Wednesday, July 30, 2008
Farið í Loðmundarfjörð
Í gærmorgun lagði ég af stað gangandi til Loðmundarfjarðar ásamt Binnu, Magga og Stefaníu. En áður en við náðum upp á fjallsbrún ofan við Selstaði var komin svo niðadimm og þykk þoka að við sáum okkar óvænna og snérum heim aftur. Okkur til ánægju var veðrið mikið bjartara, hlýrra og betra í dag (30.júlí) svo að aftur var ákveðið að leggja af stað. En Stefán Ómar ákvað að skipta við mig og ganga yfir fjallið í stað þess að sigla með Rúnari, en vinstra hnéð á mér fékk nóg eftir fjallgönguna í gær svo að ég varð að láta mér nægja að sigla yfir í Lommó á nöfnu minni ásamt mínum manni og Ástrúnu og Magdalenu, dætrum Boga til að sækja göngugarpana. Við mættum tímanlega og þrömmuðum inn að Stakkahlíð og þaðan niður undir Sævarenda og hittum gönguhópinn þar. Þaðan héldum við öll inn að Klyppstaðakirkju og snæddum nestið okkar þar. Eftir góða pásu var síðan haldið aftur út að sjó, en þar í fallegri fjörunni léku sér 2 ungir menn á mótorhjólum og rufu friðinn og kyrrðina sem annars ríkti í firðinum. Stefán Ómar stóð sig eins og hetja í þessari erfiðu 12 km. fjallgöngu þó ekki sé hann gamall. Til viðbótar bættist svo gangan inneftir og til baka út í bát, samtals um 20 km. En gangan hjá okkur sem sigldum var um 10 km. og fannst fætinum mínum það alveg nóg. Mikil undiralda og straumur hafði næstum slitið eina landfestuna á bátnum, en hann var samt óskemmdur sem betur fer og ferðin til baka gekk vel, þó komin væri niðadimm þoka stóran part af leiðinni. Við tókum upp silunganetin sem við Rúnar lögðum í gærkvöldi út við Þór, en engan silung fengum við samt, aðeins einn ætan rauðmaga og nokkra smáþorska sem enduðu í sjónum ásamt nokkrum marhnútum, kröbbum og ígulkerjum. Þó veiðin væri svona léleg, þá er ég samt þakklát að enginn fugl skyldi drepa sig í netunum, því þarna voru nokkrar kollur með unga í gærkvöldi þegar við lögðum netin, en þá hefði ég alls ekki viljað veiða. Í dag eiga bæði Eyrún Gunnarsdóttir og Egill Þorsteinsson afmæli og óskum við þeim báðum til hamingju með daginn...!
Monday, July 28, 2008
MÆRUDAGAR 2008
Við nutum einstakrar veðurblíðu í 3 daga á Húsavík s.l. helgi, en þá stóðu yfir árlegir MÆRUDAGAR í bænum og íbúafjöldinn hefur vafalaust margfaldast, því annan eins aragrúa af fólki hef ég aldrei séð þar á sama tíma. Við hittum ótrúlegasta fólk sem við höfum jafnvel ekki séð áratugum saman. Það var ótrúlega gaman að sjá og hitta svona marga, þó tíminn væri naumur sem maður fékk til að spjalla við hvern og einn. Við mættum norður á föstudegi og eyddum honum að miklu leyti með mömmu, Diddu systur og fleiri ættingjum og vinum, en skunduðum um kvöldið niður á höfn til að horfa á brennuna, skemmtiatriðin og síðast en ekki síst að sjá og hitta allt fólkið sem var þar á ferð. Fjöldi brottfluttra Húsvíkinga kemur árlega norður á þessa "sæluviku" Húsvíkinga sem yfirleitt hefur heppnast afar vel, ekki síst veðurfarslega séð.
Á laugardeginum vorum við líka mikið með ættingjum og vinum en síðan tók við samkoma okkar fermingarsystkina og endaði hún ekki fyrr en hver og einn hélt til síns heima um nóttina, en ég kvaddi þann síðasta, Ásberg Salómonsson og frú þegar ég keyrði þau heim áður en ég fór sjálf í háttinn.
Á sunnudeginum mættum við systur ásamt Rúnari og fjölda fólks í sögugönguna sem Sigurjóns Jóhannesson stýrði eins og verið hefur undanfarin ár. Hann rölti með okkur stuttan hring um miðbæinn og sagði frá þeim húsum á leið okkar, sem orðin eru meira en 100 ára gömul. Að lokum fengum við að heyra sögu af konu sem fæddist og ólst upp á Húsavík en var síðan býsna víðförul og bjó og starfaði meðal þekktra manna í Evrópu, m.a. með Churchill forsætisráðherra Bretlands.
Sólin var einstaklega dugleg að skína á Húsvíkinga þessa daga og hlýja okkur og gera Mæru-hátíðina að þeim viðburði sem seint gleymist. Við enduðum daginn á því að fara í veislukaffi í nýja og fína íbúð til Huldu og Óla ásamt fleiri góðum gestum og kvölddum síðan ættingja, vini og "gamla" bæinn minn með söknuði, síðdegis á sunnudag...
Mærudagar á Húsavík
Þessar myndir voru teknar á Húsavík á MÆRUDÖGUM sem voru þar s.l. viku og helgi.
Þær sýna einkennislitina sem blöktu um allann bæ, þ.e.a.s. skærbleikur litur var ríkjandi um allan suðurbæinn, neongrænn litur einkenndi miðbæinn og appelsínulitur prýddi útbæinn. Ég tók nokkrar myndir af hverjum lit og hér má sjá sýnishorn af þeim ásamt móttöku"rúllunum" sem tóku á móti okkur við útjaðar bæjarins. Það má skoða þær betur með því að smella á þær svo þær stækki. Ég ætla svo að bæta við fleiri myndum og smá frásögn af lífinu í bænum þessa ágætu daga...
40 ára fermingarbarnamót á Húsavík
Hæ hæ og hó, heima á Húsavík !
Laugardaginn 26. júlí komu saman mörg fermingarsystkini mín á Húsavík, í tilefni af því að 40 ár eru liðin síðan við gengum saman upp að altarinu hjá sér Birni H. Jónssyni. Að sjálfsögðu komu makar okkar með okkur og mikil gleði ríkti í hópnum.
Nefndin sem skipulagði og sá um mótið, hafði keypt blóm sem við fórum með upp í kirkjugarð til að heiðra minningu tveggja fermingarsystkina sem horfin eru af sjónarsviðinu. Síðan var sest að snæðingi og ljúffengt grillað lambakjöt ásamt meðlæti var hesthúsað í stóru og björtu tjaldi sem nefndin hafði leigt og sett upp með ærinni fyrirhöfn niður við höfnina þar sem hátíðahöld Mærudaganna voru í fullum gangi. "Leynigestir" mættu til okkar og snæddu með okkur, en það voru Sigga Begga og hennar nýi maki Finnbogi, en Sigga Begga var í framhaldsdeild með hluta af okkar hópi, þó hún sé ári yngri og fermdist því ekki með okkur.
Þetta voru dæmalaust skemmtilegir samfundir og synd að ekki skyldu fleiri sjá sér fært að koma og samgleðjast með okkur, ekki síst þeir sem eiga heima í bænum og næsta nágrenni, en nokkuð marga vantaði úr þeim hópi, þó nokkir létu sjá sig eftir að máltíð lauk og enn fleiri voru á röltinu neðan við bakkann um kvöldið....
Bláa kirkjan
Það eru fastir liðir hjá okkur á hverju sumri að fara á tónleika í bláu kirkjunni okkar. Þetta mun vera 10 sumarið sem tónleikaröðin er í gangi, en hún er nú skipulögð af stjórn sem skipuð var til að sjá um þá, eftir að höfundur hennar og aðal umsjónarmaður, Muff Worden lést fyrir aldur fram haustið 2006.
Að þessu sinni voru feðgarnir Bergþór Pálsson og Bragi Bergþórsson mættir ásamt undirleikaranum Þóru Fríði Sæmundsdóttur. Þau stóðu sig afskaplega vel að vonum og mátti segja að kirkjan væri full af ánægðum áheyrendum. Ekki spillti veðrið sem var framúrskarandi gott, svo að flestir voru meira og minna sveittir af því einu að sitja innan dyra og hlýða á ljúfan sönginn og undirspilið....
Lunga
Hin árlega Listahátíð ungs fólks á Austurlandi er afstaðin með pompi og prakt að venju. Ég hef meira og minna fylgst með þessum hátíðum frá upphafi og haft nokkuð gaman af þeim og óhætt er að segja að þessi "sæluvika" unga fólksins hafi sett sinn svip á sumarið á Seyðisfirði ár hvert.
Að þessu sinni fylgdist ég ekki mikið með uppskeruhátíðinni, nema hvað ég fór á tískusýninguna sem haldin var í fv. húsnæði skipasmíðastöðvarinnar hér í bænum.
Sýningin var glæsileg og vel skipulögð. Eini gallinn var hve dimmt var í þessum gríðarstóru húsakynnum. Það reyndist því erfitt að ná góðum myndum, nema maður hefði úrvals ljósmyndagræjum á að skipa. Meðfylgjandi má t.d. sjá sýnishorn af tilraunum mínum við myndatökuna, sem tókst svona allavega.
Sumarfrí í Atlavík
Hæ hæ, ég er ótrúlega löt orðin að tjá mig, sama hvort það er hér á þessum vettvangi eða í gömlu góðu dagbókina mína, sem verið hefur samferðamaður minn frá fermingaraldri. Nú er ég greinilega orðin latari en ég hef áður verið og hálf skammast mín fyrir það og ætla að reyna að sýna lit með því að setja hér nokkrar myndir og helstu fréttir sumarsins.
Ella mágkona kom hér ásamt Árna sínum og Auði Lóu og skruppu með okkur í siglingu um flóann. Þau gistu og voru síðan skilin eftir hér í húsinu, því við vorum á leið á ættarmótið í Arnanesi, en þau dvöldu hér yfir helgina við heimsóknir hjá ættingjum og vinum.
Þröstur mágur kom hingað líka með fjölskylduna um daginn og stoppuðu nokkra daga. Þau fóru líka með okkur í smá siglingu út á fjörð og svo brugðum við okkur með þeim upp í Atlavík og nágrenni og áttum þar góða daga saman. Við skruppum m.a. yfir að Skriðuklaustri til að skoða fornleifauppgröftinn og fleira í glaða sólskini. Fórum líka og snæddum í Húsmæðraskólanum, þar sem myndarlegt hlaðborð var í boði. Að sjálfsögðu var líka grillað, gengið um skóginn og spjallað við nágrannana sem komu úr ýmsum áttum. Góður vinskapur tókst á milli yngstu meðlimanna, Sóleyjar frá Hafnarfirði og Eiríks Hrafns en þau sitja saman að snæðingi á meðfylgjandi mynd.
Tuesday, July 01, 2008
Ættarmót í Arnanesi
Heil og sæl
Laugardaginn 28. júní komu saman 64 menn, konur og börn í tilefni af því að Sigurveig Björnsdóttir frá Lóni sem var móðir, amma og langamma okkar flestra, hefði orðið 100 ára núna í júní, hefði henni enst aldur til. Veðrið hefði mátt vera betra, en verra gat það líka verið og enginn kvartaði yfir því þó frekar svalt væri og blautt á jörðu, en úrkoman var samt lítil.
Eftir stutta viðdvöl í kirkjugarðinum þar sem lögð voru blóm á leiði afa og ömmu var ekið niður í Arnanes og drukkið afmæliskaffi sem að Þórunn Birna hélt utanum. Þau Jóndi eru búin að gera húsið mjög notalegt og fínt.
Síðan afhenti ég Ástu fyrrverandi ráðskonu í Arnanesi afmæliskort og peningagjöf frá þeim Arnanessystkinum í tilefni af stórafmæli þeirra Valda sem er í dag, 1. júlí, en Ásta var þeim systkinum afar góð og á allt gott skilið frá þeirra hendi.
Síðan gaf Gígja Gunnarsd. þeim Arnanes-systkinum glæsilegar möppur sem hún hannaði og útbjó með gömlum myndum og frásögnum af lífinu í Arnanesi í "gamla daga" sem ég lét hana hafa úr safninu mínu. Einnig fylgdu með mjög vel gerð afrit af bréfum og gögnum sem Boddi lánaði Gígju, varðandi Arnanes. Allt mjög forvitnilegt og vel gert.
Loks flutti svo Boddi frændi "varnarræðu" fyrir Arnanes-nafnið og stóð sig með prýði, enda greinilegt að hann hefur lagst í mikla heimildavinnu og leit sem hefur tekið mikinn tíma.
Eftir þetta tók við ratleikur, útreiðartúrar og myndasýning, þar til farið var að grilla og borða kvöldverð. Húsið var líka skoðað í bak og fyrir en að því loknu fór fram leiksýning, tónlistarflutningur, ljóðalestur og fjölskyldumyndatökur þar til fólk þurfti að halda af stað heim, þ.e.a.s. þeir sem ekki gátu dvalið lengur á staðnum.
Þetta var ógleymanlegur dagur og þökk sé öllum sem sáu sér fært að mæta og vonandi hittumst við sem flest aftur fyrr en síðar...
Subscribe to:
Posts (Atom)