Tuesday, July 01, 2008

Ættarmót í Arnanesi




Heil og sæl
Laugardaginn 28. júní komu saman 64 menn, konur og börn í tilefni af því að Sigurveig Björnsdóttir frá Lóni sem var móðir, amma og langamma okkar flestra, hefði orðið 100 ára núna í júní, hefði henni enst aldur til. Veðrið hefði mátt vera betra, en verra gat það líka verið og enginn kvartaði yfir því þó frekar svalt væri og blautt á jörðu, en úrkoman var samt lítil.
Eftir stutta viðdvöl í kirkjugarðinum þar sem lögð voru blóm á leiði afa og ömmu var ekið niður í Arnanes og drukkið afmæliskaffi sem að Þórunn Birna hélt utanum. Þau Jóndi eru búin að gera húsið mjög notalegt og fínt.
Síðan afhenti ég Ástu fyrrverandi ráðskonu í Arnanesi afmæliskort og peningagjöf frá þeim Arnanessystkinum í tilefni af stórafmæli þeirra Valda sem er í dag, 1. júlí, en Ásta var þeim systkinum afar góð og á allt gott skilið frá þeirra hendi.
Síðan gaf Gígja Gunnarsd. þeim Arnanes-systkinum glæsilegar möppur sem hún hannaði og útbjó með gömlum myndum og frásögnum af lífinu í Arnanesi í "gamla daga" sem ég lét hana hafa úr safninu mínu. Einnig fylgdu með mjög vel gerð afrit af bréfum og gögnum sem Boddi lánaði Gígju, varðandi Arnanes. Allt mjög forvitnilegt og vel gert.
Loks flutti svo Boddi frændi "varnarræðu" fyrir Arnanes-nafnið og stóð sig með prýði, enda greinilegt að hann hefur lagst í mikla heimildavinnu og leit sem hefur tekið mikinn tíma.
Eftir þetta tók við ratleikur, útreiðartúrar og myndasýning, þar til farið var að grilla og borða kvöldverð. Húsið var líka skoðað í bak og fyrir en að því loknu fór fram leiksýning, tónlistarflutningur, ljóðalestur og fjölskyldumyndatökur þar til fólk þurfti að halda af stað heim, þ.e.a.s. þeir sem ekki gátu dvalið lengur á staðnum.
Þetta var ógleymanlegur dagur og þökk sé öllum sem sáu sér fært að mæta og vonandi hittumst við sem flest aftur fyrr en síðar...

1 comment:

Anonymous said...

Þetta hefur aldeilis verið gaman hjá ykkur. Ekki amalegt að hafa Þórunni Birnu í kaffinu, það hefur verið gott sem þið fenguð. Kær kveðja til þín austur.
Ásdís Sig.