Tuesday, November 04, 2008

Vikudvöl á Madeira




Eins og ég nefndi í síðasta bloggi, þá fórum við Rúnar með Gullvershópnum í vikufrí til Madeira, sem er lítil portúgölsk hálend eyja norðan við Kanaríeyjar. Hún er minna en 1% af stærð Íslands, en þar búa samt næstum jafn margir íbúar og hér, eða um 270 þús. manns að sögn leigubílstjóra sem keyrði okkur víða um eyjuna og fræddi okkur um ýmislegt varðandi hana.
Við gistum í höfuðborginni Funchal á 5 stjörnu hóteli með glæsilegum sundlaugum, sem voru of kaldar fyrir kuldaskræfu eins og mig og í þeim var sjór en ekki vatn sem gerði þær enn minna spennandi í mínum huga og lét ég alveg vera að nota þær. Hinsvegar var notalegt að fara í sauna, gufu og nuddpottinn sem var innandyra. Auk þess var öll önnur aðstaða mjög góð og heimamenn mjög þægilegir.
Veðráttan á eyjunni er einstök, því þar er aldrei mjög heitt og ekki heldur frost eða kuldi eins og við þekkjum og suðrænn gróður vex þar um alla eyju. Þar ríkir eiginlega sumarveður árið um kring, en yfir vetrartímann rignir þó meira en á sumrin og fengum við að finna fyrir því, þar sem hressilegir regnskúrir helltust yfir af og til flesta dagana sem við dvöldum þar. Þá kom sér vel að hafa regnhlífina við hendina, þó svo færi að hún gleymdist í miðborginni áður en haldið var heim á leið. Eyjaskeggjar hafa verið afar duglegir s.l. 10 ár við að byggja upp vegakerfi eyjarinnar og er hún öll sundurgrafin af glæsilegum göngum í gegnum öll þau háu fjöll og fell sem þar eru, enda nánast ekkert láglendi og engar sandstrendur. En nóg er samt af hótelum með góðri sólbaðsaðstöðu og sjórinn yfirleitt nógu heitur til að menn sem þola sjávarsund, geta notið þess að svamla í sjónum og er Rúnar þar meðtalinn. Byggðin er því öll í þverhlíptum fjöllum og uppi á hæðum og hólum, svo undrun sætir hvar þeir geta hugsað sér að búa, það er sannarlega ekki fyrir lofthrædda.
Ég ætla ekki að segja mikið meira í þessum pistli, heldur skrifa nokkra stutta kafla um hina ýmsu viðburði ferðarinnar og setja inn viðeigandi myndir á hverjum stað, því mér finnst svo margt í frásögur færandi úr þessari ferð sem ég held að skili sér betur í nokkrum stuttum köflum ásamt myndum, frekar en einum löngum. En myndirnar sem fylgja hér með eru teknar frá höfninni í Funchal og ofan af svölunum okkar á 8. hæð á hótelinu og loks ein sem bílstjórinn okkar tók af okkur við tvö af gömlu stráþakahúsunum sem nú eru aðeins höfð til sýnis fyrir ferðamenn í einum bæ, en áður fyrr á öldum bjuggu víst flestir heimamenn í slíkum húsum...

No comments: