Þar sem veður og hitastig hefur verið óvenju gott og hlýtt það sem af er nóvember, þá ákváðum við að skreppa til Húsavíkur, bæði að fara skoðunarferð í Bjarmaland en einnig að ná í vissa hluti og skila dóti á Safnahúsið sem ég var búin að yfirfara og lagfæra það sem þurfti að laga. Allt gekk vel og við vorum heppin með veður og færð og heimsóttum Villu vinkonu og Fúsa og fengum okkur vetrarbirgðir af reyktum silung frá Svartárkoti !
Tuesday, November 12, 2024
Friday, October 18, 2024
LEIKSKÓLINN SÓLVELLIR 50 ÁRA
Um þetta leiti eru liðin 50 ár frá því að Leikskólinn Sólvellir á Seyðisfirði hóf starfsemi sína, en þá var ég búin að vera hér í bænum í hálft ár. Íbúum bæjarins var boðið til veislu og margir mættu, m.a. tugur af fyrri starfskonum leikskólans og er ég ein úr þeirra hópi.
Sunday, October 13, 2024
VÁ - félag um vernd Seyðisfjarðar !
Í gærkvöld bauð Vá -félag um vernd fjarðar, stuðningsfólki sínu í Herðubreið í tilefni af því að tekin var upp viðburður varðandi vernd fjarðarins gegn yfirgangi og ásælni norskra laxeldismanna. Mættu þangað nokkrir gestir eins og Ómar Ragnarsson sem flutti það skemmtilega rímaða tölu yfir heimafólki og gestum sem voru líklega í kringum 200 manns. Tóku viðstaddir undir eftirfarandi: "Stöndum vörð um Seyðisfjörð, við eigum aðeins eina jörð." En fyrst var boðið uppá fordrykk og léttan kvöldverð og svo mætti Benni Hemm Hemm og flutti söng og tónlist ásamt nokkrum heimamönnum og gestum. Sýnd var vídeó og dróna-upptaka af ljósabandi sem lá yfir fjörðinn... Drónaupptakan m.a. frá Sigga B. syni okkar 💕
Saturday, October 05, 2024
Snjóflóðavarnargarðarnir !
Nú er búið að byggja 3 risastóra SNJÓFLÓÐAVARNARGARÐA undir Bjólfinum og gott útsýni ofan af þeim yfir bæinn. Við skruppum uppá þann nýjasta og ég tók þar nokkrar myndir fyrir stuttu !
Friday, September 20, 2024
Smá göngutúrar og fleira hér innan fjarðar !
Við höfum ekki verið dugleg við göngutúra nema þegar veður hefur verið hlýtt og gott. Fórum m.a. upp á Bjólf að skoða nýja útsýnis-pallinn sem verið er að steypa þar uppi, en þar var svo hvasst að ég var hrædd um að fjúka framaf, ef ég vogaði mér að taka myndir yfir bæinn...
Gengum svo í góðu veðri upp í Botna og sáum að Botnatjörnin var alveg þurr ! Fórum svo nýja leið sem var ansi strembin á köflum, brattar og vondar brekkur, en sáum þar skemmtilega konumynd í Búðaránni sem rennur ofan úr efri botnum.
Við fórum líka upp á Vestdal og gengum upp fyrir fossinn og þá blasti við mér RISA andlit sem ég hef ekki tekið eftir þar áður :)
Fyrstu frostnæturnar og uppskeran !
Eftir að 2 frostnætur um miðjan sept. felldi kartöflugrösin, þá drifum við í því að taka upp allar kartöflurnar og reyndust þær fleiri og meiri en ég bjóst við eftir svona sólarlaust + kalt sumar.
En varðandi gulræturnar, þá eru þær misstórar að vanda og þær þola alveg nokkrar frostnætur, svo ég hef bara tekið upp rétt nóg í matinn hverju sinni og ætla að lofa þeim að vera áfram undir dúk, þar til fer að snjóa, þær eru ferskastar og bestar þannig !
En varðandi annað grænmeti, þá hefur það gengið illa, grænkálið kom að vísu upp en vex lítið og salatið sem ég keypti forræktað er næstum uppétið, líklega af sniglum, þrátt fyrir að ég hafi sett heilan helling af kaffikorg kringum allar plönturnar og hefði átt að duga sem vörn gegn þeim :(
Uppskerutíminn alltaf líflegur !
Einn góðviðrisdaginn skruppum við í Hallormsstað og tíndum þar svolítið af Hrútaberjum og Hindberjum. Hrútaberin sauð ég í sultu en Hindberin fóru beint í frost í bili. En litlu villtu íslensku jarðarberin átum við jafnóðum eins og önnur jarðarber sem til féllu.
Það var líka allt fullt af góðum sveppum á tímabili, svo ég fór og tíndi slatta og steikti til að eiga í sósur og ýmsa rétti í vetur !
Monday, August 19, 2024
Fyrstu uppskerustörf haustsins biðu eftir mér !
Nú tók við árleg sveppatínsla og berjatínsla, bæði krækiber sem meira en nóg er af núna og bláber, en þau eru misþroskuð að þessu sinni, en nóg samt. Bjó til helling af krækiberjasaft sem mér finnst mjög góð og gott að eiga nóg af henni til vetrarins. Hreinsaði líka heilmikið af sveppum og steikti og setti í frost. Síðast en ekki síst tíndi ég slatta af bláberjum og setti í frost til að eiga í ávaxtahræring fyrir okkur Rúnar í vetur. Meira að segja beið okkar hellingur af jarðarberjum, stór og smá og svolítið af hindberjum, en veðrið mætti vera hlýrra og sólríkara eins og í Noregi, þó ekki séum við eins óheppin og norðlendingar sem fengu vorhret og svo aftur snjókomu núna seint í ágúst :(
Aftur heim á Seyðisfjörð !
Heimferðin gekk líka vel og við stoppuðum stutt fyrir sunnan, enda komin í þörf fyrir að komast heim og gera ýmislegt, eins og tína sveppi og ber til vetrarins. Barnabörnin voru samt í stuði eins og alltaf er við komum til þeirra. Við fórum síðan suðurleiðina austur út af bílnum sem lét þó ekkert illa á leiðinni. Sáum gríðarlega mikið af farfuglum, en engin hreindýr.
Noregsdvöl í sumarveðri og nóg af ólíkum verkefnum !
Við gistum auðvitað hjá Bergþóri + co áður en við fórum í flugið til Noregs, en bíllinn okkar var með stæla og Rúnar fór með hann í skoðun á verkstæði, svo við fengum Kidda til að redda leigubíl út á völl og það var Jóhanna Sigurðar frá Ólafsvík sem er systurdóttir Regínu Stefnis sem keyrði okkur og sótti okkur reyndar líka við heimkomuna. En við vorum heppin með veður í Noregi, fengum aðeins einn regndag og gerðum ýmislegt til að hjálpa Jóhönnu, tína bláber og keyra Adam í Háskólann og skoða Heimsendann þar skammt frá. Fórum í veislu til Þrastar og Birnu og líka til Sivu frænku og margt fleira.
Mærudagar og veiðitúr í Bjarmaland
Mærudagar á Húsavík eru árlegur viðburður og við Rúnar og Siggi fórum norður á föstudegi fyrir helgina og þangað komu líka Didda systir, Rúnar hennar og Rebekka dóttir þeirra. Við fórum á skemmtilega sýningu í gamla bíóhúsinu og hittum ættingja og vini sem gaman var að sjá. Eftir helgina fórum við Rúnar og Siggi í Bjarmaland og veiddum nokkra silunga sem Siggi fór með austur í frost, en við Rúnar keyrðum suður á eftir Diddu + co, áleiðis í flug til Noregs !
Monday, July 22, 2024
Afkomendur og gestir í heimsókn !
Veðurblíðan lét sjá sig eina viku um miðjan júlí og þá kom Bergþór með sína fjölskyldu og Kolla systir Hildar kom líka með Elsu dóttur sína. Þau voru heppin og náðu held ég 5 góðum dögum. Einnig kom Sigga Halla með 3 vinkonur (+ 2 að hluta til) og fengu þær að gista í húsbílnum á meðan LungA stóð yfir, en þetta var síðasta sumarhátíð LungA, aðeins skólinn mun halda áfram að starfa... Síðast en ekki síst, þá komu systkinin Heba og Zakki frá Húsavík og gistu eina nótt til að upplifa LungA 💗
Thursday, June 27, 2024
Jarðargróður og blómskrúð sumarins !
Ég setti niður kartöflur 8. maí og breyddi vel yfir beðið og slapp því vel frá slæma hretinu sem kom óvænt á norður og austurlandi. Sama má segja með sumarblómin í garðinum, þau lifðu af og voru fljót að jafna sig, flest þeirra, sem betur fer, en gulrætur og grænmetið þurfa lengri tíma og meira skjól og umönnun...
Vel lítur út með berjasprettu - EF veðrið verður til friðs í sumar og haust !
Ég kíkti í byrjun júní út í berjabrekkurnar hér á Ströndinni og sá ekki betur en að þar væri allt fullt af sætukoppum sem vonandi fá tækifæri til að vaxa og þroskast í hæfilegu sumarveðri, svo allir geti tínt nóg af berjum í haust með bros á vör 💓
Skemmtiferðaskip og laxeldi í sjó eiga engan veginn saman hér í firðinum !
Allt sumarið má segja að varla líði sá dagur að ekki komi a.m.k. eitt skip í höfn. Norræna mætir auðvitað vikulega og kemur fyrir að með henni mæta 3-4 skip þann daginn, en ofar en ekki eru þau 1-2 á dag og misstór eins og gengur. Bærinn er því oft yfirfullur af ferðamönnum flesta daga og ekki bara þeim sem koma og fara með skipum. Það er því eins gott að ekkert fiskeldi sé að þvælast fyrir skipunum hér í firðinum, þá yrðu trúlega árekstrar og e.t.v. stríð á milli hópa !