Tuesday, August 05, 2008

Einstök blóm....




Ég hef alla ævi verið hrifin af blómum og var svo heppin að Theodór móðurafi minn kenndi mér að þekkja flestar íslenskar jurtir í náttúrunni og til hvers mætti nota sumar þeirra. Ég hef því fylgst með blómum og ræktað blóm áratugum saman. Það kom mér því skemmtilega á óvart í sumar að finna 2 hvítar plöntur sem eiga að vera bláar, en einhverra hluta vegna hafa þær stökkbreyst og fengið á sig snjóhvítan lit, eru eins og albinóar. Ég gat auðvitað ekki sleppt því að festa þessi blóm á mynd eins og sjá má. Svo bætti ég hér við einni rós sem er búin að vera alveg einstök. Ég keypti hana á Húsavík fyrir 100 kr. - sá hana í ruslakassanum í blómabúðinni og leist svo vel á hana að ég vildi að hún fengi að njóta sín í stað þess að hverfa í ruslið engum til ánægju. Föstudaginn 1. ág. var vika liðin frá því ég keypti hana og flutti austur. Þá tók ég meðfylgjandi mynd, því hún var ennþá eins og ný og gladdi auga mitt á hverjum degi. Það eina sem ég gerði fyrir hana var að setja hana út á svalir flestar nætur og passa að hún hefði nóg vatn í vasanum. Í dag þriðjudaginn 5. ág. er hún loksins farin að láta á sjá, en fær þó enn að standa á borðinu, enda ekkert farið að hrynja af henni ennþá.
Já undur náttúrunnar eru alls staðar í kringum okkur og gleðja okkur ef við lítum umhverfis okkur, það er þess virði að taka eftir þeim....

No comments: