Saturday, September 19, 2009

Villi á Brekku 95 ára og Anna Marta kvödd...



Á morgun, sunnudaginn 20. september 2009 verður Vilhjálmur Hjálmarsson fv. ráðherra 95 ára gamall. Ég kalla hann nú alltaf Villa á Brekku og var rétt í þessu að spjalla við hann í síma og óska honum til hamingju með morgundaginn. En tilefni tíðra samtala okkar á milli er m.a. grein sem hann ritaði sem nota á í listaverkabók sem væntanlega kemur út innan skamms. En ég hef verið að tölvusetja greinina og gera á henni breytingar og lagfæringar fyrir hann og listamanninn Garðar Eymundsson sem einnig hefur notið aðstoðar Rúnars við þetta listræna verkefni sem fjallar um og sýnir teikningar af fjallahring Seyðisfjarðar með öllum örnefnum fjallanna.
Villi er alveg einstakur maður og lætur aldur og líkamlegar hindranir ekki aftra sér og fer allra sinna ferða á eigin bíl, auk þess sem hann er ennþá að skrifa bækur og á nú eina í prentun sem kemur væntanlega fyrr en síðar á bókamarkaðinn. Ég óska honum allra heilla og vona að hann haldi andlegri og líkamlegri heilsu sem lengst.

Svo einkennilega vill til að á morgun verður borin til grafar í Mjóafirði hin eina sanna Anna á Hesteyri, eða Anna Marta Guðmundsdóttir sem var engum öðrum lík. Ég naut þeirra forréttinda að kynnast henni örlítið, að vísu aðeins í gegnum síma, en við spjölluðum heilmikið um allt milli himins og jarðar og hafði ég mjög gaman af þeim samtölum. Bók hennar, sem Rannveig Þórhallsdóttir ritaði á s.l. ári gerði hana að sannkallaðri þjóðareign, ef hægt er að segja slíkt um manneskjur. Blessuð sé minning hennar.
Mjófirðingar eru því saman komnir í litla græna firðinum hér við hliðina í tilefni af þessum tveimur atburðum. Vonandi skín sólin í tilefni dagsins :o)

No comments: