Monday, September 14, 2009
Sólrík helgi fyrir norðan
Fyrstu helgina í september fórum við Rúnar norður á Húsavík til að taka upp kartöflurnar sem við settum þar niður í vor. Einnig þurftum við að klára viðgerðir á útihús-þökum á Bjarmalandi, sem við gátum ekki klárað fyrr í sumar, vegna skorts á þaksaum....og að sjálfsögðu fórum við líka til að heimsækja mömmu sem þarf á tilbreytingu að halda eins og allir. Henni finnst gott að komast aðeins heim í Hlíð og fá sér þar kaffisopa og skreppa svo á rúntinn í góða veðrinu, en blíða var alla dagana eins og sjá má á myndunum.
Við vorum svo heppin að Didda systir og Rúnar hennar gátu líka komið norður og verið með okkur í þessum störfum. Við skiptum því liði, þeir nafnar tóku að sér að klára viðgerðirnar á Bjarmalandi á meðan við systur tókum upp kartöflurnar og sinntum mömmu. Ekki tókst okkur samt alveg að klára upptökuna á einum degi, svo að við fengum smá hjálp á laugardeginum, en síðan fóru Didda og Rúnar í berjamó á meðan við Rúnar minn fórum á rúntinn með mömmu, upp að Botnsvatni og víðar.
Uppskeran var mjög góð, þó ekki væru kartöflurnar jafn stórar og í fyrrahaust, enda voru þær eiginlega of stórar í það skiptið. Hluti af uppskerunni voru íslenskar rauðar (ég fékk afgangs-útsæði hjá Jónda frænda) og mig langar að halda uppá þær og rækta meira af þeim næstu árin, jafnvel þó ég borði minnst af þeim sjálf, þá finnst mér það bara skemmtilegt.
Nóg var af berjum og líka frosnum jarðarberjum sem geymd voru í kistunni og ég ákvað að sjóða sultu úr þeim. Það gekk bara ágætlega, við fengum 8 stórar krúsir og gáfum Hillu og Gulla sitt hvora, því nóg var samt eftir handa okkur.
Þær systur Villa og Sigrún voru staddar með sínum mönnum á Tenerife og var það svolítið tómlegt að sjá ekki Sigrúnu eins og maður gerir yfirleitt í öllum okkar norðurferðum.
Didda systir er alltaf jafn dugleg að prjóna og mætti með 2 nýjar peysur sem hún var búin að gera á sjálfa sig. Ég kemst seint með tærnar þar sem hún hefur hælana á því sviði.
Á sunnudaginn þegar við héldum heim á leið, þá fórum við í Ystahvamm til Fönnu frænku og Baldurs til að skila gömlu filmunum sem hún lánaði mér í sumar. Þau tóku dæmalaust vel á móti okkur og við urðum því ansi seint á ferð hér heima, komum rétt fyrir miðnætti, en það var allt í lagi, allt gekk vel og veðrið var fínt...
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment