Friday, December 28, 2012

Jólakaffið 2012



Fjölskyldujólakaffið var hér hjá okkur að þessu sinnni og ég bjó þá í fyrsta skipti til 
STÓRA SÖRU, sem tókst bara nokkuð vel, þó ég segi sjálf frá :)
Þó ég reyndi að halda réttunum í hófi, þá urðu samt miklir afgangar sem við vorum að
borða næstu daga, þó hægt gengi þar sem við erum aðeins þrjú í heimili núna.
En það sem afgangs verður fer út til fuglanna sem þiggja aukabita á þessum tíma :)



Jólin 2012

Aðfangadagskvöld var rólegt hjá okkur, enda vorum við bara 3 heima að þessu sinni. 
Bergþór var hjá Hildi sinni í Reykjavík og Jóhanna og fjölskylda voru í Cairo hjá tengdafólkinu hennar.
En svo tók við meira annríki á jóladag, því þá fór ég að undirbúa jólakaffi sem var að hluta til í tilefni af stórafmæli Rúnars. Ég útbjó því salöt og setti fyllingar á tertur og smurði flatbrauð bæði með reyktum silungi og hangikjöti og gerði allt klárt, svo ég þyrfti bara að skreyta tertur og útbúa heita rétti á annan í jólum.

Árlegur upplestur á Bókasafninu

Þriðjudaginn 18. desember lásu nemendur 7. bekkjar úr nýjum unglingabókum á Bókasafninu eins og verið hefur undanfarin ár og stóðu sig með prýði eins og alltaf. Á meðfylgjandi mynd má sjá f.v. þá Svein Gunnþór, Stefán Ómar, Jón Arnór og Galdur.

Árlegt jólahlaðborð með áhöfn Gullvers


Það hefur verið venja í mörg undanfarin ár, að áhöfn Gullvers borðar saman á jólahlaðborði á Öldunni.
Að þessu sinni var borðað saman á þriðjudagskvöldi, þegar togarinn var inni að landa, því annar tími gafst ekki og tókst þetta vel. Þetta hlaðborð var örlítið öðruvísi en oft áður, það var t.d. humar í boði og fleira sem mér þótti sérstaklega gott að fá sem tilbreytingu. Samt hef ég aldrei verið jafn hófleg við átið á jólahlaðborði og í þetta sinn. Smakkaði bara á því sem ég vissi að mér þætti gott og sleppti öllu öðru :)

Kirkjukórinn á Akureyri




Helgina 1. des. fór ég með kirkjukórnum og nokkrum mökum í menningarferð til Akureyrar. Á leiðinni norður varð smá skemmtileg uppákoma, því einn kórmeðlimur gleymdi veskinu sínu hjá Leirböðunum, svo við urðum að snúa við til að ná í það. Ógleymanleg uppákoma :)
Þar var nóg að sjá og gera og við eyddum drjúgum tíma í búðaráp og kaffihús o.s.frv.. enda mikið um að vera og jólasveinar á vappi og jólakötturinn mættur á miðbæjartorgið. Við gistum á KEA og fórum þar saman á stórgott jólahlaðborð. Að lokum sátum við svo í nokkra tíma og fylgdumst með beinni útsendingu á þættinum "Gestir út um allt" með Bergson og Blöndal. 
Að því loknu brunuðum við austur aftur eftir góða og afslappandi helgi með hressu fólki.

Wednesday, November 21, 2012

Floridaferð Gullvershópsins !



Dagana 6.-13. nóv. s.l. fór áhöfn og eigendur Gullvers ásamt mökum til Forth Myers á Florida í árlega ferðaviku saman. Veðrið var afar ljúft miðað við það sem við eigum að venjast hér heima á þessum árstíma og nutu allir þess að sóla sig, skoða sig um og versla jólagjafir á hagstæðu verði. Við brugðum okkur m.a. í fenjaferð ásamt nokkrum félögum okkar og handlékum þar krókódíla og slöngur að vild. Sáum alls konar fugla og dýralíf og nutum þess að geta farið út að borða á hverjum degi og vera bara í fríi. Við kíktum líka á söfn og sóluðum okkur pínulítið, en það varð aukaatriði, það var betra að nota tímann til að gera margt annað, þó gott sé líka að fá smá sól á kroppinn í skammdeginu :)

Flækingar frá hlýrri löndum


Nokkuð hefur verið um flækinga hér undanfarið, m.a. hópur af silkitoppum (yfir 20 stk.) og ein hettusöngvarakerling sem notið hafa góðs af eplum bæjarbúa. Ég set daglega út epli handa þeim og þau eru fljót að hverfa, enda fleiri sem þurfa á þeim að halda, því nokkuð margir skógarþrestir eru hér enn og virðast ekkert á förum...

Tuesday, October 23, 2012

Haustferð til Parísar !




Í tilefni af því að Rúnar minn er að verða 6 áratuga gamall, þá brugðum við okkur í 4 daga helgarferð til Parísar og áttum þar fróðlegar og skemmtilegar stundir með góðu samferðafólki og fararstjóra. Það eina sem hefði mátt vera betra, var veðrið, því það rigndi á okkur meira eða minna alla dagana. En enginn er verri þó hann vökni og við nutum þess virkilega að kynnast borginni og þurfum að koma þangað aftur, því svo margt er þar til að skoða að ein stutt heimsókn dugar hreint ekki til þess að sjá nema brot af öllu sem við vildum séð hafa.

Síðbúin haustverk




Síðustu haustverkin í garðinum hafa dregist m.a. vegna fjarveru okkar, en það hefur ekki sakað, því gulræturnar sem eftir voru í garðinum eru fínar, þó stærðarmunurinn sé ansi mikill á þeim stærstu og minnstu sem ég fann.. Einnig voru nokkrar gulrætur með klofnar rætur, en þær eru ekkert verri fyrir það. Loks tók ég svo upp nokkur villigrös sem uxu í endanum á gulrótarkassanum og fékk fínustu kartöflur, þó ég hefði hinsvegar viljað frekar fá gulrætur, en kartöflugrösin virðast hafa kæft gulrótarvöxtinn og því voru þær fáu gulrætur sem voru nálægt kartöflunum mjög litlar, eins og sjá má :)

Monday, September 03, 2012

Viðhald hússins !


Nú á haustdögum tók Rúnar eftir því að endarnir á þakskegginu okkar voru farnir að fúna og ákvað því að fara að skipta um þakskegg, enda kannski ekki skrítið þó þess þurfi eftir meira en 30 ár frá því það var sett upp. Þegar til kom, þá reyndist það aðeins vera í endunum sem fúinn var, vegna þess að götin í þakjárnið höfðu verið höggvin á vitlausan stað, vatnið rann ekki ofaní þakrennurnar, heldur beint á timbrið.  En nú er hann búinn að laga þetta og vonandi dugar það í nokkra áratugi til viðbótar :)

Berjatínsla og haustverkin í garðinum !




Þegar haustar þá fer maður af gömlum vana að undirbúa veturinn, m.a. með því að taka inn allann þann jarðargróður sem í boði er. Ég fór að sulta rabbarbara og tína svo ber, en lengi vel leit ekki vel út með berjasprettu vegna of mikilla þurrka, en það rættist úr því á haustdögum og ég fann heilmikið af góðum bláberjum og er búin að sulta þau og safna góðum forða í frost. Einnig tíndum við í fyrsta sinn nokkur kíló af hrútaberjum og fengum úr þeim dýrindis sultu sem notuð verður um jólin :)
Engin finnast krækiberin að þessu sinni, svo ég dreif í að búa til saft úr rifsberjum og líka hlaup og fór svo að tína blóðberg til að krydda lambakjötið í vetur og þurrkaði skessujurtina í sama tilgangi, en hún er alveg ómissandi á steikurnar og sérstaklega í kjötsúpuna. Loks hef ég verið að taka upp gulrætur, en brá í brún þegar ég sá sumar þeirra sem voru  hressilega vanskapaðar, en samt heilbrigðar og góðar á bragðið. Þrátt fyrir að hafa verið að búa til nýtt beð fyrir þær í vor, þá virðist mér hafa mistekist að stinga það upp, hef greinilega ekki vandað mig nóg vel fyrst að einhver fyrirstaða hefur valdið þessum furðuvexti, svo gulræturnar líta út eins og stafir og í þessu tilfelli fannst mér þær mynda orðið JUL eða JÓL og fannst það bara fyndið :)

Blessuð Mamma kvödd !



Blessuð mamma lést 13. ágúst s.l. en hún var fædd 13. júlí 1926 og sagði alltaf að talan 13 væri happatala fyrir sig, svo segja má að hún hafi komið og farið á þessari happatölu sinni. Veðrið var yndislegt og allt gekk vel. Það eina sem ég saknaði var að Rúnar minn var úti á sjó og gat ekki verið viðstaddur með okkur. Nokkrir aðrir nánir ættingjar, þ.e.a.s. barnabörn og barnabarnabörn voru stödd erlendis og gátu því ekki komið eins og skiljanlegt er. Góðir vinir og ættingjar voru okkur til aðstoðar, sérstaklega í kaffinu sem við höfðum úti i Hvammi og við Didda systir sáum sjálfar um og verðum við ævinlega þakklátar fyrir það.
Þá höfum við kvatt báða okkar foreldra og Munda móðurbróður okkar að auki, 3 vikum á undan mömmu og vonum að ekki verði nú fleiri nánar kveðjustundir í bráð...

Thursday, August 02, 2012

Nokkrir sumargestir !



Hluti af sumrinu snýst um að fá góða gesti í heimsókn og best ef þeir mæta ekki allir í einu... hehe :)
Við höfum verið svo heppin að þeir hafa dreifst nokkuð vel yfir sumarið í ár, þó höfum við líka misst af nokkrum góðum gestum sem komið hafa á meðan við vorum sjálf að heiman, en við því er víst ekkert að gera, aðeins hægt að vona að betur takist til næst...

LungA 2012



Listahátið ungs fólks á Austurlandi eða LungA eins og það nefnist er árleg vika á Seyðisfirði í júlí. Að þessu sinni fylgdist ég fremur lítið með, þar sem ég var bundin í vinnu og með fullt hús af gestum. En hér má sjá sýnishorn af því sem ég fylgdist með, þ.e. unga fólkið var meira og minna utan dyra fyrstu 4 daga vikunnar við ýmsa leiki og störf, m.a. var stóri veggurinn á Bókasafninu málaður eins og hér má sjá. Svo var tískusýning og fleiri slíkar uppákomur og að lokum endaði vikan með tónleikum, sem við fórum ekki á, m.a. vegna þess hve veðrið var orðið óskemmtilegt.

Tuesday, July 31, 2012

Mundi frændi kvaddur !

Minn kæri frændi Guðmundur Theodórsson, eða Mundi eins og við kölluðum hann alltaf, lést hinn 22. júlí eftir löng og erfið veikindi. Mundi var einstaklega þolinmóður og góður við okkur systkinabörnin sín. Hann hafði alltaf tíma til að sinna okkur, kenna okkur og leiðbeina og gerði það á einstakan hátt, svo við lærðum sem mest af því. Hann var mikill og góður bóndi, hestamaður, íþróttamaður, söngmaður og hafði gaman af að dansa gömlu dansana. Hann var líka einstök skytta og veiddi jafnt refi, minka og fugla til matar, auk þess að veiða silung alla æfi í Hafursstaðavatni og víðar.
Ég á ótal margar minningar um hann og okkar góðu samverustundir sem eru mér ómetanlegar og verða aldrei þakkaðar sem skyldi.
Við kvöddum hann hinstu kveðju við útför hans í gær, 30. júlí frá Skinnastaðakirkju í Öxarfirði.
Blessuð sé minning þín kæri frændi !

Gamlar skólasystur !


Tveimur síðustu kvöldunum eyddum við með mínum gömlu góðu skólasystrum og makar þeirra voru með okkur annað kvöldið. Við elduðum saman heima hjá Önnu og Ásgeiri og áttum þar saman yndislegt kvöld 10 manns í hóp og höfðum nóg að spjalla.
Kvöldið eftir fórum við 5 saman út að borða og skemmtum okkur ekki síður vel og fengum góðan mat í Pakkhúsinu sem ég hef ekki komið í fyrr en núna, enda er þetta fyrsta sumarið sem það er starfandi sem slíkt.

Mærudagar 2012



Hinir árlegu Mærudagar voru að vanda síðustu helgina í Júlí og sá í efra svíkur okkur ekki frekar en fyrr, því sól og blíða var alla dagana, svo helgin varð eins ánægjuleg og kostur var.
Margt var til skemmtunar gert og allir hljóta að hafa fundið eitthvað við sitt hæfi. Við fórum að vísu minna en oft áður vegna annríkis við aðra hluti, en við kíktum á vélhjólagengið og fórum í bæjargönguna, fórum rúnt um bæinn að taka myndir af skreytingum sem eru víða skemmtilegar og fallegar. Við fórum í árlegu garðveisluna hjá Adda og Stellu, en þetta er í síðasta sinn sem hún verður hjá þeim, því þau eru að flytja til Akureyrar.
Við kíktum á málverkasýninguna hjá Vidda Breiðfjörð og í Helguskúr eins og alltaf. Skoðuðum markaðinn og  allt hafnarsvæðið. Fengum okkur að borða hér og þar og svo mætti lengi telja, en ég læt þetta nægja að sinni.

Ættarmót og 80 ára afmæli Jóhanns frænda


Áttræðis afmæli Jóhanns föðurbróður míns fór fram í Skúlagarði 13. júlí og fór vel fram eins og við mátti búast. Húsið var fullt af fólki og nóg af gleði og gaman.
En daginn eftir hittist öll Arnanesfjölskyldan á Ættaróðalinu hjá Jónda og Þórunni. Börn Erlings afabróður frá Ásbyrgi mættu líka með sína afkomendur og það var sérstaklega gaman að hitta þau og kynnast þeim sem við höfðum ekki séð áður. Þau komu með gamlar fjölskyldumyndir á minniskubb sem ég sýndi í tölvunni ásamt mínum gömlu myndum og eldra fólkið virtist hafa sérstaklega gaman af að sjá.
Mikið var spjallað og svo auðvitað grillað og borðað saman, þó svolítið þröngt væri um þennan stóra hóp.
Vonandi verðum við dugleg áfram að hittast og hafa samband...