Tuesday, November 04, 2008
Margt að skoða
Ekki veit ég hve marga kílómetra við Rúnar gengum um höfuðborgina, en þeir voru margir og fætur mínir þreyttir og sárir af strengjum en samt hélt maður áfram, því svo margt var til að skoða og tíminn naumur. Við fórum með Binnu og Magga í togbrautina sem liggur frá miðbænum og upp í þorpið Monte. Það er frábært útsýni úr kláfnum yfir borgina og sannarlega þess virði að fara slíka ferð. Uppi á fjallinu er falleg kirkja sem er tileinkuð drottningu fjallanna. Rétt fyrir neðan hana bjóða heimamenn uppá ferð niður brekkurnar í sérstökum farartækjum sem eru eins og tágastólar á trésleða sem þeir halda í og stjórna af mikilli list. Því miður slepptum við því að prófa þessar sleðaferðir, því okkur langaði að skoða stóran og fallegan lystigarð sem var einstaklega fallegur, en til að komast þangað urðum við að taka aðra togbraut sem lá frá kirkjunni yfir gljúfur alþakið trjágróðri, það var stórfengleg sjón að svífa þar yfir. En þessi Botanic garður er þakin blómum og trjám frá öllum heimshornum ásamt heilum ósköpum af fuglum sem gaman var að sjá, ekki síst hvítu páfuglana sem við höfum hvergi séð áður og vitum ekki hvort þeir eru alvöru páfuglar eða albinóar.
Stór hluti íbúanna lifir nú á þjónustu við ferðamenn en afgangurinn stundar fiskveiðar og landbúnað sem aðallega er banana, vínberja og ávaxtarækt auk blómaræktar en sykurreyr var áður fyrr einnig mikið ræktaður. Einnig var mikið um framleiðslu á tágahúsgögnum og hlutum úr tágum á eyjunni auk þess sem konur framleiddu mikið af handunnum dúkum og öðrum varningi til útflugnings. Ennþá má sjá heilmikið af þessari fallegu framleiðslu þeirra, bæði í búðum og á söfnum. Vínframleiðsla hinna frægu Madeiravína er alltaf jafn mikil og skal engan undra, því svo vel smakkast þau.
Ég ætla svo í næstu þáttum að minnast á sögu eyjarinnar og mannlífið á förnum vegi auk þess að sýna svipmyndir frá ferðum okkar um eyjuna, sem sumstaðar minnir heilmikið á okkar kalda land, Ísland.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment