíld til að kíkja á gömlu verbúðina sem er á góðri leið með að verða notalegt gistihús ásamt gömlu skrifstofubyggingunni, sem báðar hafa tekið stakkaskiptum innan dyra, þó ytra útlitið þarfnist sárlega viðhalds. Þar var boðið uppá kaffi og kleinur sem flestir þáðu.
Loks hoppuðum við inn í smiðjuna til Pétur Kr. sem stóð þar og hélt fyrirlestur um tilurð hennar fyrir hóp af karlmönnum sem voru staddir hér í dag vegna björgunarsveitar æfingar sem fór víst að mestu leyti fram uppi á Fjarðarheiði. Þar logaði glatt í smiðju-aflinum, svo að trúlega hefur átt að fara þar fram einhver sýning ???
Einn stað heimsóttum við þó ekki í dag, en það er Skaftfell og ástæðan er sú að við erum nýbúin að líta þangað inn og skoða sýningarnar sem þar eru. Á miðhæðinni eru ýmiss konar myndverk, m.a. af íslensku grjóti og myndir af álfahúfum og íslenskri náttúru. En á neðri hæðinni eru nokkrar fallegar ljósmyndir eftir kokkinn í Skaftfelli og eru þær sannarlega þess virði að berja þær augum.
Að síðustu var það svo mannlífið í bænum sem lífgaði uppá daginn, en myndir af því set ég kannski hér á eftir í von um að einhverjir fjarstaddir hafi gaman af !
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment