Monday, December 12, 2016

Jólaundirbúningur og jólahlaðborð !

Eftir að við komum heim hefur verið nóg að gera, m.a. fóru bæði bæjarstarfsfólk og kórinn saman á jólahlaðborð og svo tók við laufabrauðsgerð og bakstur, auk þvotta og þrifa og alls konar tiltektar sem maður framkvæmir yfirleitt aðeins árlega. Allir gluggir hreinir og jólaljós í flestum gluggum og svo að skrifa á jólakort og ganga frá pökkum o.s.frv... Ekki má heldur gleyma Aðventumessunni sem tókst bara vel og svo afmæli Veigars sem haldið var uppá áður en hann fór suður í jólafrí :)





Smá frí með 2 barnabörnum !

Þegar færi gefst, þá reynum við að eyða tíma með barnabörnum okkar. sem við sjáum alltof sjaldan í eigin persónu, þó Skype bjargi miklu þess á milli.
Á leiðinni til og frá Tenerife gafst smá tími með 2 yngstu barnabörnunum, þeim Nínu Björgu og Þorsteini Darra...+




Wednesday, December 07, 2016

Vikudvöl á Tenerife !

Eins og svo oft áður var ákveðið seint og síðar meir að hluti áhafnar Gullvers færi saman í vikuferð til Tenerife. Við flugum út 16. nóvember og heim 23. nóv. á sextugsafmæli bróður míns !
Ferðin gekk í alla staði mjög vel og Rúnar alsæll með góðu sætin í Icelandair flugvélunum.
Við fórum á bílaleigubíl um öll helstu sveitahéruðin og heimsóttum höfuðborgina Santa Crus.
Öðrum degi eyddum við á litlu eyjunni La Gomera, sem er alveg einstök í sinni röð og vel þess virði að heimsækja hana :)
Ég læt hér nokkrar svipmyndir úr ferðinni til minningar um góða ferð...










Thursday, November 10, 2016

Fleiri flækingar !

Það bætist alltaf við í garðfuglahópinn hjá okkur, næstum daglega.
Nú eru komnar 3 silkitoppur og 2 starar sem leggja alveg undir sig eplin,
en svartþrestirnir 4 og hettusöngvararnir hafa nú samt fengið bita af og til.
Skógarþrestirnir eru hinsvegar flestir lagðir af stað af landi brott....!
Kúhegrinn á Hánefsstöðum er sestur að í fjósinu hjá kúnum ;)




Tuesday, November 08, 2016

Monday, October 24, 2016

Slóðir á flug Sigga Birkis !

https://www.facebook.com/1295834865/videos/vb.1295834865/4423318263185/?type=2&theater

https://www.facebook.com/onthisday/?source=notification&notif_t=onthisday&notif_id=1475154550746675

https://www.facebook.com/1295834865/videos/vb.1295834865/4423131178508/?type=2&theater

Sunday, October 23, 2016

Nóg af flækingum núna !

Þessar djúpu og hlýju haustlægðir sem streymt hafa til okkar í allt haust hafa fært okkur heil ósköp af sjaldséðum flækingum sem gleðja mann nú þegar vetur gengur í garð.
Hér koma nokkrir þeir nýjustu, þ.e. kúhegri sem heldur til við Hánefsstaði, 2 hettusöngvara frúr, netlusöngvari, 2 gráhegrar og svartþröstur sem ég hef náð að mynda, en einnig hafa séðst hér gransöngvari og hópur af silkitoppum svo það helsta sé með talið :)





Saturday, October 22, 2016

Stutt veiðiferð norður !

Haustblíðan varð til þess að við ákváðum að drífa okkur snögga ferð norður, m.a. til að veiða nokkra silunga á Bjarmalandi og erindast smávegis á Húsavík. Fórum beint niður í Bjarmaland og kíktum í leiðinni á Dettifoss og aðstoðuðum asískt par með sprungið dekk.
Skruppum út í Ærlæk til Guðnýjar með silung í matinn, komum við í kirkjugarðinum á Skinnastað og trítluðum út á eyjuna í Ásbyrgi. Fór með möppur og gögn á Safnahúsið og fékk lánaðar gamlar slidesmyndir hjá Gurrý. Fórum svo Þeystareykjaleiðina upp í Mývatnssveit og komum við í sæluhúsinu hans Fjalla-Bensa við Grímsstaðabrúna. Vorum mjög heppin með veðrið og ferðin öll gekk vel :)





Sunday, October 16, 2016

Slóð á skemmtilegar þulur og fleira...!

https://www.facebook.com/argerdioglogmannshlid/videos/vb.100005853210154/169861326552307/?type=2&theater
http://www.herak.is/news/kristin-sigfusdottir-skaldkona-fra-kalfagerdi/

Wednesday, September 28, 2016

Haustferð til Húsavíkur !

Síðustu árin hefur það orðið að venju að skreppa norður til að ganga frá húsinu okkar þar fyrir veturinn og hitta systir mína og mág, sem alltaf mæta líka. Í þetta sinn þurftum við margt að laga, því öllu fer aftur, en einnig heimsóttum við ættingja og vini og fórum saman út að borða og áttum saman góðar stundir að vanda. Við höfðum hinsvegar ekki tíma til að skreppa í veiðitúr eins og við höfum gert undanfarin ár, en ef veður helst áfram gott í haust, þá skreppum við kannski skottúr aftur norður til að ná okkur í nokkra silunga í vetrarforða :)





Sunday, September 04, 2016

Fjallagrös allra meina bót !

Ég mætti vera duglegri við að nota fjallagrös, því ég nota þau aðallega sem forvörn á veturnar þegar kvefpestir ganga, en mætti auðvitað nota þau oftar og meira, þó allir séu hressir :)
Ég tíndi engin grös í fyrra og ákvað því að drífa mig núna og ná í ný grös, sem tókst, þó lítið væri af þeim hér eystra. En það verður hægt að tína meira fyrir norðan þegar við skreppum haustferðina okkar sem stendur til að fara fljótlega :)


Tuesday, August 30, 2016

Uppskeran !

Þetta er tíminn til að safna gjöfum jarðar fyrir veturinn og uppskeran er góð í ár. Skessujurtin er fastur liður, þurrkuð í kippum og sett í krúsir sem krydd í kjötsúpur og á lambakjöt.
Einnig er kartöfluuppskeran nokkuð góð og lítur vel út með gulræturnar sem ég ætla ekki að taka upp fyrr en fer að frysta.... Við höfum verið að borða spínat og salat s.l. 2 mánuði og ennþá nóg til. Einnig eru Chili-ávextir komnir í geymslu og fleiri væntanlegir, svo nóg verður til í kotinu næstu mánuðina :)





Thursday, August 25, 2016

Fleiri hauststörf...

Ég flýtti mér að gera svolítið rifsberjahlaup áður en þrestirnir klára öll berin :)
Svo brytjaði ég slatta af graslauk í frost, því það er svo gott að eiga hann með silung eða laxi í haust eða vetur. Ég kom því líka í verk í sumar að gera pestó úr Basilikunni sem ég ræktaði og margt fleira mætti telja, því náttúran er gjöful við okkur þetta árið :)






Þórarinsstaðir - grein Steinunnar Kr.

https://notendur.hi.is//~sjk/THST_1999.pdf

Sunday, August 14, 2016

Hauststörfin hafin !

Það var óvenju snemma sem hægt var að tína aðalbláber hér að þessu sinni. Ég var byrjuð nokkru fyrir verslunarmannahelgi og hef síðan borðað daglega ný bláber, ýmist með ís eða í bananahræring. Er líka búin að frysta hátt í 20 kg af aðalbláberjum til vetrarins og blandaða berjasaftin og rabbarbarasaft er til í lítravís í frystikistunni. Spurning hvort ég bæti við rifsberjahlaupi eða saft, því nóg er af rifsberjunum ?
Mikið af sveppum eru líka í boði og aðrir jarðarávextir og gróður með betra móti. Grænmetið hefur t.d. sjaldan sprottið jafn vel hjá mér og núna, ekki síst spínat og salötin... Ég fékk hinsvegar lítið af jarðarberjum, því ég endurnýjaði beðið í vor og því allt frekar seint á ferð þar á bæ. En á móti fékk ég loksins slatta af hindberjum úr gróðurhúsinu og meira af sólberjum en áður í uppáhaldssultuna mína.






Fleiri gestir !



Þröstur mágur og Birna ásamt Eiríki syni þeirra komu hér í byrjun ágúst og stoppuðu í nokkra daga. Við skruppum með þeim út í Skálanes í kvöldblíðu, en eitthvað fórst fyrir hjá mér að taka myndir við heimsókn þeirra.
Síðan fékk ég skilaboð frá gamalli skólasystur sem var stödd hér í tilefni af afmæli hennar og vinkonu hennar. Við hittumst og skruppum saman í berjamó, sem var óvænt gaman.
Loks komu svo hér íslensk hjón sem búa í USA, til mín á bókasafnið í leit að myndum frá Vestdalseyri. Konan, Inga Dóra Björnsd. er rithöfundur og ég búin að lesa 2 af bókunum hennar. Það sem meira er, ég hef þekkt systur hennar í áratugi og kannast því við fjölskyldu hennar, svo úr varð heilmikið spjall sem leiddi til þess að ég sagði henni frá konu hér í bæ (Sigríði Matthíasd.) sem er að skrifa og safna heimildum um íslenskar konur sem fóru til vesturheims. Þá vildi svo til að þær þekkjast vel, enda báðar að skrifa um svipað efni. Þær hittumst því að lokum og áttum saman góðan dagpart...!