Tuesday, October 18, 2005
Óvissuferðin
Það var sannkölluð óvissuferð sem beið okkar, bæjarstarfsmanna (og maka) sem fórum í helgarferð til að upplifa Rokkhátíðina á Höfn í Hornafirði. Beggi Tomm bílstjóri ók okkur fyrsta spölin, yfir Fjarðarheiði, því hávaðarok var þar uppi og ekki fýsilegt fyrir Gulla aðalbílstjórann okkar (sem er óvanur rútum) að byrja ferðina við slíkar aðstæður. En hann tók við hjá Miðhúsum og var rétt kominn inn á Fagradal þegar þær fréttir bárust okkur að Hvalnesskriðurnar væru ófærar vegna grjóthruns. Þá var úr vöndu að ráða. Eftir samráð við veitingafólk á Djúpavogi var haldið þangað, enda biðu menn þar eftir okkur með yndælis súpu og skutu svo skjólshúsi yfir þessar 49 hræður sem voru strandaglópar því leiðin í báðar áttir var lokuð tímabundið. En öll pissustoppin á leiðinni þangað eru ótalin og tóku sko X-langan tíma….!
Það gekk líka hægt að gera við skriðurnar á laugardeginum, enda miklar vegaskemmdir og veðurhæð ansi mikil. En um þrjú-leytið var lagt af stað. Þá höfðu flestir grandskoðað söfnin í Löngubúð og nánast tæmt sjoppuna af hamborgurum og öðru sem til var, enda stór hópur af svöngum Seyðfirðingum á ferð. Það gekk vonum framar að komast yfir skriðurnar, miðað við slæmt útlit og hvífyssandi öldur sem brutu á skriðunum ásamt roki og stórrigningu sem olli því að lítið sást úr út. Rútan sjálf var eins og gufubað innan dyra, móða á öllum rúðum og leki úr loftinu svo mikill, að margir voru orðnir jafn rakir að utan og innan….!
En til Hafnar komumst við tímanlega fyrir matarveisluna og sönghátíðina sem fór vel fram með fjölda ungra og efnilegra söngvara sem stigu á svið og létu ljós sitt skína. Heimamenn tóku afskaplega vel á móti okkur og maturinn sem fyrir okkur var borinn var einstaklega huggulegur og bragðaðist vel.
Á sunndag var blásið til heimferðar, en fyrst var þó farið í stutta óvissuferð niður á höfn þar sem snæddur var grillaður humar og nóg meðlæti í gömlu hafnarhúsi. Allt rann þetta fóður ljúflega niður. Síðan gengu menn léttir í spori á Jöklasýninguna glæsilegu sem nú fyllir gamla kaupfélagshúsið á Höfn. Þaðan var svo haldið heim á leið í þokusúld. Gekk sú ferð vandræðalaust og aðeins tvær pissupásur á allri leiðinni. Þar af var önnur pásan notuð til að spila golf á túni einhvers bónda sem ugglaust verður hissa þegar hann finnur golfkúlur út um allt tún hjá sér….Allir komust heilir heim þetta kvöld, það ég best veit og segi því þessa sögu ekki lengri…
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment