Saturday, October 09, 2010
Margt hægt að skoða og gera...
Eitt gleymdi ég að nefna, en það var afar góður kvöldverður sem við nutum á einu fínasta veitingahúsi staðarins í boði áhafnarinnar, hátt uppi yfir bænum á palli utandyra. Það var reyndar orðið ansi svalt í norðan golunni svo síðla dags, svo þjónarnir komu með glóðvolg ullarsjöl og lögðu yfir herðar okkar, því greinilegt var að flestum var frekar kalt. En maturinn var eins og best er á kosið.
Við skoðuðum engin söfn að þessu sinni, nema það sem var innan veggja kastalans, en saga hans er býsna fróðleg, þó ég sleppi því að segja hana hér.
Þrátt fyrir að við Rúnar séum lítið fyrir búðarráp, þá höfðum við býsna gaman af að rölta um hafnarsvæðið og verslunargöturnar þar og skoða það sem í boði var. Eitt það áhugaverðasta í mínum augum var gríðarstór Ametiststeinn sem sjá má hér við hliðina á Rúnari. En það var líka ágætt inn á milli að tilla sér í sólina og lesa góða bók, enda ekki amalegt að fá smá lit á kroppinn fyrir veturinn sem nú styttist óðum í....
Sumir kusu að fara í golf og aðrir fóru í köfunarleiðangur og sigling var á dagskránni en eitthvað fór úr skorðum, svo ekkert varð af henni. Margt fleira var hægt að gera sér til afþreyingar, auk þess sem mér fannst gaman að rölta um íbúðabyggðina og sjá heimamenn við leik og störf. Flestir tóku því vel að vera ljósmyndaðir á förnum vegi, en einstaka kærði sig greinilega ekkert um það, enda töldu múslímar (og sumir gera það víst ennþá) að maður gæti rænt þá sálinni ef maður tæki af þeim ljósmynd.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Alveg yndislegar þessar myndir hjá þér, rosalega hefði ég viljað eiga steininn stóra sem Rúnar stendur hjá :) Takk fyrir þetta allt, virkilega gaman að skoða. Kær kveðja austur
Post a Comment