Wednesday, September 30, 2009

Haustferð til Berlínar








Oft finnst mér gott að geta látið myndirnar tala og hafa aðeins stutt ritað mál með. Þetta ætla ég að reyna hér og sjá hvernig til tekst.
Við Rúnar fórum með áhöfn Gullvers í árlega haustferð dagana 24.-29. sept. sl. og að þessu sinni varð Berlín fyrir valinu. Þangað höfðum við ekki komið áður.
Þessi borg er að mörgu leyti ólík öðrum borgum, þar sem hún var í 28 ár sundurklippt af MÚRNUM sem byggður var þar í kalda stríðinu. Ennþá stendur þó eftir smá partur (ca. 1-2 km) sem listamenn fá að nota til myndsköpunar og læt ég hér fljóta með 2 af listaverkunum sem þar má sjá,(Trabant að brjótast gegnum múrinn og leiðtogakosssinn).
Við fórum í skoðunarferð um borgina á fyrsta degi og sáum þá nánast alla þá staði sem ég hafði grafið upp að væru heimsóknar virði. Síðan notuðum við 2 jafnfljóta næstu daga, en höfðum þó strætó og lestir til aðstoðar við lengri vegalengdir.
Við kíktum á söfn, markaði, verslanir (þó lítið væri keypt) og sáum allar helstu byggingar borgarinnar, því þær eru margar og ólíkar, því auðvitað eru tvö eintök af hverri opinberri byggingu, þar sem ein var vestan megin og önnur austan við.
Við heimsóttum minnismerki um Gyðinga (sjá mig sitjandi þar) og sáum þar margar óhuggulegar minningamyndir í upplýsingamiðstöðinni sem þar er neðanjarðar.
Við heimsóttum margar keisarahallir og fallega garða í kringum þær. Fengum reyndar að heyra söguágrip úr stríðinu af vörum heimamanns sem við hittum og vildi endilega gerast leiðsögumaður okkar, þar til við sáum að við höfðum ekki tíma til að fylgja honum lengur, þá kvöddum við og fengum okkur rösklega göngu eftir rólegt rölt í eina 3 tíma, þar sem við m.a. sáum hóp af eldra fólki á Evuklæðum einum að sóla sig.
Við sáum líka reiðan svan ráðast á fólk sem hann trúlega hélt að ætlaði að fóðra hann, en þegar ekkert ætt var í boði, þá fengu þau að kenna á því (sjá mynd).
Við fórum upp í 200 metra háan sjónvarpsturn með útsýni yfir alla borgina og heimsóttum listafólk eða hústökufólk sem vinnur að listsköpun í ósköp hrörlegum húsarústum...
Hótelið sem við vorum á var mjög fínt og glæsileg sundlaug, sauna og æfingaherbergi í kjallara með fríum aðgangi fyrir gestina.
Matur var oftast góður og vel útilátinn. Toppurinn var laugardagskvöldverðurinn sem við snæddum ásamt öllum samferðahópnum, en þá valdi ég að borða rjómalagaða sveppasúpu sem var einstaklega góð, grillaða hálfa önd sem var svo stór að ég fékk bæði Rúnar og Magga til "að draga mig að landi" :o)
Loks var svo eftirréttur sem smakkaðist ágætlega og ég þar með var ég orðin of södd til að ganga heim á hótelið í háttinn, enda drjúgur spotti þar á milli.
Á brottfarardegi fór að rigna og var ég svo sannarlega þakklát fyrir að hafa fengið svona gott veður þessa daga, sérstaklega á sunnudaginn, en þá hlýtur hitinn að hafa verið í kringum 25°C sem var ærið nóg fyrir okkur Frónabúana á röltinu.
Ég kom reyndar þreyttari heim en ég fór, en það er ekkert óalgengt eftir svona borgarferðir sem kosta labb klukkustundum saman, líklega 5-10 km ganga daglega en maður telur það ekki eftir sér þegar færi gefst...

1 comment:

Ásdís Sig. said...

Sæl og blessuð og velkomin heim. Skemmtilegar myndir og saga af ferðinni ykkar. Hér kólnar nú hratt en mér finnst haustið ljúft, minningar um sláturtíð og skólabyrjun á árunum 1960-1970 koma í huga minn og gleðja mig. Bestu kveðjur austur og hafið það sem allra best. Þín vinkona Ásdís