Tuesday, November 04, 2008
Duglegir eyjabúar
Það er nokkuð ljóst að heimamenn á Madeira eru ekki jafn vel stæðir og Íslendingar og lífsbarátta þeirra hefur verið hörð, ekki síður en á okkar kalda landi. Það er ótrúlegt hve þeir eru miklir snillingar að hlaða úr grjóti, því bókstaflega allar þeirra fjallshlíðar eru þaktar hlöðnum veggjum sem mynda stalla í hlíðunum sem síðan eru notaðir til ræktunar og ennfremur eru allar hlíðarnar útgrafnar í áveituskurðum sem eru aldagamlir eins og mikið af vegghleðslunum. Þeir kunna líka að nota gamla hluti og gera það oft á skemmtilegan hátt eins og sjá má á myndinni sem hér fylgir með af stóru tannhjóli sem notað er sem undirstaða undir borðplötu, en neðan á hjólið eru svo vínglösin hengd, svo að notagildið hefur ýmsar hliðar.
Einmitt vegna þess hve nýtnir þeir eru, þá kom það á óvart að sjá menn við að höggva niður óþroskaða döðluklasa af pálmunum sem alls staðar vaxa. Þegar við spurðum hverju þetta sætti, fengum við það svar að þeir væru lítið fyrir að borða þessar döðlur, því þetta væru ekki "ekta" döðlur, heldur einhver systur-döðlupálmi. Samt voru þeir að borða þroskuðu döðlurnar og buðu okkur að smakka. Þær reyndust einstaklega sætar, mjúkar og bragðgóðar.
Í höfninni í Funchal eru nokkrir bátar til þess gerðir að sigla með ferðamenn, bæði í veiðitúra og skoðunarferðir. Þar er m.a. eftirlíking af skipi Kólumbusar, St. Maríu sem hann er sagður hafa siglt til Ameríku fyrir rúmum 500 árum. Það lítur út eins og gömul galeiða eða sjóræningjaskip en er notað til að sigla með ferðamenn meðfram ströndinni og skoða höfrunga sem sjást þar víst gjarnan !
En það sem kom okkur kannski mest á óvart var frábært vegakerfi um eyjuna, því bæði er hægt að þræða mjóa og bratta vegi hringinn um eyjuna þar sem útsýnið er einstakt og þar sem flauta þarf víða fyrir horn, því erfitt er að mætast og vissara að láta vita af ferðum sínum til að koma í veg fyrir árekstur. En s.l. 8 ár eða rúmlega það, hafa verið byggð göng í gegnum flest fjöll og hæðir á eyjunni og stórar brýr þar sem þess er þörf. Það er því komin hraðbraut eftir eyjunni endilangri og jarðgöngin líklega orðin yfir 100, mislöng - en öll afar vel gerð og rúmgóð. Aðeins gömul handgerð göng sem við fórum í gegnum eru lág og þröng, svo rútan rétt slapp í gegnum þau. Það væri frábært ef íslensk stjórnvöld væru jafn jákvæð gagnvart jarðgangagerð og á Madeira, þá værum við örugglega búin að fá Samgöng hér um alla austfirði. Meðfylgjandi myndir eru sýnishorn af því sem um hefur verið rætt í þessum þætti, en fleira kemur síðar....
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment