Saturday, August 16, 2008

Frábær dagur !!!




Dagurinn í dag var alveg einstaklega yndislegur veðurfarslega séð. Snemma í morgun var komin 12 stiga hiti og blanka logn sem hélst næstum í allan dag. Hitinn hækkaði eftir því sem leið á morguninn og það var stuttbuxnaveður fram á kvöld. Rúnar minn skrapp með Bubba nágranna okkar á sjó og veiddu þeir vel, enda varla hægt að fá meiri blíðu á sjó en á svona degi. Sjálf stóð ég í stórræðum við að bera út öll blómin mín, stór og smá og skipti um mold á þeim, því það fórst fyrir í vor, vegna þess hve leiðinlegt veðrið var alltaf, endalaus þoka....en gleymum því....!
Kl 5 vorum við svo mætt með borð, stóla og grillmat ásamt flestum íbúum í okkar hverfi, þar sem við grilluðum saman og áttum yndislegar stundir. Æfðum m.a. dans sem við síðan sýndum, þegar allir bæjarbúar hittust kl. 8 í kvöld. Hver hópur var með fínt dansatriði, en okkar dans fékk verðlaunin, vegna þess að við hófum dansinn á því að hver maður í hópnum sleppti blöðru á loft sem var fyllt með helium og svifu þær svo fallega til himins á meðan við dönsuðum og í lok dansins sprengdu 3 úr hópnum flottar partýsprengjur yfir hópinn svo við vorum öll útötuð í glimmerræmum og slíktu skrauti. Þetta gerði svo mikla lukku að sigurinn var í höfn.
Ég gleymdi að geta þess að bænum var skipt niður í 5 liti, hvert hverfi hafði sinn lit og væntanlega verður því haldið áfram næstu ár. Okkar litur var grænn, eins og sjá má á formönnum okkar sigurvegaranna....
Að lokum var svo kveikt í litlum bálkesti sem var búinn til úr þurrum spítum sem var raðað upp eins og krakkar raða kubbum í hús. Þetta var alveg einstaklega flott bál þó lítið væri og það logaði vel í um 2 tíma, án þess að nokkur olía eða vökvi væri settur á hann. Hann brann niður á við en ekki upp á við eins og venjan er og hann hrundi ekki út um allt eins og bálkestir vilja oft gera. Semsagt sniðug hugmynd !

No comments: