Monday, March 01, 2010
Löng helgi á suðvesturhorninu :)
Þó maður eigi langa helgi, þ.e.a.s. 3 daga frí, þá er tíminn ótrúlega fljótur að líða og aldrei hægt að gera allt sem mann langar, þó maður reyni :)
Síðastliðið fimmtudagskvöld flugum við Rúnar suður til að hitta og heimsækja afkomendur okkar og systur, því nú erum við hætt mánaðarlegum suðurferðum, eftir að ég lauk skólanum. Þess vegna finnst okkur við sjá þau alltof sjaldan og reynum að bæta úr því þegar færi gefst.
Föstudagurinn fór að mestu leyti í búðarráp og Rúnar fór í tannaðgerð sem gekk vel. Harpa bauð okkur svo í kjötsúpu um kvöldið og við sátum síðan í mestu makindum hjá henni við sjónvarpið til miðnættis, á meðan synir okkar voru með vina-partý á neðri hæðinni. Rúnar hitti þá í fyrsta sinn, ágæta vinkonu Bergþórs, Hildi Ingu sem var með strákunum þetta kvöld.
Eftir heimsókn til Ellu og Árna á laugard. fórum við til Jóhönnu og co í Keflavík og áttum þar góðar samverustundir framyfir hádegi á sunnudag. Þá drifum við okkur aftur til Rvk og fórum til Diddu systur og co. Loks fórum við út að borða og buðum Bergþóri og Hildi með okkur og hittum svo Sigga og Hilmi í bíó en við buðum þeim öllum með okkur á myndina "Loftkastalinn sem hrundi" og ekki hægt að segja annað en að hún hafi staðið undir væntingum eins og hinar tvær fyrri Millennium myndirnar.
Í morgun kl 7:30 flugum við svo af stað austur og lentum þar í sól og blíðu veðri, en við fengum reyndar líka sól fyrir sunnan í gær, en hina dagana var hríðarveður og hálf ófært um götur stórborgarsvæðisins. Meira að segja fór rafmagnið um tíma og þá urðu öll götuljós óvirk, svo menn urðu bara að sýna kurteisi og aka eins og herramenn og ekki sá ég annað en það gengi bara vel, enda komumst við leiðar okkar án áfalla af þess völdum :)
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Aldeilis ljómandi helgarferð hjá ykkur hjónum og dugleg hafið þið verið. Ég á enn eftir að sjá þríleikinn, það fer að koma að því fyrst allar eru komnar út. Falleg peysan sem þú ert í :) kær kveðja Ásdís
Post a Comment