Friday, August 22, 2008

Ber, sulta og sveppir...




Haustið er sú árstíð sem menn nota til að safna saman ávöxtum sumarsins til að geyma sem vetrarforða og hefur það verið árviss siður á mínu heimili að viðhalda þessum gamla sið á einhvern hátt. Oftast hef ég ræktað kartöflur, rifsber og jarðarber og tínt líka sveppi sem ég hef steikt og fryst og ber sem ég hef sultað/saftað, auk þess sem ég hef nógan rabbarbara í uppáhaldssultu húsbóndans.
Oft hef ég séð svartar og bláar berjabreiður í móunum bæði hér austan lands og fyrir norðan, en ég held ég hafi samt aldrei séð jafn mikið af berjum og nú í haust. Nú er sama hvort maður leitar að krækiberjum, aðalbláberjum eða bláberjum, allt er svart og blátt af berjum. Ég gat því ekki vanþakkað þessar gjafir Skaparans með því að láta þær eiga sig, heldur dreif ég mig og tíndi heilmikið og saftaði krækiberjasaft í 11 flöskur, sultaði bæði úr rabbarbara og bláberjum og nú síðast í dag úr fullu vaskafati af rifsberjunum sem dugði í 12 krúsir.
Ég tíndi líka fulla körfu af sveppum við Egilsstaði í morgun þegar ég keyrði Rúnar í flug og hreinsaði þá og steikti síðdegis í dag, þannig að nú fer búrið mitt að verða fullt af vetrarforða.
Rúnar hefur líka verið að salta fiskflök til að eiga á lager og brátt fer ég að taka upp kartöflurnar sem ég setti niður í vor, ásamt vonandi gulrótum og káli sem er orðið býsna stórt og myndarlegt. Enda hef ég í nokkrar vikur getað sótt mér blöð í salöt og súpur, án þess að högg sæi á vatni, eins og sagt er...
Ég tíndi meira að segja dálítið af fjallagrösum uppi á Bjólfi um daginn, en þar hafa þau fengið frið fyrir hreindýrum og kindum, merkilegt nokk.
Ég var semsagt að dunda mér við þessi verk í dag á meðan að íslensku handboltastrákarnir voru að tryggja sér a.m.k. silfrið á Ólympíuleikunum í Peking. Ég hafði sjónvarpið bara opið og leit á það með öðru auganu þegar mörkin voru skoruð og mikið um að vera. Það á nefnilega ekki við mig að sitja ein við sjónvarpið og gera ekki neitt... Það má því kannski segja að ég hafi slegið 2 flugur í einu höggi....!

No comments: