Sunday, June 19, 2011

Vetrarsokkar á barnabörnin !



Þó ég hafi prjónað nokkrar hosur (inniskó) á Adam og Jóhönnu Björgu á síðustu árum, þá hef ég ekki prjónað sokka í mörg ár. Fyrst og fremst vegna þess að þær mamma og tengdamamma sáu um það fyrir mig. En nú kemur barnabörnin mín til með að vanta sokka fyrir næsta vetur og ég taldi vissara að fara að rifja upp hvernig ég hefði prjónað hælana, því ég var alveg búin að gleyma því. Með því að skoða sokka sem mamma prjónaði og styðjast við uppskriftir fyrir börn til að hafa einhvern lykkjufjölda til að miða við, þá tókst mér að klára tvenna sokka á 4 kvöldum og var bara ánægð með það. Hefði samt viljað prjóna aðra úr lopa, því það er víst ansi kalt í Noregi á veturna, mikið kaldara en hér heima á klakanum og því vissara að hafa börnin hlýlega klædd og nóg til skiptanna. Ég ætla því að útvega mér lopa og taka aðra prjónaskorpu fyrr en síðar :)

17. júní 2011




Eins og oft áður var veðrið ekki gott á þjóðhátíðardaginn, þó vissulega hefði það getað verið verra. Hann hékk þó þurr lengst af, en þykkur þoku og skýjabakki lá yfir og ísköld hafgola bætti um betur. En ótrúlega margir drifu sig samt út til að sjá og heyra það sem um var að vera í bænum. Ég sleppti fallbyssuskotinu að þessu sinni, þar sem ég var upptekin í símanum á sama tíma. En fór svo niður að kirkju og fylgdist með dagskránni þar, m.a. sungu nokkrir krakkar undir stjórn Gullu í Firði og Kristin prestsfrú flutti ágætis ávarp og Guðlaug dóttir hennar var fjallkonan. Lömb, kanínur og hænsni voru til sýnis eins og undanfarin ár. Að þessu loknu fór ég í Skaftfell, þar sem opnuð var myndasýning af viðtölum við Seyðfirðinga á öllum aldri, en verið er að safna slíkum viðtölum til að fá frásagnir og minningar frá ýmsum timum á Seyðisfirði...

Thursday, June 16, 2011

Fugla-og-dýralíf í Noregi !





Það er tímafrekt að taka myndir af fuglum og til þess að árangur verði góður, þarf góðar vélar með aðdráttarlinsum. Þar sem ég hafði hvorki tíma né linsuvél á þessari ferð okkar, til að taka fuglamyndir, þá læt ég nægja mynd af Skjó sem var með hreiður í tré rétt við hús Jóhönnu og co. Hann er fallegur fugl, en frekur eins og hrafnar. Krákur voru líka mjög áberandi þarna og óhljóðin í þessum tveim fuglategundum vöktu mig oft þessar nætur í Hamnar.
Svölungar og bæjarsvölur voru líka mikið sveimandi þar sem við fórum og ég náði mynd af þeim, en aðrir fuglar voru í feluleik, eins og finkurnar og gráþrestirnir, en maríuerlur voru reyndar nokkuð algengar, en ég komst aldrei í myndafæri við þær.
Loks eru hér 2 myndir til gamans, önnur af tréuglu í listamannahverfi Oslóborgar, en hin af Elg í Lillehammer, en greinilegt er að þó sumir stingi hausnum í sandinn, þá stinga aðrir þeim í vegginn eins og hér má sjá.
Að lokum vil ég geta þess að ég setti slatta af ferðamyndum inn á Facebook síðuna mína, þar sem allir sem vilja eiga að geta skoðað þær, því þær eru ekki læstar.

Vikudvöl í Hamar !






Við dvöldum eina viku hjá Jóhönnu, Mo og börnunum í góðu yfirlæti og vorum bara dugleg að skoða okkur um og njóta þess sem var í boði. Fórum í langan göngutúr meðfram smábátahöfninni sem er stór, enda bærinn fjölmennur og sáum líflegt mannlíf, m.a. var kvennahlaup í gangi þarna. Ég skrapp með Jóhönnu á bókasafn bæjarins á meðan Rúnar fór í sund með Adam. Þetta bókasafn er mjög vel búið og allt frítt, líka tónlist, myndbönd/DVD, hljóðbækur sem annað efni.
Við heimsóttum Mo á veitingahúsið sem hann vinnur á og fengum okkur að borða þar steiktan fjallasilung og ís á eftir. Einn daginn skruppum við til Lillehammer að skoða olympíu-skíðasvæðið sem er í notkun jafnt sumar sem vetur, þó enginn eldur hafi brunnið í kyndlinum sem blasir við neðan við stökkpallana. Við fórum í marga labbitúra meðfram vatninu og í bæinn og heimsóttum geysistórt lestarsafn sem er þarna í bænum. Það rigndi part úr degi flesta dagana en okkur fannst það lítið mál, því hitinn var í kringum 20 gráður. Þessar rigningar komu af stað miklum flóðum í Noregi og göngustígar sem við fórum eftir í skógargöngu við vatnið voru meira og minna á floti eða í kafi. Adam var berlæraður og fékk brunablöðrur af því að vaða í gegnum gróðurinn þar sem brenninetlur voru utan stíga þar sem flóðið var.
Það var líka gaman að rölta um nágrenni hússins sem þau búa í, þar er mikið af fallegum görðum og heilmikið fuglalíf, sem er frábrugðið því sem við þekkjum hér heima. Ég enda þetta Noregsspjall kannski á að sýna nokkra af þeim fuglum sem við sáum en flestir þeirra koma aldrei til Íslands, vegna fjarlægðarinnar...
Síðasta deginum okkar eyddum við saman á Miðaldahátíð sem haldin var við rústir gömlu dómkirkjunnar sem verið er að grafa upp, en þar er búið að setja upp safn gamalla muna í hlöðum og öðrum gömlum byggingum. Allir virtust skemmta sér vel og Adam var alsæll með daginn enda var hann sleginn til riddara og við gáfum honum hjálm til að hann væri nú í alvöru riddaralegur!

Noregsheimsókn 2011






Í byrjun júní brugðum við undir okkur betri fætinum og skruppum í 10 daga ferð til Noregs, bæði til að heimsækja Þröst mág og fjölskyldu og Jóhönnu okkar og fjölskyldu.
Við byrjuðum á því að dvelja hjá Þresti og Birnu yfir helgi og fengum yndislega daga, sól og blíðu og notuðum þá vel. Fórum fyrst í hjólreiðatúr niður allar brekkurnar í Oslo og enduðum niður við höfn, þar sem við fengum okkur smá næringu áður en við skruppum í siglingu út í nærstadda eyju þar sem borgarbúar vorum í hópum að sóla sig.
Um kvöldið grillaði Þröstur og við nutum frábærra veitinga hjá þeim Birnu utan dyra við kvöldroðann sem lá yfir borginni. Daginn eftir skruppum við niður á Bygdö til að skoða stafkirkjuna og gamla safnið sem hafði farið framhjá okkur um árið þegar við vorum á Bygdö að skoða öll söfnin þar(Kon Tiki, Víkingasafnið o.fl). Síðan héldum við ásamt Birnu, Þresti og Eiríki Hrafni áleiðis til Hamar að hitta Jóhönnu og börnin í Amadeus dýragarðinum sem gaman var að heimsækja. Þar áttum við saman notalegan dag og kvöddum svo Þröst og co og héldum til Hamar með dóttur okkar og barnabörnum....