Wednesday, January 06, 2010

Kostgangarar af ýmsu tagi ;)




Það er ekki í frásögur færandi þó ég hafi árum saman haft fasta kostgangara utan dyra, þar sem smáfuglarnir eru annars vegar. En ég hef fóðrað þá á korni og brauði á meðan snjór hylur jörðu og sætt mig við þó ýmsir aðrir drægju sér björg í bú af því sem snjótittlingunum var ætlað. Það er ekki óalgengt að dúfur, máfar og hrafnar mæti og fái sér bita, hitt er sjaldgæfara að sjá mýs sækja sér í matinn. Það hefur þó skeð nokkrum sinnum á s.l. árum, en mér hefur ekki fyrr tekist að ljósmynda þessa fáséðu gesti fyrr en í dag. Fjarlægðin var að vísu ansi mikil, svo myndin er ekki nógu skýr, enda tekin af efri hæðinni gegnum skýjaða rúðu og búin að stækka hana með því að klippa hana.
Og hrafninn var kyrr nógu lengi til að ég næði líka myndum af honum í gær, en hrafnar eru varkárustu fuglar sem ég þekki...
Það er tilbreyting að sjá svona fjölbreyttan hóp kostgangara í heimsókn :)))
Vonandi verð ég bara fær um að gefa þeim næstu daga, en ég rann illa í tröppunum í kvöld og skall á rófubeinið og bakið í harðar tröppurnar. Ég gat þó staðið upp og tel mig ekki hafa brákast, þó aum sé. Þetta líður bara hjá eins og annað sem þvælist fyrir manni og pirrar mann í dagsins önn. Þá er best að fara bara í Pollýönnuleik :)

1 comment:

Asdís Sig. said...

Æji Solla mín, slæmt að þú skildir detta svona, en ég verð nú bara að segja að eftir reynslu síðustu daga þá eru verkir hér og þar í líkama ekki neitt miða við þá vanlíðan sem heltók mig eftir svæpfinguna, er skárri en alls ekki komin með matarlyst eða góða líðan enn, þetta kemur samt smátt og smátt, hænuskref á dag eins og sólin :) fallegar myndir af litlu dýrunum. Kær kveðja