Monday, July 28, 2008

MÆRUDAGAR 2008






Við nutum einstakrar veðurblíðu í 3 daga á Húsavík s.l. helgi, en þá stóðu yfir árlegir MÆRUDAGAR í bænum og íbúafjöldinn hefur vafalaust margfaldast, því annan eins aragrúa af fólki hef ég aldrei séð þar á sama tíma. Við hittum ótrúlegasta fólk sem við höfum jafnvel ekki séð áratugum saman. Það var ótrúlega gaman að sjá og hitta svona marga, þó tíminn væri naumur sem maður fékk til að spjalla við hvern og einn. Við mættum norður á föstudegi og eyddum honum að miklu leyti með mömmu, Diddu systur og fleiri ættingjum og vinum, en skunduðum um kvöldið niður á höfn til að horfa á brennuna, skemmtiatriðin og síðast en ekki síst að sjá og hitta allt fólkið sem var þar á ferð. Fjöldi brottfluttra Húsvíkinga kemur árlega norður á þessa "sæluviku" Húsvíkinga sem yfirleitt hefur heppnast afar vel, ekki síst veðurfarslega séð.
Á laugardeginum vorum við líka mikið með ættingjum og vinum en síðan tók við samkoma okkar fermingarsystkina og endaði hún ekki fyrr en hver og einn hélt til síns heima um nóttina, en ég kvaddi þann síðasta, Ásberg Salómonsson og frú þegar ég keyrði þau heim áður en ég fór sjálf í háttinn.
Á sunnudeginum mættum við systur ásamt Rúnari og fjölda fólks í sögugönguna sem Sigurjóns Jóhannesson stýrði eins og verið hefur undanfarin ár. Hann rölti með okkur stuttan hring um miðbæinn og sagði frá þeim húsum á leið okkar, sem orðin eru meira en 100 ára gömul. Að lokum fengum við að heyra sögu af konu sem fæddist og ólst upp á Húsavík en var síðan býsna víðförul og bjó og starfaði meðal þekktra manna í Evrópu, m.a. með Churchill forsætisráðherra Bretlands.
Sólin var einstaklega dugleg að skína á Húsvíkinga þessa daga og hlýja okkur og gera Mæru-hátíðina að þeim viðburði sem seint gleymist. Við enduðum daginn á því að fara í veislukaffi í nýja og fína íbúð til Huldu og Óla ásamt fleiri góðum gestum og kvölddum síðan ættingja, vini og "gamla" bæinn minn með söknuði, síðdegis á sunnudag...

1 comment:

Anonymous said...

Sæl og blessuð. Þetta eru aldeilis skemmtilegar færslur. Rosalega gaman að sjá myndirnar. ÉG verð að viðurkenna að ég þekki ekki alla á myndunum, erum við að eldast?? :) Þetta hefur verið magnað. Vonandi kemst ég næsta sumar. Nú ligg ég bara og reyni að fara vel um mig, þvílíkur lúxus að hafa tölvu. Kær kveðja austur og ég bið þig að skila kveðju til mömmu þinnar þegar þú heyrir næst í henni og líka Hillu frænku, langt síðan ég hef hitt þær. Kveðja þín gamla skólasystir Ásdís