Wednesday, July 30, 2008

Farið í Loðmundarfjörð




Í gærmorgun lagði ég af stað gangandi til Loðmundarfjarðar ásamt Binnu, Magga og Stefaníu. En áður en við náðum upp á fjallsbrún ofan við Selstaði var komin svo niðadimm og þykk þoka að við sáum okkar óvænna og snérum heim aftur. Okkur til ánægju var veðrið mikið bjartara, hlýrra og betra í dag (30.júlí) svo að aftur var ákveðið að leggja af stað. En Stefán Ómar ákvað að skipta við mig og ganga yfir fjallið í stað þess að sigla með Rúnari, en vinstra hnéð á mér fékk nóg eftir fjallgönguna í gær svo að ég varð að láta mér nægja að sigla yfir í Lommó á nöfnu minni ásamt mínum manni og Ástrúnu og Magdalenu, dætrum Boga til að sækja göngugarpana. Við mættum tímanlega og þrömmuðum inn að Stakkahlíð og þaðan niður undir Sævarenda og hittum gönguhópinn þar. Þaðan héldum við öll inn að Klyppstaðakirkju og snæddum nestið okkar þar. Eftir góða pásu var síðan haldið aftur út að sjó, en þar í fallegri fjörunni léku sér 2 ungir menn á mótorhjólum og rufu friðinn og kyrrðina sem annars ríkti í firðinum. Stefán Ómar stóð sig eins og hetja í þessari erfiðu 12 km. fjallgöngu þó ekki sé hann gamall. Til viðbótar bættist svo gangan inneftir og til baka út í bát, samtals um 20 km. En gangan hjá okkur sem sigldum var um 10 km. og fannst fætinum mínum það alveg nóg. Mikil undiralda og straumur hafði næstum slitið eina landfestuna á bátnum, en hann var samt óskemmdur sem betur fer og ferðin til baka gekk vel, þó komin væri niðadimm þoka stóran part af leiðinni. Við tókum upp silunganetin sem við Rúnar lögðum í gærkvöldi út við Þór, en engan silung fengum við samt, aðeins einn ætan rauðmaga og nokkra smáþorska sem enduðu í sjónum ásamt nokkrum marhnútum, kröbbum og ígulkerjum. Þó veiðin væri svona léleg, þá er ég samt þakklát að enginn fugl skyldi drepa sig í netunum, því þarna voru nokkrar kollur með unga í gærkvöldi þegar við lögðum netin, en þá hefði ég alls ekki viljað veiða. Í dag eiga bæði Eyrún Gunnarsdóttir og Egill Þorsteinsson afmæli og óskum við þeim báðum til hamingju með daginn...!

No comments: