Thursday, June 16, 2011

Vikudvöl í Hamar !






Við dvöldum eina viku hjá Jóhönnu, Mo og börnunum í góðu yfirlæti og vorum bara dugleg að skoða okkur um og njóta þess sem var í boði. Fórum í langan göngutúr meðfram smábátahöfninni sem er stór, enda bærinn fjölmennur og sáum líflegt mannlíf, m.a. var kvennahlaup í gangi þarna. Ég skrapp með Jóhönnu á bókasafn bæjarins á meðan Rúnar fór í sund með Adam. Þetta bókasafn er mjög vel búið og allt frítt, líka tónlist, myndbönd/DVD, hljóðbækur sem annað efni.
Við heimsóttum Mo á veitingahúsið sem hann vinnur á og fengum okkur að borða þar steiktan fjallasilung og ís á eftir. Einn daginn skruppum við til Lillehammer að skoða olympíu-skíðasvæðið sem er í notkun jafnt sumar sem vetur, þó enginn eldur hafi brunnið í kyndlinum sem blasir við neðan við stökkpallana. Við fórum í marga labbitúra meðfram vatninu og í bæinn og heimsóttum geysistórt lestarsafn sem er þarna í bænum. Það rigndi part úr degi flesta dagana en okkur fannst það lítið mál, því hitinn var í kringum 20 gráður. Þessar rigningar komu af stað miklum flóðum í Noregi og göngustígar sem við fórum eftir í skógargöngu við vatnið voru meira og minna á floti eða í kafi. Adam var berlæraður og fékk brunablöðrur af því að vaða í gegnum gróðurinn þar sem brenninetlur voru utan stíga þar sem flóðið var.
Það var líka gaman að rölta um nágrenni hússins sem þau búa í, þar er mikið af fallegum görðum og heilmikið fuglalíf, sem er frábrugðið því sem við þekkjum hér heima. Ég enda þetta Noregsspjall kannski á að sýna nokkra af þeim fuglum sem við sáum en flestir þeirra koma aldrei til Íslands, vegna fjarlægðarinnar...
Síðasta deginum okkar eyddum við saman á Miðaldahátíð sem haldin var við rústir gömlu dómkirkjunnar sem verið er að grafa upp, en þar er búið að setja upp safn gamalla muna í hlöðum og öðrum gömlum byggingum. Allir virtust skemmta sér vel og Adam var alsæll með daginn enda var hann sleginn til riddara og við gáfum honum hjálm til að hann væri nú í alvöru riddaralegur!

No comments: