Tuesday, August 05, 2008

Miðhúsasel í Fellum



Tengdafaðir minn Eiríkur (heitinn) Sigurðsson fæddist í Miðhúsaseli í Fellum, í gömlum torfbæ sem fékk að standa óhreyfður og síðasti íbúinn þar hélt bænum vel við á meðan hann var þar og heilsan leyfði.
Við höfum gegnum áratugina skroppið þangað af og til og töldum s.l. sumar að nú væri bærinn að hruni kominn, því að búið var að strengja net yfir þakið, eins og sést á meðf. mynd. En þegar við brugðum okkur þangað s.l. sunnudag þá var eigandi jarðarinnar þar staddur og bauð okkur að líta inn í gamla bæinn. Það er einfalt að viðurkenna að andlitin duttu af okkur þegar inn var komið, því hann var þá búinn að endurgera allt húsið upp að innan, klæða það í hólf og gólf, leggja rafmagn fyrir ljós og hita og þessi fínheit sjást hreint ekki að utan, kannski sem betur fer. Það eina sem vantar er WC og vatn, að öðru leyti er þetta fínt gistihús, þótt ótrúlegt sé.
Núverandi eigandi á engar rætur á þessum stað, þess vegna kemur það okkur ennþá meira á óvart hve mikla alúð hann hefur lagt í alla þessa vinnu á gamla bænum og gladdi það okkur ómælt.

No comments: