Friday, November 07, 2008
Ferðalok
Að ferðalokum má svo sjá 2 myndir sem sýna, annars vegar sjávarkletta sem gætu alveg verið á Íslandi og hins vegar flugvöllinn á Madeira sem, vegna skorts á sléttlendi, er byggður að hálfu leyti á súlum í fjöruborðinu. Það var mjög sérstakt að sjá þessa hönnun á flugvellinum við aðflugið að eyjunni og sömuleiðis að aka síðar eftir veginum sem liggur undir brautina. Heimamenn eru greinilega snjallir að leysa þau vandamál sem plássleysið á eyjunni skapar, svo ekki er hægt annað en dást að því hve ráðagóðir og duglegir þeir eru....
Það er verst hve óskýr flugvallarmyndin er, en hana má stækka talsvert með því að smella á hana, það munar miklu...
Tuesday, November 04, 2008
Ferðafélagarnir
Síðasta kvöldið okkar á Madeira fór Gullvershópurinn saman út að borða á þjóðlegu veitingahúsi. Við það tækifæri voru teknar hópmyndir. Því miður var ég ekki með nýju myndavélina okkar, þannig að útkoman varð ekki nógu góð hjá mér í rökkrinu i andyrinu, en ég vonast til að fá betri útgáfu senda frá þeim sem höfðu betri vélar við hendina.
Annars eru þessar myndir sýnishorn af matartímum og samverustundum með samferðafólkinu.... við fengum yfirleitt ágætis mat og ég veit ekki til að neinum hafi orðið meint af því sem í boði var. Allavega leið okkur vel og átum meira en við hefðum átt að gera, því nú þurfum við bæði að herða sultarólina á næstunni, til að reyna að bæta fyrir allt "sukkið".
Myndir héðan og þaðan...
Ég gleymdi að geta þess að borgarbúar kepptust við að skreyta borgina með jólaljósum á meðan á dvöl okkar stóð í Funchal. En því miður kveiktu þeir ekki á þeim, þetta er aðeins undirbúningur fyrir jólahaldið sem hefst síðar í nóvember.
Það er greinilegt að kaþólsk trú er ríkjandi á svæðinu, því víða má sjá bænastaði á almannafæri og þær kirkjur sem við skoðuðum voru greinilega kaþólskar. Einstaklega fallegur hringstigi var í einni þeirra, eins og sjá má á meðf. mynd.
Styttan stóra sem stendur fremst á klettanefi, er eins og smækkuð mynd af Jesú-styttunni í Rió, enda er hún þaðan ættuð, kom víst sem gjöf frá Brasilíu og stendur þarna á klettinum eins og verndari allra sjófarenda.
Mörg bæjarstæði á eyjunni eru afar falleg og mikilfenglegt útsýni yfir marga þeirra eins og sjá má. Bæirnir á norðurströndinni eru hinsvegar á votara og vindasamara svæði og íbúar mikið færri en á suðurströndinni þar sem veðráttan er mjög hagstæð. Norðurströndin minnir líka víða á okkar gamla góða Frón, ef vel er að gáð...
En alls staðar er samt skógur og gróður og brattar brekkur, sama hvert litið er...
Að lokum ætla ég að sýna nokkrar svipmyndir af ferðafélögunum ... til gamans !
Nokkrar svipmyndir
Ótal svipmyndir úr ferðinni flögra um hugann og erfitt að grípa þær allar á lofti. En ein verður víst að fá að vera með, það er varðandi fótboltastrákinn Ronaldo sem fæddur er í Funchal og ólst upp í brekkum borgarinnar. Hann er uppáhald Madeiringa og glæsilegur fótboltavöllur er nú skammt frá gamla heimilinu hans.
Eyjaskeggjar eru líka duglegir að útbúa golfvelli, þrátt fyrir plássleysið og þykja vellirnir þeirra nógu góðir fyrir Evrópugolfmótin. Nýr golfvöllur er í byggingu og vænta heimamenn fleiri vel stæðra ferðamanna hans vegna.
Á meðfylgjandi myndum má sjá sýnishorn af hleðslutækni heimamanna, sem endist vel í þessu hlýja og raka loftslagi Madeira, en trúlega yrðu þær fljótar að springa í frosthörkum íslenska veturins og kannski er það ástæða þess að Íslendingar notuðu meira torf í hleðslur, þær þoldu betur okkar óblíðu veðráttu...
Mannlíf og saga
Portugölsku eyjarnar Madeira og Poto Santo fundust í kringum 1419. Ég kann ekki að nefna alla þá sem þangað komu fyrst, en sá sem fyrstur er sagður hafa fundið og eignað Portúgal eyjuna Madeira hét Joe Zarco. Það var svo nokkru síðar, eftir að fólk hafði sest að á eyjunum, að Kristófer Kólumbus kom þangað og varð ástfanginn af dóttur landshöfðingjans á Porto Santo, giftist henni og átti með henni son sem fæddist þar. Hans er því getið í sögu eyjanna og stytta af honum blasir við vegfarendum um borgina, ásamt styttum af fyrstu landnemunum og fleirum sem ég kann ekki að nefna.
Eitt af því sem fyrstu íbúarnir gerðu, var að brenna hluta af skóginum sem var á milli fjalls og fjöru og torveldaði þeim að rækta jörðina og skyggði á bústaði þeirra. En askan sem eftir lá við bruna skóganna var ótrúlega góður jarðvegur sem allur gróður óx vel í og strax og fluttur hafði verið inn vínviður og sykurreyr, þá gekk þeim vel að rækta þessar nytjajurtir og lifðu á því næstu aldirnar.
Enn í dag lifa margir á ræktun sem og á fiskveiðum og í höfuðborginni er stór markaður, þar sem ræktendur og fiskimenn safnast saman með afurðir sínar og selja það gestum og gangandi eins og sjá má á meðf. myndum.
Aðeins tvisvar rákumst við á betlara, annar var gamall örvasa karl, en hinn var fótalaus unglingur sem notaði hjólabretti til að flytja sig á milli staða. Við sáum aumur á honum og létum hann hafa alla smámynt í fórum okkar, sem reyndar var ekki há upphæð á okkar mælikvarða, en hann virtist samt hálf hissa á þessu tiltæki okkar.
Smellið á myndirnar til að stækka þær, svo það sem á þeim er sjáist betur...
Duglegir eyjabúar
Það er nokkuð ljóst að heimamenn á Madeira eru ekki jafn vel stæðir og Íslendingar og lífsbarátta þeirra hefur verið hörð, ekki síður en á okkar kalda landi. Það er ótrúlegt hve þeir eru miklir snillingar að hlaða úr grjóti, því bókstaflega allar þeirra fjallshlíðar eru þaktar hlöðnum veggjum sem mynda stalla í hlíðunum sem síðan eru notaðir til ræktunar og ennfremur eru allar hlíðarnar útgrafnar í áveituskurðum sem eru aldagamlir eins og mikið af vegghleðslunum. Þeir kunna líka að nota gamla hluti og gera það oft á skemmtilegan hátt eins og sjá má á myndinni sem hér fylgir með af stóru tannhjóli sem notað er sem undirstaða undir borðplötu, en neðan á hjólið eru svo vínglösin hengd, svo að notagildið hefur ýmsar hliðar.
Einmitt vegna þess hve nýtnir þeir eru, þá kom það á óvart að sjá menn við að höggva niður óþroskaða döðluklasa af pálmunum sem alls staðar vaxa. Þegar við spurðum hverju þetta sætti, fengum við það svar að þeir væru lítið fyrir að borða þessar döðlur, því þetta væru ekki "ekta" döðlur, heldur einhver systur-döðlupálmi. Samt voru þeir að borða þroskuðu döðlurnar og buðu okkur að smakka. Þær reyndust einstaklega sætar, mjúkar og bragðgóðar.
Í höfninni í Funchal eru nokkrir bátar til þess gerðir að sigla með ferðamenn, bæði í veiðitúra og skoðunarferðir. Þar er m.a. eftirlíking af skipi Kólumbusar, St. Maríu sem hann er sagður hafa siglt til Ameríku fyrir rúmum 500 árum. Það lítur út eins og gömul galeiða eða sjóræningjaskip en er notað til að sigla með ferðamenn meðfram ströndinni og skoða höfrunga sem sjást þar víst gjarnan !
En það sem kom okkur kannski mest á óvart var frábært vegakerfi um eyjuna, því bæði er hægt að þræða mjóa og bratta vegi hringinn um eyjuna þar sem útsýnið er einstakt og þar sem flauta þarf víða fyrir horn, því erfitt er að mætast og vissara að láta vita af ferðum sínum til að koma í veg fyrir árekstur. En s.l. 8 ár eða rúmlega það, hafa verið byggð göng í gegnum flest fjöll og hæðir á eyjunni og stórar brýr þar sem þess er þörf. Það er því komin hraðbraut eftir eyjunni endilangri og jarðgöngin líklega orðin yfir 100, mislöng - en öll afar vel gerð og rúmgóð. Aðeins gömul handgerð göng sem við fórum í gegnum eru lág og þröng, svo rútan rétt slapp í gegnum þau. Það væri frábært ef íslensk stjórnvöld væru jafn jákvæð gagnvart jarðgangagerð og á Madeira, þá værum við örugglega búin að fá Samgöng hér um alla austfirði. Meðfylgjandi myndir eru sýnishorn af því sem um hefur verið rætt í þessum þætti, en fleira kemur síðar....
Margt að skoða
Ekki veit ég hve marga kílómetra við Rúnar gengum um höfuðborgina, en þeir voru margir og fætur mínir þreyttir og sárir af strengjum en samt hélt maður áfram, því svo margt var til að skoða og tíminn naumur. Við fórum með Binnu og Magga í togbrautina sem liggur frá miðbænum og upp í þorpið Monte. Það er frábært útsýni úr kláfnum yfir borgina og sannarlega þess virði að fara slíka ferð. Uppi á fjallinu er falleg kirkja sem er tileinkuð drottningu fjallanna. Rétt fyrir neðan hana bjóða heimamenn uppá ferð niður brekkurnar í sérstökum farartækjum sem eru eins og tágastólar á trésleða sem þeir halda í og stjórna af mikilli list. Því miður slepptum við því að prófa þessar sleðaferðir, því okkur langaði að skoða stóran og fallegan lystigarð sem var einstaklega fallegur, en til að komast þangað urðum við að taka aðra togbraut sem lá frá kirkjunni yfir gljúfur alþakið trjágróðri, það var stórfengleg sjón að svífa þar yfir. En þessi Botanic garður er þakin blómum og trjám frá öllum heimshornum ásamt heilum ósköpum af fuglum sem gaman var að sjá, ekki síst hvítu páfuglana sem við höfum hvergi séð áður og vitum ekki hvort þeir eru alvöru páfuglar eða albinóar.
Stór hluti íbúanna lifir nú á þjónustu við ferðamenn en afgangurinn stundar fiskveiðar og landbúnað sem aðallega er banana, vínberja og ávaxtarækt auk blómaræktar en sykurreyr var áður fyrr einnig mikið ræktaður. Einnig var mikið um framleiðslu á tágahúsgögnum og hlutum úr tágum á eyjunni auk þess sem konur framleiddu mikið af handunnum dúkum og öðrum varningi til útflugnings. Ennþá má sjá heilmikið af þessari fallegu framleiðslu þeirra, bæði í búðum og á söfnum. Vínframleiðsla hinna frægu Madeiravína er alltaf jafn mikil og skal engan undra, því svo vel smakkast þau.
Ég ætla svo í næstu þáttum að minnast á sögu eyjarinnar og mannlífið á förnum vegi auk þess að sýna svipmyndir frá ferðum okkar um eyjuna, sem sumstaðar minnir heilmikið á okkar kalda land, Ísland.
Vikudvöl á Madeira
Eins og ég nefndi í síðasta bloggi, þá fórum við Rúnar með Gullvershópnum í vikufrí til Madeira, sem er lítil portúgölsk hálend eyja norðan við Kanaríeyjar. Hún er minna en 1% af stærð Íslands, en þar búa samt næstum jafn margir íbúar og hér, eða um 270 þús. manns að sögn leigubílstjóra sem keyrði okkur víða um eyjuna og fræddi okkur um ýmislegt varðandi hana.
Við gistum í höfuðborginni Funchal á 5 stjörnu hóteli með glæsilegum sundlaugum, sem voru of kaldar fyrir kuldaskræfu eins og mig og í þeim var sjór en ekki vatn sem gerði þær enn minna spennandi í mínum huga og lét ég alveg vera að nota þær. Hinsvegar var notalegt að fara í sauna, gufu og nuddpottinn sem var innandyra. Auk þess var öll önnur aðstaða mjög góð og heimamenn mjög þægilegir.
Veðráttan á eyjunni er einstök, því þar er aldrei mjög heitt og ekki heldur frost eða kuldi eins og við þekkjum og suðrænn gróður vex þar um alla eyju. Þar ríkir eiginlega sumarveður árið um kring, en yfir vetrartímann rignir þó meira en á sumrin og fengum við að finna fyrir því, þar sem hressilegir regnskúrir helltust yfir af og til flesta dagana sem við dvöldum þar. Þá kom sér vel að hafa regnhlífina við hendina, þó svo færi að hún gleymdist í miðborginni áður en haldið var heim á leið. Eyjaskeggjar hafa verið afar duglegir s.l. 10 ár við að byggja upp vegakerfi eyjarinnar og er hún öll sundurgrafin af glæsilegum göngum í gegnum öll þau háu fjöll og fell sem þar eru, enda nánast ekkert láglendi og engar sandstrendur. En nóg er samt af hótelum með góðri sólbaðsaðstöðu og sjórinn yfirleitt nógu heitur til að menn sem þola sjávarsund, geta notið þess að svamla í sjónum og er Rúnar þar meðtalinn. Byggðin er því öll í þverhlíptum fjöllum og uppi á hæðum og hólum, svo undrun sætir hvar þeir geta hugsað sér að búa, það er sannarlega ekki fyrir lofthrædda.
Ég ætla ekki að segja mikið meira í þessum pistli, heldur skrifa nokkra stutta kafla um hina ýmsu viðburði ferðarinnar og setja inn viðeigandi myndir á hverjum stað, því mér finnst svo margt í frásögur færandi úr þessari ferð sem ég held að skili sér betur í nokkrum stuttum köflum ásamt myndum, frekar en einum löngum. En myndirnar sem fylgja hér með eru teknar frá höfninni í Funchal og ofan af svölunum okkar á 8. hæð á hótelinu og loks ein sem bílstjórinn okkar tók af okkur við tvö af gömlu stráþakahúsunum sem nú eru aðeins höfð til sýnis fyrir ferðamenn í einum bæ, en áður fyrr á öldum bjuggu víst flestir heimamenn í slíkum húsum...
Á leið til Madeira...
Vikuna 27. okt. til 3. nóv. dvöldum við Rúnar ásamt áhöfn Gullvers og mökum á grænu eyjunni Madeira sem er nánast beint hér suður í Atlantshafi á móts við Marokkó.
En áður en við héldum þangað, þurfti ég að mæta í skólann í Rvk. og um leið nutum við samvista við börnin okkar og aðra ættingja og vini. Við heimsóttum líka Jón B.G. sem er reyndar ættaður frá Seyðisfirði og á vissan hátt meiri Seyðfirðingur í sér en margir heimamenn og líklega manna fróðastur um ýmsa hluti sem snerta bæinn okkar.
Síðasta deginum fyrir brottför eyddum við með dóttur okkar og fjölskyldu í Keflavík og þangað komu Siggi og Bergþór einnig í heimsókn og borðuðu með okkur, eftir að við Adam, Rúnar og Jóhanna höfðum heimsótt tröllkonuna í fjöruhellinum (sjá myndir þaðan neðar á blogginu) og farið í sund í glæsilegri sundhöll heimamanna. Ég ætla svo að halda áfram að segja frá Madeira ferðinni og setja inn nokkrar myndir....
Subscribe to:
Posts (Atom)