Thursday, April 30, 2009
Gleðilegt sumar !
Heil og sæl
Nú er vika liðin af sumri og það hefur verið óvenju hlýtt í veðri, þó rignt hafi á hverjum degi. Hinsvegar voru síðustu dagar vetrar sólríkir og fallegir og tók ég t.d. báðar meðfylgjandi myndir þann 20. apríl s.l. en þá mátti sjá fyrstu blómin hér og þar, krókusa og gula hóffífla og fleira.
Ég skellti mér suður um síðustu helgi til að klára námið mitt í bókasafnstækninni og skrapp í fertugsafmæli einnar skólasystur minnar í leiðinni, upp í Borgarfjörð.
Hér á Seyðisfirði er alltaf mikið um að vera, það er nýlega afstaðin heilmikil tískusýning á kjólum og núna þessa helgi er landsmót öldunga í blaki hér í bænum og fjöldi fólks flutti að heiman og leigði hús sín til keppenda þessa helgi. Ég reiknaði með að vera heima þessa helgi og spáði því ekki í að lána mitt hús, en nú hef ég ákveðið að nota þessa löngu helgi til að heimsækja mömmu og vini og ættingja fyrir norðan.
Eftir 2 vikur fer ég suður með kirkjukórnum en til stendur að syngja við messu í Grafarvogskirkju og skemmta brottfluttum Seyðfirðingum síðar sama dag. Viku síðar þarf ég svo að fara aftur suður við útskriftina mína. En ég ætla að nota mér þetta flakk og taka dótturson minn með mér austur og hafa hann í heimsókn hjá okkur gamla settinu þessa tæpu viku. Þá fáum við að njóta hans í nokkra daga og Jóhanna að sofa út og hvíla sig aðeins frá barnastússinu.
Rúnar notaði fríið sem hann var í undanfarið til að taka bátinn á land, botnhreinsa hann og mála og tók af honum einkennisstafina ÞH 226, því nú hefur hann fengið NS í staðinn. Báturinn er því klár og við líka tilbúin að skreppa á sjóinn í sumar þegar gestirnir fara að koma sem boðað hafa komu sína og langar að fara á dorg eða í útsýnisferð um fjörðinn.
Það er notaleg tilhugsun að vera næstum komin í frí og eiga heilt sumar framundan, jafnvel þó allra veðra sé von á okkar blessaða landi, þá vonar maður alltaf að sólin láti sjá sig sem mest og við getum notið náttúrunnar sem best til að safna orku í kroppinn fyrir langan og dimman vetur....:)
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Skemmtilegar mydir. Ef við förum hringinn i sumar þá kíkjum við á ykkur. Hafðu það sem best kæra vinkona kv. Ásdís
Post a Comment