Friday, October 29, 2010

Sandra Marie kvödd !


Í dag, föstudaginn 29. okt. var Sandra Marie Reynisdóttir 17 ára tvíburi á Seyðisfirði kvödd hinstu kveðju í Seyðisfjarðar- kirkju, eftir langvarandi baráttu við ættgengan sjúkdóm sem hún og tvíburasystir hennar Janet hafa verið lengi með.
Tilfinning mín í kirkjunni var sú, að nánasta fjölskyldan væri búin að ná það mikilli sátt við þessa erfiðu lífslexíu, að ég fann lengi vel aðeins til friðar sem mér fannst umvefja alla viðstadda. Lokastundin var hinsvegar flestum viðstöddum erfið, enda ekki á hverjum degi sem fólk kveðjur unglinga í blóma lífsins.
Myndin sem fylgir hér með er af þeim tvíburasystrum Söndru og Janet og ég verð að viðurkenna að ég var aldrei viss um að þekkja þær í sundur, enda hafa þær ekki búið hér nógu mörg ár til þess að maður hefði tækifæri til að kynnast þeim nógu náið.
En ég held að það sé Sandra sem er í Rauðbleiku peysunni....
Blessuð sé minning hennar og GUÐ styrki systir hennar og fjölskyldu!

Friday, October 15, 2010

Barist gegn einelti !



Í dag föstudaginn 15. okt. er Dagur gegn einelti. Þá er æskilegt að allir sem vilja leggja málefninu lið, klæðist í einhver græn föt og virtist það bara nokkuð algengt hér í bænum í morgun. Ég skrapp til að fylgjast með skólabörnunum sem í tilefni dagsins mættu flest í einhverjum grænum flíkum og fóru m.a. í ratleik með kennurum og foreldrum sem mættu til leiks.
Eftir 5 daga eða 20. okt. verður hinsvegar fjólublár dagur, þá klæðast þeir fjólubláu sem styðja vilja við réttindabaráttu samkynhneigðra.
Það er bara gott mál að hin og þessi samtök tileinki sér ákveðna daga á ári hverju og minni á þau réttindi sem við öll eigum, en ekki eru alltaf virt, því miður !

Heimsóknir leikskólabarna á bókasafnið !


Það hefur verið fastur liður undanfarin ár að starfsfólk leikskólans Sólvalla mætir vikulega með hóp leikskólabarna á Bókasafnið. Þá er tekið fyrir eitthvað ákveðið þema hverju sinni, t.d. einhver dýr eða mannslíkaminn eða annað sem hægt er að skoða í bókum og spjalla um.
Ég ákvað að nota uppskeruna sem þema í síðustu samverum með börnunum og mætti með kartöflur, gulrætur, ber og síðast en ekki síst óvenju STÓRAN maðk sem ég fann í kartöflugarðinum þegar ég var að taka upp um daginn.
Ormurinn vakti mikla lukku og allir vildu fá hann í lófana og láta hann kitla sig og gerði þá lítið til þó mold væri að þvælast með honum á hendur allra :)
Börnunum fannst það líka skrítið að það væru einmitt maðkarnir sem búa til moldina fyrir okkur og því afskaplega nauðsynlegir í náttúrunni.

HAUSTLITIR



Núna um miðjan október keppast tré og annar gróður við að fella laufin og gular breiður af Alaskalaufum þekja víða garða, götur og sérstaklega heimkeyrslur. Flest laufin eru orðin rauð, gul eða brún en einstaka tré og runnar eru þó ennþá fagurgræn og virðast ekkert ætla að skipta um lit eins og grenitrén sem alltaf eru sígræn.
Þetta eru t.d. sum kvæmi af Alaskavíði sem fara seinna af stað á vorin en halda sér mikið lengur og betur á haustin. Sama virðist vera með Reyniviðinn, einstaka tré eru ennþá fagurgræn á meðan flest önnur sömu tegundar eru orðin rauð, gul og brún.
Ekki veit ég af hverju þetta stafar, en það er ekki hægt að komast hjá að taka eftir þessu, þegar náttúran skartar haustlitunum allt í kringum mann en stöku tré sker sig rækilega úr fjöldanum.

Saturday, October 09, 2010

Gömul minning !


Þegar ég var 17 ára fór ég til Kanaríeyja með bróður mínum. Þá smökkuðum við þær stærstu og bestu kókosmakkarónur sem við höfðum fengið á ævi okkar. Alla tíð síðan hef ég látið mig dreyma um að finna jafn stórar og góðar kökur öðru sinni og það tókst núna í Bodrum, mér til mikillar ánægju. Þær eru lófastórar, stökkar að utan, en mjúkar hið innra og mátulega sætar og einstaklega bragðgóðar....
Það er eins gott að ég hef ekki slíkar freistingar hér heima við hendina, þá gætu þær nú farið ansi illa með línurnar mínar :))

Margt hægt að skoða og gera...





Eitt gleymdi ég að nefna, en það var afar góður kvöldverður sem við nutum á einu fínasta veitingahúsi staðarins í boði áhafnarinnar, hátt uppi yfir bænum á palli utandyra. Það var reyndar orðið ansi svalt í norðan golunni svo síðla dags, svo þjónarnir komu með glóðvolg ullarsjöl og lögðu yfir herðar okkar, því greinilegt var að flestum var frekar kalt. En maturinn var eins og best er á kosið.
Við skoðuðum engin söfn að þessu sinni, nema það sem var innan veggja kastalans, en saga hans er býsna fróðleg, þó ég sleppi því að segja hana hér.
Þrátt fyrir að við Rúnar séum lítið fyrir búðarráp, þá höfðum við býsna gaman af að rölta um hafnarsvæðið og verslunargöturnar þar og skoða það sem í boði var. Eitt það áhugaverðasta í mínum augum var gríðarstór Ametiststeinn sem sjá má hér við hliðina á Rúnari. En það var líka ágætt inn á milli að tilla sér í sólina og lesa góða bók, enda ekki amalegt að fá smá lit á kroppinn fyrir veturinn sem nú styttist óðum í....
Sumir kusu að fara í golf og aðrir fóru í köfunarleiðangur og sigling var á dagskránni en eitthvað fór úr skorðum, svo ekkert varð af henni. Margt fleira var hægt að gera sér til afþreyingar, auk þess sem mér fannst gaman að rölta um íbúðabyggðina og sjá heimamenn við leik og störf. Flestir tóku því vel að vera ljósmyndaðir á förnum vegi, en einstaka kærði sig greinilega ekkert um það, enda töldu múslímar (og sumir gera það víst ennþá) að maður gæti rænt þá sálinni ef maður tæki af þeim ljósmynd.

Bodrum og nágrenni





Fyrsta ferðin sem við fórum var bæjarferð innan Bodrum og nágrennis, þar sem við skoðuðum Péturskastalann sem blasti við okkur frá hótelinu og vindmylluhæðina sem er svolítið fjær en kastalinn. Kastalinn var byggður að hluta til úr hinu fræga grafhúsi Mausolusar konungs frá 4. öld fyrir Krist, sem áður var talið eitt af sjö undrum veraldar.
Svo var ekið um ýmsa hluta bæjarins og Þóra fararstjóri rakti söguna langt aftur í aldir. Sagði m.a. frá bjargvætti Tyrklands sem setti lög sem komu konum til góða, t.d. að bannað væri að þær gengju í búrkum og fjölkvæni var bannað, svo eitthvað sé nefnt. Tyrkir eru yfir 90% múslímar og því moskur víða um borgina, en turnar þeirra blasa hvarvetna við og hátalarakerfi er notað til að minna menn á daglegar bænastundir, sem ómuðu oft á dag, ef vel var að gáð.
Við fórum upp á aðra hæð í borginni þar sem byggt var mikið virki og djúpur sýkisskurður í kring á dögum Alexanders mikla að mig minnir. Aðeins hliðarinngangurinn í virið stendur ennþá að hluta til og minnir á forna tíma. Við skruppum á ávaxtamarkaðinn og fengum þar nýtíndar fíkjur, fengum okkur að borða á veitingastað við bátahöfnina og enduðum ferðina í stóru og flottu verslunarhúsi sem selur skartgripi af dýrustu gerð. Ég veit ekki til að neinn úr okkar hópi hafi verslað þar, enda varla von miðað við verðið á ódýrustu hlutunum.
Margt fleira áttum við eftir að skoða á eigin spýtur sem verður kannski lokafrásögn þessarra ferðaminninga...

Fjallaferðin




Daginn fyrir heimförina fór meirihluti Gullversliðsins í Fjallaferð, þar sem við fengum að sjá heimafólk framleiða í höndunum falleg og vönduð gólfteppi úr ull, bómull og silki. Þau eru auðvitað misstór, misvönduð og misdýr, en allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Nokkrir í hópnum keyptu teppi en aðrir létu sér nægja að skoða umhverfið, drekka tyrknest te og borða mat innfæddra, auk þess sem við gengum í mosku heimamanna og sýndum að sjálfsögðu þá kurteisi að setja upp slæður eins og tíðkast hjá þeim og taka af okkur skófatnaðinn.
Þetta var að mörgu leyti óvenju skemmtileg ferð og öðruvísi en fyrri ferðir.

Gríska eyjan KOS





Þriðja ferðin okkar Rúnars þessa viku var til grísku eyjarinnar Kos, sem kennd er við faðir læknisfræðinnar, Hippókrates sem þar bjó alla æfi, en eyjan er staðsett í aðeins einnar stundar siglingu frá Bodrum. Það var því stutt að fara, en tímafrekt að fara 4 x sinnum gegnum tollana á einum degi. En það var sannarlega þess virði að skreppa þessa för, því það var bæði fallegt og fróðlegt að heimsækja Grikkina heim.
Þeir virðast mikið meiri snyrtimenni en Tyrkir, Því allt var einstaklega hreint og fínt hjá þeim. Við heimsóttum litla víngerð sem býr til ljómandi góð léttvín. Svo fórum við upp undir hæsta fjallstind eyjarinnar í fjallaþorp sem tók vel á móti okkur, Það skoðuðum við fallega litla kirkju og röltum í búðir, en enduðum svo heimsóknina með því að fá okkur að borða djúpsteiktan smokkfisk sem okkur finnst alltaf jafn góður. Ferðinni var síðan heitið niður til borgarinnar, þar sem við röltum um í rólegheitum, þar til tími var til að mæta aftur í ferjuna heim á leið.
Þetta var einstaklega ánægjuleg ferð í yndislegu veðri og fallegu umhverfi...

Friday, October 08, 2010

Maríuhús og leirverksmiðja





Á leiðinni til og frá Efesus heimsóttum við 2 nokkuð merkilega staði. Fyrst skal telja leirverksmiðju sem býr til afar mikið af skrautmunum til handa ferðamönnum og heimamönnum. Við fengum að sjá starfsmenn við sín störf, eins og rennismiðinn sem var enga stund að útbúa litla skál og lok ofan á hana sem passaði upp á millimeter.
Enda er maðurinn nefndur "superman" á vinnustað sínum. Við fengum líka að sjá listakonuna sem málar gripina og loks að sjá sölubúðina sem er gríðarstór og flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Hinsvegar var það svo fjallakofinn hennar Maríu móður Jesú, en sagan segir að Jóhannes postuli hafi komið með hana á efri árum og þau dvalið þar síðustu 4 æviár hennar. Á staðnum er hrein og tær uppsprettulind sem litið er á sem heilaga og hús Maríu er afar fábrotið en fallegt og þetta er mjög vinsæll ferðamannastaður, þó Tyrkland sé byggt nær eingöngu af múslímum, þá trúa þeir samt líka á Maríu og skrá bænir sínar eins og ferðamenn gera sem þarna koma. Langur steinveggur er þakinn bréfum sem bundin eru saman og hanga eins og net eftir endilöngum steinveggnum...
Það var mjög notalegt að koma á þennan fallega og friðsæla stað sem kom þægilega á óvart...

Gamla borgin EFESUS / EPHESUS





Fyrr á öldum stóð borgin Efesus við árfarveg sem rann út í sjó. En gegnum tíðina bar áin svo mikinn framburð til sjávar að hún fyllti uppí árfarveginn og þornaði síðan upp, svo borgin fór í eyði vegna vatnsskorts og aðstöðuleysis. Hún hvarf smám saman undir jarðveg og lá þar gleymd og grafin þar til hún fannst þegar leggja átti járnbraut um svæðið. Það er því enn verið að grafa hana upp og kemur sér því vel að ferðamenn greiða fyrir aðgang að þeim hluta hennar sem búið er að gera sýningarhæfan.
Margt kom á óvart og vissa hluti lærðum við eins og t.d. það að súluhöfuðin eru þrenns konar, nefnast Dorisk, Jónisk og Korinsk eftir því hvernig skreyting er á þeim. Hér á meðfylgjandi mynd eru Jónískt súluhöfuð (snigill) og Korinskt með laufblöðum á. Dorisku súlurnar voru hinsvegar minnst skreyttar.
Þóra fararstjóri sem er að læra sagnfræði hefur búið í Grikklandi í meira en 20 ár og því afar fróð og áhugasöm um menningar við Miðjarðarhafið. Hún er einhver fróðasti og besti fararstjóri sem ég man eftir að hafa haft í okkar ferðum og er þá mikið sagt, því margir þeirra hafa verið alveg ágætir.
Það er nokkuð langur akstur frá Bodrum til Efesus, eða um 3 klst. en samt alveg þess virði ef maður hefur áhuga og auk þess stoppuðum við á nokkrum stöðum í báðum leiðum og sáum ýmislegt fleira sem ég ætla að segja frekar frá hér á eftir...

Tyrkneskt bað...og nudd !



Eitt af því sem okkur var ráðlagt að prófa var að fara í Tyrkneskt bað og nudd.
Við höfðum auðvitað ekkert á móti því, en þegar til kom, þá reyndist það mikið dýrara en okkur hafði verið sagt og ég var að hugsa um að hætta við allt saman, en Rúnar vildi að við prófuðum þetta og eftirfarandi lýsing passar við þá meðferð sem við fengum.
Fyrst fórum við í sundfötum inn í gufubað og sátum þar um stund, þar til svitinn lak af okkur. Þá vorum við drifin inn í klefa þar sem fínt salt þakti allt gólfið. Við áttum að velta okkur uppúr saltinu og gerðum það auðvitað. Þaðan var farið með okkur inn í baðklefa, þar sem yfir okkur var hellt volgu og köldu vatni til skiptis, en inn á milli vorum við nudduð með grófum hönskum og einhverju efni eins og sandi sem átti að hreinsa allar dauðar húðfrumur af líkamanum. Að lokum fengum við svo létt sápunudd áður en við vorum skoluð og send í afslöppun, þar sem við biðum býsna lengi þar til ung stúlka setti á okkur leirmaska sem þurfti síðan að standa á andlitum okkar annan eins tíma og við höfðum beðið. Loks vorum við svo send inn í nuddklefa þar sem við fengum nuddmeðferð sem líktist að sumu leyti öðru nuddi sem við höfum prófað hingað til. Þó var þar einn stór munur þar á, þ.e. nuddarinn sem var karlmaður var ansi nærgöngull, meira en ég kærði mig um, þó ég léti kjurt liggja. En ég komst svo að því eftirá að fleiri konur höfðu lent í því sama og þær töluðu við fararstjórann um þetta sem fór lengra með málið, sem endaði víst á því að einn starfsmaður a.m.k. missti vinnuna af þessum sökum.
Mér fannst þetta koma úr hörðustu átt, þar sem múslímar kæra sig ekki um að aðrir karlmenn sjái of mikið af þeirra konum, hvað þá að þeir snerti þær hálf naktar. En það er auðvelt að dæma aðra og hægt að skaða fólk með slíku, svo ég hef reynt að taka því sem að höndum ber án þess að gera mikið mál úr því....þó stundum verði maður að segja sína meiningu :)

Haustferð til Tyrklands




Vikuna 29. sept. til 6. okt. dvöldum við ásamt áhöfn Gullvers og mökum í Tyrklandi.
Þegar við komum til Bodrum eftir tæplega 6 stunda flug frá Keflavík, þá datt mér í hug Guðríður Þorbjarnardóttir víðförlasta kona sögualdar, sem gekk suður til Rómar og aðrir fornir Íslendingar sem lögðu leið sína suður til Miklagarðs sem þá var höfuðstaður Tyrkjaveldis. Þeir ferðalangar hafa verið vikur eða mánuði á leiðinni sem aðeins tók okkur nokkra tíma að skjótast á milli.
Við gistum á stóru og vel búnu hóteli með fullu fæði inniföldu. Margar sortir matar voru í boði, en tilbreyting í mat var samt af skornum skammti, svo hætt er við að flestir fái nóg ef þeir borða þar alla daga í meira ein eina viku.
Flestir höfðu þó list á að drekka bjór og aðra drykki sem í boði voru frá morgni til kvölds.
En við vorum hinsvegar mikið á ferðinni og snæddum þá daga á öðrum stöðum og fengum því meiri tilbreytingu en ef við hefðum ekkert farið.
Sólbaðsaðstaða var líka ágæt og margt fleira í boði sem við notuðum lítið eða ekkert.
En mig langar að segja svolítið frá þessari dvöl í Tyrklandi og skipta frásögninni niður í nokkra hluta með viðeigandi myndum svo hún verði ekki of einhæf og langdregin.

Hittingur með afkomendunum !



Það hefur verið árlegur viðburður að áhöfn Gullvers hefur boðið mökum sínum í haustferð til útlanda og að þessu sinni var ferðinni heitið til Tyrklands. En þar sem við vorum svo heppin að Rúnar átti frítúr áður en við lögðum af stað og ég átti enn eftir nokkra sumarfrídaga, þá notuðum við hluta þeirra hjá afkomendum okkar áður en ferðin hófst. Við buðum þeim öllum í gæsaveislu og nutum stuttra en góðra samvista með þeim. Þegar við komum til baka var sjónarmunur á því hvað Sumaja Rós var orðin stærri og mannalegri og þá tók ég meðfylgjandi mynd af henni til samanburðar við fyrri myndir :)