Wednesday, October 12, 2005

Jarðgöng lífsnauðsynleg


Sælt veri fólkið !
Mér datt í hug að fjalla aðeins um það hve aðkallandi það er að við Austfirðingar fáum hér jarðgöng á milli allra fjarða. Nýju göngin frá Reyðarfirði til Fáskrúðsfjarðar (sjá mynd) sanna a.m.k. fyrir okkur sem hér búum nauðsyn þess fyrir velflesta íbúa á Austurlandi. Ástæðurnar eru borðleggjandi, því aðeins einn menntaskóli og einn verkmenntaskóli er á svæðinu og eitt fjórðungssjúkrahús, einn flugvöllur með reglubundnar samgöngur í lofti, sitt á hverjum staðnum og þannig má áfram telja. Til að íbúar á svæðinu hafi nokkuð jafna aðstöðu, verða samgöngur á milli staða að vera miklu betri, svo hægt sé að sækja skóla, vinnu og þjónustu á öllu svæðinu (hver frá sínu heimili) án þess að aka langar leiðir yfir snjóþungar heiðar sem verða illfærar og ófærar meðan veður eru skapleg niðri í byggð. Þetta er ekki bara byggðamál okkar á Austurlandi, því fyrir velflesta ferðamenn sem hingað koma með Norrænu, eru þessir fjallvegir, eins og Fjarðarheiðin, mjög erfið þeim sem óvanir eru svona fjallvegum. Það er líka hagur allra landsmanna að eiga greiða leið kringum landið á hvaða árstíma sem er, m.a. fyrir þá sem nota ferjuna. Og síðast en ekki síst hafa þungaflutningar aukist gríðarlega. Það verður að segjast eins og er að litlar fréttir fara af þeim vandamálum sem bílstjórar þessarra stóru bíla eiga við að glíma í bröttum brekkum og beygjum ekki síst í snjó og hálku. Við sem hér búum höfum séð sýnishorn af því. Ef svo heldur fram sem horfir með auknar samgöngur og ferðamannastraum án jarðgangna, þá endar þetta með ósköpum einn daginn, því það er örugglega aðeins varkárni og/eða hræðslu flestra ökumanna að þakka að ekki hafa orðið fleiri og verri slys hér á Fjarðarheiði en raun er á. Í raun og veru veltur framtíð byggðar á Austurlandi mikið á þessu stóra máli. Við skulum vona að ráðamenn sýni þá forsjálfni að vinna rétt að þessum málum öllum landsmönnum til heilla um ókomna framtíð. Við verðum öll að leggjast á eitt og styðja slíkar framkvæmdir...
Lifið heil !

No comments: