Monday, July 28, 2008

40 ára fermingarbarnamót á Húsavík




Hæ hæ og hó, heima á Húsavík !
Laugardaginn 26. júlí komu saman mörg fermingarsystkini mín á Húsavík, í tilefni af því að 40 ár eru liðin síðan við gengum saman upp að altarinu hjá sér Birni H. Jónssyni. Að sjálfsögðu komu makar okkar með okkur og mikil gleði ríkti í hópnum.
Nefndin sem skipulagði og sá um mótið, hafði keypt blóm sem við fórum með upp í kirkjugarð til að heiðra minningu tveggja fermingarsystkina sem horfin eru af sjónarsviðinu. Síðan var sest að snæðingi og ljúffengt grillað lambakjöt ásamt meðlæti var hesthúsað í stóru og björtu tjaldi sem nefndin hafði leigt og sett upp með ærinni fyrirhöfn niður við höfnina þar sem hátíðahöld Mærudaganna voru í fullum gangi. "Leynigestir" mættu til okkar og snæddu með okkur, en það voru Sigga Begga og hennar nýi maki Finnbogi, en Sigga Begga var í framhaldsdeild með hluta af okkar hópi, þó hún sé ári yngri og fermdist því ekki með okkur.
Þetta voru dæmalaust skemmtilegir samfundir og synd að ekki skyldu fleiri sjá sér fært að koma og samgleðjast með okkur, ekki síst þeir sem eiga heima í bænum og næsta nágrenni, en nokkuð marga vantaði úr þeim hópi, þó nokkir létu sjá sig eftir að máltíð lauk og enn fleiri voru á röltinu neðan við bakkann um kvöldið....

No comments: