Monday, February 14, 2011
Enn ein norðurferð !
Enn og aftur skelltum við Rúnar okkur í norðurferð til mömmu á föstudags- morgunn, þó veðurútlitið væri ekki mjög gott. Enda var dimmt yfir og hríðarfjúk frá Jökuldag og langleiðina í Víðidal, en þar voru miklar vindrokur sem feyktu nokkrum bílum út af veginum, einn valt og var illa farinn og gámur fauk af flutningabíl, en við vorum búin að fá viðvörun og fórum því afar varlega um þetta svæði og komumst klakklaust yfir fjöllin.
Það var hinsvegar mikill munur að koma til Húsavíkur og sjá að nánast allur snjór sem var þar fyrir mánuði síðan var horfinn. Við komum nógu snemma til að geta erindað í banka og verslað og meira að segja skruppum við í eina klst. upp í Safnahús til að skoða nýopnaða sýningu á listaverkum, en einnig var búið að setja upp ljósmyndasýningu af gömlum húsum á Húsavík, sem ekki var síðra að skoða.
Á laugardaginn var blíðskaparveður og sól allan daginn og fórum við því með mömmu sem var óvenju hress, í bíltúr um bæinn og nágrenni og kíktum meira að segja í heimsókn til góðra ættingja.
Mamma hafði líka mjög gaman af að koma heim í Hlíð, en nokkuð er síðan við fórum þangað með hana, vegna veðurs og ófærðar við Hlíð í síðustu ferðum okkar.
Rúnar er líka vanur að kíkja niður fyrir Bakkann og heilsa upp á karlana í skúrunum. Aldrei þessu vant fór ég með honum og hafði bara gaman af að hitta þessu hressu sjómenn sem alltaf hafa gaman af að spjalla og fá sér korn í nefið :)
Áttum svo yndælis kvöld hjá Villu vinkonu og Fúsa sem alltaf taka svo vel á móti okkur. Auk þess hittum við öll móðursystkini mín á Húsavík og fleiri góða vini.
Veðrið var líka mjög gott á sunnudeginum, en við lögðum af stað austur í björtu og komumst heim í ljósaskiptunum, þrátt fyrir seinkun vegna krapaslabbs og sjóbreiðu á veginum alla leiðina yfir fjöllinn
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment