Sunday, October 09, 2005

Eiríkur Hrafn skírður !


Kæri Þröstur, Birna og fjölskylda
Við óskum ykkur innilega til hamingju með skírnardaginn hans Eiríks Hrafns. Mikið hefði verið gaman að geta litið inn í eigin persónu og hitt ykkur öll. Svo eru góðar tertur alltaf vel þegnar, þó enga höfum við hungurverki :-)
Héðan er allt gott að frétta, mjög rólegt og stillt veður. Jörð var reyndar fölhvít snemma í morgun en snjóinn tók strax upp og núna síðdegis er orðið autt upp fyrir Botna.
Mig dreymdi heilmikið ferðalag í nótt, fannst við Rúnar vera með nokkrum Seyðfirðingum í erlendri borg og Lóa var líka með okkur. Spurning hvort þetta sé fyrirboði næstu ferðar okkar, en það hefur gjarnan hent mig að dreyma fyrir væntanlegum ferðalögum með góðum fyrirvara, hvort sem þær hafa verið ákveðnar eða ekki á þeirri stundu.
Annars hef ég setið stóran hluta þessa friðsæla sunnudags og skannað og skráð gamlar myndir sem komu nýlega í mínar hendur frá sr. Kristjáni Róbertssyni. Þetta eru allar myndirnar sem hann notaði í bókina Byggðasaga Seyðisfjarðar, auk fjölda annarra ónotaðra mynda. Ég fékk það hlutverk að koma þeim í hendur réttra eigenda og nota að sjálfsögðu tækifærið til að taka afrit af þeim áður. Ég læt fljóta hér með eina mynd frá stríðsárunum, þegar skipið Furious stóð í ljósum logum hér á firðinum. Lóa ætti að kannast við þetta...Mér finnst þetta mjög fræðandi og forvitnilegt, en tímafrekt er það og best að hugsa ekki um það.....!
Ég er nú á förum á minn vikulega fund með Yogahópnum mínum, þar sem við æfum saman Kundaliniyoga og hugleiðslu. Segi ykkur e.t.v. meira frá því síðar.
Við Bergþór (og Rúnar sem er úti á sjó) sendum okkar allra bestu kveðjur suður yfir heiðar í tilefni dagsins.
Hittumst heil.........

1 comment:

Sólveig Sigurðardóttir said...

Takk fyrir hugulsemina elskan !