Wednesday, September 30, 2009
Haustferð til Berlínar
Oft finnst mér gott að geta látið myndirnar tala og hafa aðeins stutt ritað mál með. Þetta ætla ég að reyna hér og sjá hvernig til tekst.
Við Rúnar fórum með áhöfn Gullvers í árlega haustferð dagana 24.-29. sept. sl. og að þessu sinni varð Berlín fyrir valinu. Þangað höfðum við ekki komið áður.
Þessi borg er að mörgu leyti ólík öðrum borgum, þar sem hún var í 28 ár sundurklippt af MÚRNUM sem byggður var þar í kalda stríðinu. Ennþá stendur þó eftir smá partur (ca. 1-2 km) sem listamenn fá að nota til myndsköpunar og læt ég hér fljóta með 2 af listaverkunum sem þar má sjá,(Trabant að brjótast gegnum múrinn og leiðtogakosssinn).
Við fórum í skoðunarferð um borgina á fyrsta degi og sáum þá nánast alla þá staði sem ég hafði grafið upp að væru heimsóknar virði. Síðan notuðum við 2 jafnfljóta næstu daga, en höfðum þó strætó og lestir til aðstoðar við lengri vegalengdir.
Við kíktum á söfn, markaði, verslanir (þó lítið væri keypt) og sáum allar helstu byggingar borgarinnar, því þær eru margar og ólíkar, því auðvitað eru tvö eintök af hverri opinberri byggingu, þar sem ein var vestan megin og önnur austan við.
Við heimsóttum minnismerki um Gyðinga (sjá mig sitjandi þar) og sáum þar margar óhuggulegar minningamyndir í upplýsingamiðstöðinni sem þar er neðanjarðar.
Við heimsóttum margar keisarahallir og fallega garða í kringum þær. Fengum reyndar að heyra söguágrip úr stríðinu af vörum heimamanns sem við hittum og vildi endilega gerast leiðsögumaður okkar, þar til við sáum að við höfðum ekki tíma til að fylgja honum lengur, þá kvöddum við og fengum okkur rösklega göngu eftir rólegt rölt í eina 3 tíma, þar sem við m.a. sáum hóp af eldra fólki á Evuklæðum einum að sóla sig.
Við sáum líka reiðan svan ráðast á fólk sem hann trúlega hélt að ætlaði að fóðra hann, en þegar ekkert ætt var í boði, þá fengu þau að kenna á því (sjá mynd).
Við fórum upp í 200 metra háan sjónvarpsturn með útsýni yfir alla borgina og heimsóttum listafólk eða hústökufólk sem vinnur að listsköpun í ósköp hrörlegum húsarústum...
Hótelið sem við vorum á var mjög fínt og glæsileg sundlaug, sauna og æfingaherbergi í kjallara með fríum aðgangi fyrir gestina.
Matur var oftast góður og vel útilátinn. Toppurinn var laugardagskvöldverðurinn sem við snæddum ásamt öllum samferðahópnum, en þá valdi ég að borða rjómalagaða sveppasúpu sem var einstaklega góð, grillaða hálfa önd sem var svo stór að ég fékk bæði Rúnar og Magga til "að draga mig að landi" :o)
Loks var svo eftirréttur sem smakkaðist ágætlega og ég þar með var ég orðin of södd til að ganga heim á hótelið í háttinn, enda drjúgur spotti þar á milli.
Á brottfarardegi fór að rigna og var ég svo sannarlega þakklát fyrir að hafa fengið svona gott veður þessa daga, sérstaklega á sunnudaginn, en þá hlýtur hitinn að hafa verið í kringum 25°C sem var ærið nóg fyrir okkur Frónabúana á röltinu.
Ég kom reyndar þreyttari heim en ég fór, en það er ekkert óalgengt eftir svona borgarferðir sem kosta labb klukkustundum saman, líklega 5-10 km ganga daglega en maður telur það ekki eftir sér þegar færi gefst...
Saturday, September 19, 2009
Villi á Brekku 95 ára og Anna Marta kvödd...
Á morgun, sunnudaginn 20. september 2009 verður Vilhjálmur Hjálmarsson fv. ráðherra 95 ára gamall. Ég kalla hann nú alltaf Villa á Brekku og var rétt í þessu að spjalla við hann í síma og óska honum til hamingju með morgundaginn. En tilefni tíðra samtala okkar á milli er m.a. grein sem hann ritaði sem nota á í listaverkabók sem væntanlega kemur út innan skamms. En ég hef verið að tölvusetja greinina og gera á henni breytingar og lagfæringar fyrir hann og listamanninn Garðar Eymundsson sem einnig hefur notið aðstoðar Rúnars við þetta listræna verkefni sem fjallar um og sýnir teikningar af fjallahring Seyðisfjarðar með öllum örnefnum fjallanna.
Villi er alveg einstakur maður og lætur aldur og líkamlegar hindranir ekki aftra sér og fer allra sinna ferða á eigin bíl, auk þess sem hann er ennþá að skrifa bækur og á nú eina í prentun sem kemur væntanlega fyrr en síðar á bókamarkaðinn. Ég óska honum allra heilla og vona að hann haldi andlegri og líkamlegri heilsu sem lengst.
Svo einkennilega vill til að á morgun verður borin til grafar í Mjóafirði hin eina sanna Anna á Hesteyri, eða Anna Marta Guðmundsdóttir sem var engum öðrum lík. Ég naut þeirra forréttinda að kynnast henni örlítið, að vísu aðeins í gegnum síma, en við spjölluðum heilmikið um allt milli himins og jarðar og hafði ég mjög gaman af þeim samtölum. Bók hennar, sem Rannveig Þórhallsdóttir ritaði á s.l. ári gerði hana að sannkallaðri þjóðareign, ef hægt er að segja slíkt um manneskjur. Blessuð sé minning hennar.
Mjófirðingar eru því saman komnir í litla græna firðinum hér við hliðina í tilefni af þessum tveimur atburðum. Vonandi skín sólin í tilefni dagsins :o)
Friday, September 18, 2009
Til HAMINGJU - Ljótu H.......
Í tilefni af verðskulduðum sigri Ljótu Hálfvitanna frá Húsavík, í Popppunkti í kvöld, þá verð ég að óska þeim enn og aftur TIL HAMINGJU MEÐ GLÆSILEGAN SIGUR STRÁKAR - þið voruð frábærir og heimabæ ykkar og Þingeyingum til sóma :o)
Ég samgleðst yfir sigrinum eins og sönnum Þingeyingi ber og vona að þið haldið áfram að gera jafn mikla lukku hér eftir sem hingað til.
Það er sniðugt að hugsa til þess að tveir meðlimir hljómsveitarinnar skuli vera fyrrum bekkjarbræður Jóhönnu Bjargar og tveir synir bekkjasystra minna, en nóg um það :o)
Ég ætla að reyna að koma hér inn mynd af strákunum en það gengur eitthvað illa í bili, því forritið harðneitar að hlaða inn myndinni sem ég valdi af þeim, veit ekki hvað veldur en vona að ég hafi vinninginn á endanum eins og þeir ljótu....!
Monday, September 14, 2009
Fjórir nýir nágrannar...
Þann 11. september s.l. bættist 4 nýir nágrannar við í gula kofanum hjá Önnu og Guðna. Þetta voru 4 hænuungar sem litu dagsins ljós og sá fyrsti þeirra sem var dekkstur fékk nafnið Osama bin Laden í tilefni dagsins !!!
Þeir eru ósköp litlir og sætir eins og öll ungviði, en það er svolítið skrítið að þeir skyldu vera að fæðast núna þegar haustið er komið og vetur á næsta leiti, en ekki í vor eins og venja er til með flesta norræna fuglsunga...
Vonandi lifa þeir bara af í kuldanum og myrkrinu í vetur...
Sólrík helgi fyrir norðan
Fyrstu helgina í september fórum við Rúnar norður á Húsavík til að taka upp kartöflurnar sem við settum þar niður í vor. Einnig þurftum við að klára viðgerðir á útihús-þökum á Bjarmalandi, sem við gátum ekki klárað fyrr í sumar, vegna skorts á þaksaum....og að sjálfsögðu fórum við líka til að heimsækja mömmu sem þarf á tilbreytingu að halda eins og allir. Henni finnst gott að komast aðeins heim í Hlíð og fá sér þar kaffisopa og skreppa svo á rúntinn í góða veðrinu, en blíða var alla dagana eins og sjá má á myndunum.
Við vorum svo heppin að Didda systir og Rúnar hennar gátu líka komið norður og verið með okkur í þessum störfum. Við skiptum því liði, þeir nafnar tóku að sér að klára viðgerðirnar á Bjarmalandi á meðan við systur tókum upp kartöflurnar og sinntum mömmu. Ekki tókst okkur samt alveg að klára upptökuna á einum degi, svo að við fengum smá hjálp á laugardeginum, en síðan fóru Didda og Rúnar í berjamó á meðan við Rúnar minn fórum á rúntinn með mömmu, upp að Botnsvatni og víðar.
Uppskeran var mjög góð, þó ekki væru kartöflurnar jafn stórar og í fyrrahaust, enda voru þær eiginlega of stórar í það skiptið. Hluti af uppskerunni voru íslenskar rauðar (ég fékk afgangs-útsæði hjá Jónda frænda) og mig langar að halda uppá þær og rækta meira af þeim næstu árin, jafnvel þó ég borði minnst af þeim sjálf, þá finnst mér það bara skemmtilegt.
Nóg var af berjum og líka frosnum jarðarberjum sem geymd voru í kistunni og ég ákvað að sjóða sultu úr þeim. Það gekk bara ágætlega, við fengum 8 stórar krúsir og gáfum Hillu og Gulla sitt hvora, því nóg var samt eftir handa okkur.
Þær systur Villa og Sigrún voru staddar með sínum mönnum á Tenerife og var það svolítið tómlegt að sjá ekki Sigrúnu eins og maður gerir yfirleitt í öllum okkar norðurferðum.
Didda systir er alltaf jafn dugleg að prjóna og mætti með 2 nýjar peysur sem hún var búin að gera á sjálfa sig. Ég kemst seint með tærnar þar sem hún hefur hælana á því sviði.
Á sunnudaginn þegar við héldum heim á leið, þá fórum við í Ystahvamm til Fönnu frænku og Baldurs til að skila gömlu filmunum sem hún lánaði mér í sumar. Þau tóku dæmalaust vel á móti okkur og við urðum því ansi seint á ferð hér heima, komum rétt fyrir miðnætti, en það var allt í lagi, allt gekk vel og veðrið var fínt...
Veitingahúsið Kaíró
Viku fyrir Ljósanótt í Reykjanesbæ, sem var helgina 4.-6. sept. s.l. opnuðu Jóhanna Björg og Mo nýtt veitingahús Kaíró, við Aðalgötuna í Keflavík. Þar er hægt að fá 2-3 gerðir af Kebab, crepes, súpur og fleiri Egypska rétti.
Þetta fór vel af stað, mjög mikið hefur verið að gera, ekki síst í nætursölunni um helgar, en Mo hefur vakað aðfaranætur laugardags og sunnudags og eldað ofan í þá sem hafa verið við næturskemmtanir og verið svangir :o)
Ég óska þeim innilega til hamingju með dugnaðinn og vona að þeim gangi vel með reksturinn.
Ég er ekki búin að heimsækja þau eftir að staðurinn opnaði, en fer væntanlega í heimsókn að viku liðinni, en Rúnar er nýkominn frá þeim og hann tók meðfylgjandi myndir sem sýna hluta staðarins.
Subscribe to:
Posts (Atom)